Um Eldgjá

Árið 939 gaus Katla stórgosi og jós mikilli ösku yfir nágrennið. Norðaustur úr henni rifnaði upp mikil sprunga, Eldgjársprungan sem er um 75 km löng og nær næstum jökla á milli. Skipta má gossprungunni í þrjá aðalhluta. Nyrst eru Kambagígar og gígar við Stakafell, sem ná allt norður að Tröllhamri, þessi hluti sprungunnar er austan Skaftár og því aðgengilegur frá Lakasvæðinu. Á miðhluta sprungunnar er Eldgjá sjálf og gígar og sprungur beggja vegna við hana. Þar er Eldgjá er stórbrotnust og í daglegu tali er átt við þann hluta sprungunnar þegar talað er um Eldgjá og liggur Fjallabaksleið nyrðri þar um sprunguna. Frá veginum og að Gjátindur er sprungar óslitin, víða um 600 m breið og allt að 200 m djúp. Í gjárbörmunum eru gjallskriður og hamrabelti oft með rauðum lit en inn á milli gulgrænn litur mosamottunnar og svart gjallið. Nyrðri-Ófæra fellur ofan í gjána norðarlega í Ófærufossi og rennur hún svo eftir gjárbotninum. Suðurhluti Elgjár er gígaröð norður af Öldufelli og hverfur hún svo inn undir Mýrdalsjökul með stefnu á Kötlu. Víða gaus á sprungunni en þó mest í suðurhlutanum. Hraun rann bæði niður á Mýrdalssand og yfir land þar sem nú er Álftaver (Álftavershraun) og einnig niður farveg Skaftár og niður í Meðalland (Landbrotshraun). Þótt gosið hafi orðið á sögulegum tíma fer afar litlum sögum af því. Sumir telja að þess sé getið í Landnámu en þar segir af fjölmennri byggð í Álftaveri sem menn urðu að flýja þegar jarðeldur rann þar yfir. Hraunið frá Eldgjá er mesta hraun sem runnið hefur í einu gosi á jörðinni á sögulegum tíma. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hraunið frá Eldgjá sé um 18 rúmkílómetrar og hafi þakið um 800 ferkílómetra.   Gjóskan sem féll er talin hafa verið um  um 5-7 rúmkílómetrar sem er gríðarlega mikið magn. Má víða sjá gríðarlega þykk gjóskulög á svæðinu bæði frá Eldgjárgosinu og öðrum eldgosum úr Kötlu, Veiðvötnum og fleiri eldstöðvum.