Hoffell

Hér er stungið upp á nokkrum gönguleiðum í Hoffelli. Hafa ber í huga að uppgefnar vegalengdir og göngutími eru til viðmiðunar.

 

Austan Hoffellsjökuls eru Hoffellsfjöll og Núpar; mikið fjalllendi sem um liggur fjöldi gönguleiða. Stutt hringleið er um Geitafellsbjörg og einnig má ganga á topp Geitafells. Lengri ganga er norður að Múla og Gjánúpi en þar blasa við snarbrött fjöll sem smöluð eru á hverju hausti. Á þeirri leið þarf að þvera Efstafellsgil sem er aðeins fyrir fótvissa fjallamenn.

 

O1: Hoffellsjökull – útsýnisstaður

Vegalengd: 250 m (0,5 km fram og til baka)

Göngutími: 5 mín. (10 mín. fram og til baka.)

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Gengið er frá bílastæði framan við Hoffellsjökul, inn með Geitafellsbjörgum suðvestanverðum. Með því fæst ágætt útsýni yfir Hoffellsjökul og lónið fyrir framan jökulinn. Sama leið er gengin til baka.

Áhugavert: Útsýni yfir skriðjökul, strandlínur jökullóns.

 

O2: Húsberg

Vegalengd: 1,5 km hringleið

Göngutími: 30 mín.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Þessi ganga er hringleið um Húsberg, fremsta hluta Geitafellsbjarga. Gengið er í norðaustur frá bílastæði framan við Hoffellsjökul, upp birki og lyngi vaxna brekku, yfir háls og niður hinum megin. Þar er beygt til hægri og hlíðinni fylgt þangað til komið er aftur á upphafsstað. Mjög gott útsýni er yfir fremsta hluta Hoffellsjökuls af hálsinum. Til austurs sjást líparítfjöll og berggangar. Húsberg og fremsti hluti Geitafellsbjarga er úr gabbrói, basísku bergi sem storknað hefur djúpt í jarðskorpunni. Þessi leið er kjörin fyrir unga göngugarpa.

Hluti leiðarinnar liggur um námu þar sem efni sem nú prýðir byggingu Seðlabanka Íslands, var tekið upp úr 1980.

Áhugavert: Djúpberg/gabbró, sérstakt gróðurfar, berggangar, líparít (rhýólít).

 

O3: Geitafellsbjörg

Vegalengd: 5,6 km hringleið

Göngutími: 2 – 2,5 klst.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Þessi ganga hefst á sama hátt og gangan í kringum Húsberg. Þ.e. gengið er í norðaustur frá bílastæði framan við Hoffellsjökul, og upp birki og lyngi vaxna brekku. Í stað þess að ganga niður hálsinn austanmegin, er beygt til vinstri efst á hálsinum og gengið í norðvestur um Geitafellsbjörg. Með því fæst mjög gott útsýni yfir Hoffellsjökul. Haldið er áfram í átt að Efstafellsgili, þaðan sem leiðin liggur í átt að gömlum vegslóða sem bændur nota í smalamennsku. Best er að fylgja honum aftur niður á sléttlendið. Þegar komið er niður er annað hvort hægt að fara aftur yfir hálsinn norðan Húsbergs, eða ganga með fram því. Hið síðarnefnda lengir leiðina um ca. 0,5 km.

Áhugavert: Landmótun jökuls að vestanverðu og landmótum vatns að austanverðu. Djúpberg, berggangar, sérstakt gróðurfar.

 

O4: Geitafellstindur

Vegalengd: 12 km fram og til baka

Göngutími: 4 – 5 klst.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Þessi leið fylgir hringleiðinni um Geitafellsbjörg í byrjun. Þ.e. fyrst er gengið upp brekku frá bílastæði framan við Hoffellsjökul. Efst á þeim hálsi er beygt til vinstri inn á hringleið um Geitafellsbjörg. Í stað þess að beygja til hægri á vegslóðann til þess að fara til baka, er beygt til vinstri í átt að Efstafellsgili. Þegar komið er að gilinu, liggur leiðin meðfram því áfram upp, og er stikuð upp í u.þ.b. 500 m.y.s. Þaðan fylgir leiðin hrygg alla leið á Geitafellstind, ca. 1.016 m.y.s. Þrátt fyrir nafnið er Geitafellstindur ekki eiginlegur tindur, heldur mætti frekar kalla hann öxl út úr Grasgiljatindi.  Af Geitafellstindi opnast gott útsýni austur í Hoffellsdal.

Sama leið er farin til baka, nema að ágætt getur verið að fylgja vegslóðanum til baka niður á sléttlendið, þaðan er hægt að fara norður fyrir Húsberg eða suður fyrir það, sem lengir leiðina um ca. 0,5 km, en þó á sléttlendi.

Áhugavert: Stórkostlegt útsýni yfir Hoffellsjökul og nágrenni, djúpberg, berggangar, sérstakt gróðurfar.

 

O5: Hoffell – bílastæði við Hoffellsjökul

Vegalengd: 7,5 km fram og til baka

Göngutími: 2 – 2,5 klst.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Þessi gönguleið hefst við gistiheimilið í Hoffelli og fylgir hlíðum Hoffellsfjalls inn að Hoffellsjökli. Engar merkingar eru á þessari leið.

Áhugavert: Hopun jökuls, gróðurframvinda, jökulgarður.

 

O6: Núpaleið

Vegalengd: ca. 27,5 km hringleið

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 3 (erfið)

Þessi leið liggur um Núpa og Hoffellsfjöll, inn af Hoffelli. Hún er mjög erfið og aðeins fyrir vant fjallafólk. Mjög lítið fjarskiptasamband er á svæðinu. Mælt er með því að skilja eftir ferðaáætlun á www.safetravel.is.

Áhugavert: Útsýni, strandlínur jökullóna, berggangar, djúpberg.