Aðvaranir í gildi

Viðvörun vegna íshella í Vatnajökli

6. apríl 2018 - 

Vegna hækkandi sólar og lofthita eru veggir og loft íshella í skriðjöklum Vatnajökuls að veikjast. Ávallt ber að sýna fyllstu aðgát við íshella og ekki skal fara inn í þá nema að vel athuguðu máli.

Íshellar með sinn bláa lit eru mögnuð fyrirbæri og heillandi. Margir vilja komast í tæri við töfrana og í vetur hefur verið mikil ásókn ferðamanna í íshella. Veturinn er líka besti tíminn til að skoða íshella með tilliti til öryggis og aðgengis. En það fylgir því alltaf áhætta að fara í íshelli og sú áhætta eykst eftir því sem líður á veturinn.

Íshellar myndast yfirleitt vegna vatnsstreymis eða jarðhita. Þeir færast til og breytast með skriði jöklanna og eru því ekki varanleg fyrirbrigði heldur eyðast þeir vegna bráðnunar. Hækkandi lofthiti veldur einnig því að veggir íshellanna veikjast og geta þeir hrunið bæði að hluta til og í heilu lagi. Þarf þá varla að spyrja að leikslokum, en a.m.k. tvö banaslys hafa orðið á Íslandi sl. áratug vegna íshruns.

Þeir sem leggja leið sína í íshelli ættu aldrei að fara þangað án lágmarksöryggisbúnaðar, sem er öryggishjálmur. Aðstæður geta líka verið ólíkar frá helli til hellis og því getur verið þörf fyrir frekari búnað, svo sem jöklabrodda og ísaxir.

Auk öryggisbúnaðar er nauðsynlegt að kunna að velja leið á jökli, þar sem gengið er á hörðum ís til að komast að íshelli. Of oft hefur sést til leiðsögumanna ganga með viðskiptavini fyrir ofan sprungur og svelgi, þar sem afleiðingar falls geta orðið mjög alvarlegar. Slíkt er með öllu óásættanlegt, og þar sem ekki verður hjá því komist að fara um slíkt svæði verður að tryggja göngumenn með viðeigandi hætti hverju sinni.

Öryggismál eru lykilþáttur í sjálfbærri ferðaþjónustu. Því er það allra hagur að rétt sé staðið að málum eigi greinin að dafna til framtíðar. Það á jafnt við um íshella sem annað og því mikilvægt að ferðamenn og leiðsögumenn þeirra hafi öryggi sitt og annarra í fyrirrúmi þegar íshellar og jöklar eru skoðaðir.