Hornafjörður, og nærsveitir, er dásamlegur heim að sækja á veturna. Ekki er óalgengt að sjá stórar hjarðir hreindýra við þjóðveginn og er fjalllendið ómótstæðilegt snævi þakið. Gönguleiðum er ekki haldið við yfir vetrartímann, en sjaldnast er mikill snjór á láglendi svo þær eru yfirleitt færar. Gestir skulu þó alltaf vera vel útbúni, klæddir eftir veðri og vel skóaðir.
Veturnir eru einnig besti tíminn til þess að skoða íshella. Íshellar með sinn bláa lit eru mögnuð fyrirbæri og heillandi. Margir vilja komast í tæri við töfrana og í vetur hefur verið mikil ásókn ferðamanna í íshella. Veturinn er líka besti tíminn til að skoða íshella með tilliti til öryggis og aðgengis. En það fylgir því alltaf áhætta að fara í íshelli og sú áhætta eykst eftir því sem líður á veturinn. Þeir sem leggja leið sína í íshelli ættu aldrei að fara þangað án lágmarksöryggisbúnaðar, sem er öryggishjálmur. Aðstæður geta líka verið ólíkar frá helli til hellis og því getur verið þörf fyrir frekari búnað, svo sem jöklabrodda og ísaxir.