Hjólreiðar

Umferð reiðhjóla er heimil á vegum, bílastæðum og merktum reiðhjólaleiðum í þjóðgarðinum. Umferð reiðhjóla á göngustígum og gönguleiðum er heimil þar sem ekki gilda sérstök bönn við reiðhjólaumferð, enda valdi hún ekki spjöllum og hjólreiðafólk viðhafi fulla aðgát gagnvart göngufólki. Þjóðgarðsvörður getur heimilað umferð reiðhjóla á tilteknum reiðleiðum eða reiðstígum enda hafi hjólreiðafólk þá gát gagnvart hestaumferð og víki fyrir henni. Þjóðgarðsverðir geta bannað umferð reiðhjóla á göngustígum og gönguleiðum og reiðleiðum þar sem umferð er mikil eða þar sem gróðurlendi getur hlotið skaða af.

Sérstök athygli er vakin á því að umferð um Hljóðakletta er samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs einungis heimil gangandi umferð. Jafnframt er brýnt fyrir hjólafólki að stilla hraða ávallt í hóf og víkja fyrir göngufólki þegar þess er þörf. Á það ekki síst við þegar hjólað er í gegnum Hólmatungur.

Kort sem hér fylgja sýna þær göngu- og reiðleiðir sem heimilt er að hjóla í Jökulsárgljúfrum. Heil gul lína táknar hvar hjólaleið liggur um göngu- eða reiðleið. Heil fjólublá lína táknar hvar hjólaleið liggur um akveg. Athygli er vakin á því að á köflum geta leiðirnar verið óhentugar fyrir reiðhjól og því mögulega nauðsynlegt að teyma þau í gegnum þá kafla. Jafnframt er bent á að lega hjólaleiða kann að breytast í náinni framtíð.

 

Ásbyrgi

Kort af reiðhjólaleiðum í Ásbyrgi og nágrenni: [JPG 739 KB]

Kort af reiðhjólaleiðum í Ásbyrgi og nágrenni [PDF 792 KB]


Jökulsárgljúfur

Kort af reiðhjólaleið um Jökulsárgljúfur [JPG 2,5 MB]

Kort af reiðhjólaleið um Jökulsárgljúfur [PDF 2,5 MB]