Heinaberg

Hér er stungið upp á nokkrum gönguleiðum á Heinabergssvæðinu. Hafa ber í huga að uppgefnar vegalengdir og göngutími eru til viðmiðunar. Þurrsalerni er nærri Heinabergsjökli.

 

E1: Heinaberg

Vegalengd: 6 km hringleið

Göngutími: 2 – 3 klst.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Þetta er hringleið og því skiptir í raun ekki máli í hvora áttina er gengið. Þessi leiðsögn fylgir leiðinni réttsælis. Gengið er frá bílastæðinu við Heinabergslón í átt að Heinabergsdal. Þar er vegvísir sem vísar til austurs upp á Sátu, austur með brekkunum um Bólstaði að Bólstaðafossi. Á leiðinni er að finna margar forvitnilegar plöntutegundir. Hægt er að ganga alveg upp að Bólstaðafossi, en þá er farið út af merktri leið og er síðasti hlutinn í stuttri en frekar lausri skriðu.

Frá Bólstaðafossi er gengið til suðurs um Heina, en þar er að finna mikið af forvitnilegum stuðlabergsmyndunum. Þaðan er gengið um gamla farvegi Heinabergsvatna aftur að bílastæðinu.

* Athugið að einnig eru bílastæði við Bólstaðafoss og Heina, svo hægt er að hefja gönguna þar líka.

Áhugavert: Malarhjallar, jökulgarðar, jökulker, tjarnir og klappir, foss, stuðlaberg, rústir af beitarhúsum.

 

E2: Heinar

Vegalengd: 1,8 km hringleið

Göngutími: 30 mín.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Þetta er hringleið og því skiptir í raun ekki máli í hvora áttina er gengið. Þessi leiðsögn fylgir leiðinni réttsælis. Gengið er frá bílastæðinu við Heina, nokkurn veginn beint í suður. Leiðin liggur að hluta til um mýrar, svo gott er að vera í vatnsheldum skóm. Leiðin liggur meðfram stuðlabergshólum, en þar sem hún sameinast E1 hringnum er beygt til hægri og upp á einn hólinn. Þaðan er gott útsýni til allra átta og oft mikið fuglalíf í kring, sérstaklega snemmsumars. Leiðin liggur svo um stuðlabergshólana  aftur að bílastæðinu.

Áhugavert: Stuðlaberg.

 

E3: Heinabergsbær

Vegalengd: 1,8 km fram og til baka

Göngutími: 30 mín.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 1 (auðveld)

Gengið er frá bílastæði sunnan við Heinabergsfell, um grasi grónar kindagötur heim að rústum bæjarins að Heinabergi. Á leiðinni er gengið framhjá tjörnum og rústum gamalla útihúsa. Snemmsumars má stundum sjá óðinshana og aðra smáfugla á tjörnunum. Sama leið er gengin til baka.

Áhugavert: Minjar um búsetu á áhrifasvæði jökulhlaupa.

 

E4: Heinabergsdalur (Vatnsdalur)

Vegalengd: 17,5 km hringleið

Göngutími: 6 – 7 klst.

Erfiðleikastuðull gönguleiðar: 2 (krefjandi)

Frá bílastæði við Heinabergslón er gengið í átt að Heinabergsdal. Fljótlega þarf að vaða Dalá, sem kemur úr dalnum, en í þurrkatíð getur verið hægt að stikla hana. Leiðin fylgir vegslóða um 7,5 km frá bílastæðinu en eftir það taka kindagötur við. Þegar komið er í botn Heinabergsdals sést niður í Vatnsdal, fyrrum jökulstíflaðan dal sem oft var uppspretta flóða í Heinabergsvötnum á árum áður.

Þaðan er hægt að fara sömu leið til baka, en einnig er hægt að fara óstikaða leið upp á Geitakinn og eftir fjallshryggnum til baka að Dalá, þaðan sem stutt er aftur á bílastæðið. Auðvelt er að fylgja hryggnum, en þó öruggara að fara Heinabergsdal til baka ef lágskýjað er.

Áhugavert: Fyrrum jökulstíflaður dalur, strandlínur, vatnssorfnir klettar, sethjallar, berggangar, útsýni, hreindýr, fossar, gil.

* Ábending: Hægt er að hjóla á reiðhjóli að enda vegslóðans í Heinabergsdal og til baka. 7,5 km aðra leið frá bílastæði við Heinabergslón.