Tjaldsvæði

Ásbyrgi

English version

Tjaldsvæðið í Ásbyrgi er opið frá miðjum maí til enda október ár hvert. Veðrátta stýrir því hvenær hægt er að opna tjaldsvæðið, en vorið 2021 opnar 20. maí.

Sjálfsafgreiðsla tjaldstæða

Tjaldstæði eru seld á vefnum parka.is/asbyrgi. Við mælum með því að gestir bóki stæði áður en þeir mæta á svæðið. Ef ekki er búið að tryggja stæði fyrir fram þarf að ganga úr skugga um að tjaldstæði sé laust áður en útilegubúnaður er settur upp. Það er hægt að gera á vefnum (í bókunarkerfinu) eða hjá landvörðum.

 

Hvar og hvernig má tjalda?

Tjaldsvæðinu er skipt í 23 hólf og er hvert hólf auðkennt með bókstaf (A, B, C o.s.frv.). Í hverju hólfi er takmarkaður fjöldi tjaldstæða. Stæðin eru hvorki afmörkuð né auðkennd.

Athugið að hólf A, B, C, D, E, F og H eru einungis fyrir þá sem kaupa rafmagn. Enn fremur að hólf S, T, U, V og X eru ekki aðgengileg farartækjum.

Gæta þarf þess að hafa nægilegt bil á milli gistieininga vegna brunavarna. Á milli stakra tjalda skal bil vera 3 m en hópum er heimilt að tjalda þéttar. Milli húsbíla/ferðavagna skulu vera 4 metrar á milli eininga.

Vert er að hafa í huga að tjaldhólf getur verið uppselt þrátt fyrir að það sé tómt. Því er afar mikilvægt að bóka tjaldsvæði á vefnum áður en útilegubúnaður er settur upp.

 

Frekari upplýsingar um tjaldsvæðið

Tjaldsvæðinu í Ásbyrgi er skipt í 23 hólf. Í sjö hólfum eru samtals 48 rafmagnstenglar (1500W).

Í snyrtihúsi eru salerni sturtur, þvottavél og þurrkskápur. Þvottavél og sturtur eru virkjaðar með 100 krónu myntpeningum (sjá verðskrá fyrir fjölda myntpeninga). Uppvöskunaraðstaða er á suðurhlið hússins. Útigrill eru á tjaldsvæðinu (kolagrill), leiktæki og áningarborð. Einnig er lítið salernishús á sunnanverðu tjaldsvæðinu. Við innkeyrsluna norðanvert á tjaldsvæðinu er lítið afgreiðsluhús er kallast Álfhóll. Álfhóll er alla jafna opinn seinni part dags og fram á kvöld.

Gljúfrastofa er í göngufæri frá tjaldsvæðinu. Í Gljúfrastofu er sýning um náttúru og sögu Jökulsárgljúfra. Þar er einnig upplýsingagjöf um gönguleiðir og fleira í Jökulsárgljúfrum, sem og þjónustu og afþreyingartækifæri á nærsvæðinu.

Hér getur að líta loftmynd með skýringum af tjaldsvæðinu í Ásbyrgi.

 

Vesturdalur

Í Vesturdal er lítið tjaldsvæði sem er alla jafna opið frá miðjum júní og fram í miðjan september. Svæðið er fyrst og fremst ætlað tjöldum og útilegubílum, en hentar illa fyrir hjólhýsi og húsbíla. Hvorki rafmagn né heitt vatn er í boði. Símasamband á svæðinu er slitrótt. Athugið að vegna framkvæmda mun opnun tjaldsvæðisins í Vesturdal að öllum líkindum dragast fram í júlí 2021.

Ekki er hægt að bóka fyrirfram gistingu á tjaldsvæðinu í Vesturdal. Landverðir sjá um innheimtu gistigjalda. Gestir eru beðnir um að gera vart við sig í upplýsingahúsi í Vesturdal áður en tjaldað er, eða strax að morgni ef komið er eftir lokun.

 

Gjaldskrá fyrir tjaldsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Sími: 470 7100 | Netfang: asbyrgi@vjp.is

Tjaldsvæðið í Ásbyrgi séð af Eyjunni.