Um Laka

Skaftáreldar brunnu 1783–84. Þá opnaðist um 25 km löng gossprunga þar sem Lakagígaröðin er nú. Annað mesta hraun Íslandssögunnar, Skaftáreldahraun, rann frá Lakagígum.

Frá vesturhluta gíganna flæddi hraun niður farveg Skaftár og breiddist út á láglendi milli Kúðafljóts og eystri kvíslar Skaftár. Þessi kvísl hraunsins nefnist Eldhraun. Frá austurhluta gígaraðarinnar rann hraunið niður farveg Hverfisfljóts og breiddist út á Brunasandi. Sá hluti kallast Brunahraun.

Hörmungarnar, sem fylgdu Skaftáreldum, eru þær mestu sem dunið hafa yfir Íslendinga á síðari öldum. Eitruð aska dreifðist yfir mestallt landið og gosmóða mengaði loft. Af þessari móðu fengu harðindin nafn sitt – Móðuharðindi. Frá fyrsta degi gossins var ljóst hvert stefndi; svartur gosmökkurinn barst niður á láglendið og öskufall varð í byggð þannig að myrkvaðist í húsum og sporrækt varð á jörðu.

Eitruð aska spillti högum svo að búfénaður veiktist af gaddi og svalt. Vegna móðunnar kólnaði í veðri og hafís lagðist að landi. Þegar leið á veturinn 1783–1784 hrundi búfé niður úr hor og sjúkdómum sem stöfuðu af eitruðum gosefnum. Mannfólkið dó úr hungri. Í Móðuharðindunum lést fimmti hver Íslendingur, alls um tíu þúsund manns, og um 75% búfjár landsmanna féll. Í Fljótshverfi, Meðallandi og á Síðu dóu um 40% íbúanna, 20 jarðir fóru undir hraun og þrjátíu stórskemmdust svo að þær héldust ekki í ábúð um tíma eftir Eld.

Brennisteinsmóða og fíngerð aska frá Skaftáreldum dreifðist um allt norðurhvel jarðar og hafði veruleg áhrif, bæði á umhverfi og veðurfar. Hinn 24. júní 1783 lá móðan sem svartasta þoka yfir allri Evrópu. Um mánaðamótin júní – júlí hafði hún dreifst yfir Rússland, Síberíu og Kína. Þegar verst lét þakti móðan um það bil fjórðung af yfirborði jarðar eða allt landsvæði norðan þrítugasta breiddarbaugs. Því hefur verið haldið fram að franska byltingin hafi í raun átt sér upphaf í Skaftáreldum vegna þeirra gífurlegu áhrifa sem móðan hafði á veðurfar og akuryrkju í Evrópu á þessum tíma.