Árstíðir í Jökulsárgljúfrum

Fólk á göngu í Vesturdal.Sumar

Jökulsárgljúfur eru á norðausturhorni Íslands. Að sumarlagi, þegar suðlægir vindar blása um landið þá hitnar loftið á leið sinni yfir hálendið og við þær aðstæður verður oft verulega hlýtt norðanlands. Ekki er óalgengt að hiti fari vel yfir 20 stig og fer þá vel um flesta í skjóli trjágróðurs og hamraveggja Jökulsárgljúfra og Ásbyrgis. En vindar blása ekki alltaf úr sömu átt, suma daga er norðanátt og henni fylgir oft svalt loft og úrkoma.

Haust

Í september tekur að hausta og þá breytist ásýnd Jökulsárgljúfra til muna, ekki síst Ásbyrgis. Birkitré og víðirunnar gulna en á milli þeirra skarta reynitré rauðum blöðum svo úr verður einstök litadýrð, þökk sé óvenjulega miklum þéttleika reynitrjáa. Haustlitirnir ráða ríkjum fram í október og því er tilvalið að heimsækja Ásbyrgi á þessum árstíma, ekki síst í björtu og fallegu veðri.

Haust í Ásbyrgi.

Vetur

Vetur er jafnan skollinn á í nóvember, en erfitt er að spá fyrirfram um snjóalög. Yfirleitt hafa þó vegirnir sem liggja frá Ásbyrgi að Dettifossi, Dettifossvegur 862 að vestan og Hólssandsvegur 864 að austan, lokast í október. Sá fyrrnefndi getur jafnvel lokast í september ef snemma snjóar. Dagurinn er stuttur í nóvember, desember og janúar, en strax í febrúar er farið að muna verulega um birtuna. Þá má líka yfirleitt reiða sig á að allt sé alhvítt og snjórinn magni upp birtuna.

Eftir að slitlagsbundinn vegur var lagður frá þjóðvegi 1 að Dettifoss vestan ár, lengdist sá tími sem hægt er að fara á venjulegum bifreiðum að fossinum. Vegurinn getur þó lokast í lengri eða skemmri tíma vegna snjóa.

Gönguleið að Dettifossi í maí 2016

Seinnipart vetrar og vel fram í maí er yfirleitt mikill snjór á svæðinu í kringum Dettifoss og þó að vegurinn sé opinn er vissara fyrir þá sem ætla að ganga frá bílastæðinu að fossinum að vera vel búnir til fótanna. Mælt er með að vera í vatnsþolnum skóm með gripgóðum sóla, og stundum eru aðstæður þannig að best sé að vera á snjóþrúgum.

Vor

Í apríl fer að vora, snjóa leysir og frost fer úr jörðu. Nær leysingatíðin jafnan fram í maí og á þessum tíma eru stígar og gróður sérlega viðkvæmir. Eins eru Dettifossvegur 862 og Hólssandsvegur 864 jafnan lokaðir á þessum tíma, Hólssandsvegur opnar yfirleitt undir lok maí en Dettifossvegur um miðjan júní.

Færð á vegum

Nýjustu upplýsingar um færð á vegum eru á vefsíðu Vegagerðarinnar

Birtutími

Taflan hér fyrir neðan gefur til kynna birtutíma við Dettifoss á mismunandi árstímum:

 

DETTIFOSS       Sólarupprás    Sólsetur

21. október:            8:22                   17:20
21. nóvember:        10:14                  15:30
21. desember:        11:37                   14:32
21. janúar:              10:39                  15:56
21. febrúar:            8:49                   17:51
21. mars:                7:03                   19:24
21. apríl:                 5:04                  21:06
21. maí:                  3:07                   22:59
21. júní:                  0:00                  00:00 (sól nær ekki að setjast á tímabilinu 16. júní til 26. júní)
21. júlí:                   3:11                    23:14
21. ágúst:              5:06                   21:14
21. september:     6:54                   19:14

 [Byggt á tímabilinu 21. október 2017 til 21. september 2018, þökk sé www.suncalc.net]