Verkefnabanki

Um verkefnabankann

Árið 2005 unnu þrír kennarar að lokaverkefni sínu frá Kennaraháskóla Íslands í samstarfi við þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. Þetta voru þær Birna Björnsdóttir, Helga Þorsteinsdóttir og Hrund Ásgeirsdóttir. Lokaafurð verkefnisins var verkefnamappa með kennsluefni fyrir miðstig grunnskóla, sem styðst við markmið Aðalnámskrár grunnskóla. Verkefnin byggja á tveimur gönguleiðum sem hafa hvor um sig nokkra sérstöðu. Viðfangsefni verkefnamöppunnar gefa möguleika á samþættingu námsgreina og eru því fjölþætt; plöntur og tré, þjóðsögur, fuglar, smádýr og jarðfræði.

Verkefnin miða við að kennarar undirbúi hópinn fyrir ferðina, þannig að nemendur komi vel undirbúnir á vettvang, tilbúnir að spyrja og fræðast. Sum verkefni krefjast frekari úrvinnslu eftir að heim er komið. 

Meginmarkmið með verkefnunum er að efla tengsl nemenda við náttúruna og stuðla að því að þeir upplifi heimsókn í Vatnajökulsþjóðgarð, Jökulsárgljúfrum, á jákvæðan og fræðandi hátt. Um leið er vakin athygli á sérstöðu þjóðgarðsins með fjölbreyttri náttúru og dýralífi og þeim möguleikum sem hann býr yfir.

Hér má nálgast greinargerð höfunda um verkefnið [pdf 0,2 MB]. Athugið að þetta er óbreytt skjal frá höfundum. Ýmislegt hefur breyst frá því að verkefnið var samið, m.a. er búið að opna gestastofu í Ásbyrgi, Gljúfrastofu og Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði við stofnun hans 2008.

Athuga skal að þó svo að verkefnin séu unnin með Jökulsárgljúfur í huga má finna fullt af verkefnum innan um sem henta til kennslu hvar sem er.

Námsgögn

Hér fyrir neðan eru pdf skjöl með verkefnum. Kennurum er bent á að kynna sér vel fyrsta skjalið, til kennara. Þar er verkefnið kynnt, gönguleiðum lýst og lögð fyrir verkefni sem gott er að kynna sér áður en af stað er farið. Einnig eru þar verkefni í tengslum við gönguleiðirnar tvær. Hin fjögur skjölin eru síðan með sértækum verkefnum sem tengjast þemunum fjórum; flóru, jarðfræði, fuglum og skordýrum og þjóðtrú. Þessi verkefni hentar að vinna hvort sem er  í tengslum við gönguleiðirnar eða eitt og sér. 

Verkefnin voru yfirfarin af Vatnajökulsþjóðgarði í byrjun árs 2011 með tilliti til þeirra breytinga sem hafa orðið á skipulagi og staðháttum frá árinu 2005.

1. Til kennara [pdf 0,3 MB]

2. Flóra [pdf 0,7 MB]

3. Jarðfræði [pdf 0,4 MB]

4. Fuglar og skordýr [pdf 0,4 MB]

5. Þjóðtrú [pdf 0,2 MB]