Um Hoffell

JÖKULLINN
Á litlu ísöld tók Hoffellsjökull að skríða fram úr Vatnajökli. Skriðjökullinn ruddist yfir slétt og gróið land og lokaði giljum í Hoffellsfjöllum og Núpum. Mynduðust þar jökullónin Gjávatn og Múlavatn en frá þeim runnu árviss jökulhlaup. Þegar jökullinn tók að hopa þvarr fyrirstaðan og voru bæði vötnin horfin 1985. Enn sjást þó greinilegar vatnsborðslínur þar sem Gjávatn var áður, allt að 60 metra djúpt. 

Austurfljót er einnig horfið en fram til haustsins 2008 féll það frá megintungu Hoffellsjökuls og rann saman við Suðurfljót framan Svínafells. Hétu vötnin sameinuð Hornafjarðarfljót. Nú fer allt þetta vatn um farveg Suðurfljóts sem á upptök sín í jökultungu er gengur vestur úr Hoffellsjökli. Tungan hefur hopað hraðar en megintunga Hoffellsjökuls og á vatn því greiðari leið frá jöklinum þaðan.

Mestur var Hoffellsjökull um 1890 en í hálfa öld á eftir lá hann þétt að jökulgarðinum sem nú er spölkorn frá jöklinum. Var vörubílum þá ekið upp á garðinn og þeir fylltir af ís sem fluttur var til Hafnar í Hornafirði. Ísinn var notaður til kælingar á fiski bæði til sjós og lands. Vegna loftslagsbreytinga hefur Hoffellsjökull hopað mikið síðan og framan hans er að myndast djúpt og mikið lón. Fer það ört stækkandi og verður að líkindum mikið stöðuvatn í framtíðinni.

 

RANNSÓKNIR
Hoffellsjökull var vettvangur umfangsmikilla rannsókna jöklafræðinga á fyrri hluta síðustu aldar. Jafnframt var farið um jökulinn til frekari rannsókna á Vatnajökli. Einna þekktastur er leiðangur sem farinn var árið 1936 undir stjórn Jóns Eyþórssonar veðurfræðings og sænska jöklafræðingsins Hans Ahlmanns. Meðal fylgdarmanna þeirra voru landfræðistúdentarnir Carl Mannerfelt og Sigurður Þórarinsson sem báðir urðu fyrirferðarmiklir síðar meir; Mannerfelt í sænsku viðskiptalífi og Sigurður í jarðfræðirannsóknum á Íslandi.

Rannsóknir hópsins leiddu í ljós að á Vatnajökul fellur mikið meiri úrkoma en almennt á jökla í öðrum heimshlutum. Jafnframt skilar hann frá sér meira leysingavatni. Hringrás vatns er þannig mjög hröð í sunnanverðum Vatnajökli, hraðari en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Aðrar mælingar sýndu að um miðjan Hoffellsjökul var skriðhraði hans um tveir metrar á sólarhring. Hefur verulega hægst á jöklinum síðan þá.

 

GEITAFELLSELDSTÖÐ
Hoffellsjökull sker sig í gegnum megineldstöð sem kennd er við Geitafell og var virk fyrir 5 - 6 milljónum ára. Heildarþykkt jarðlaga hennar er áætluð um 2.700 metrar, að mestu þóleiít-basalt en móberg og líparít í minna mæli. Vísbendingar eru um að Geitafellseldstöð hafi risið hátt yfir umhverfi sitt og verið jökli hulin um tíma. Jöklar hafa síðan skafið eldfjallið í burtu en ummerki mikillar öskju eru í hlíðum Hoffellsfjalla og Viðborðsfjalls vestan jökuls.

Vegna landriss og landrofs má hér sjá berg á yfirborði sem varð til djúpt í iðrum jarðar. Geitafellsbjörg austan jökuls er kvikuinnskot og að mestu samsett úr gabbrói. Vegna rofmátts jökla hefur veikara berg umhverfis kvikuinnskotið sorfist niður og jökulár skolað því í burtu. Gabbrónáma er í fremsta hluta Geitafellsbjarga, Geitafellstanga, og er gabbró þaðan í klæðningu á byggingu Seðlabanka Íslands í Reykjavík.

SILFURBERG
Í desember 1910 var Guðmundur Jónsson bóndi í Hoffelli að leita kinda í Hoffellsdal. Fann hann þá mikinn fjölda silfurbergsmola í gili í Hoffellsfjalli. Í félagi við Björn Guðmundsson kaupmann í Reykjavík hóf Guðmundur námuvinnslu og útflutning á silfurbergi. Var það meðal annars selt til Danmerkur og Þýskalands og notað í smásjár og önnur ljósfræðileg tæki. Silfurberg frá Hoffelli var líka notað í byggingar í Reykjavík. Má sjá það í lofthvelfingu yfir anddyri aðalbyggingar Háskóla Íslands og í altari kapellu skólans. 

Gilið sem silfurbergið fannst í var nefnt Námugil. Var náman í um 500 metra hæð og efnið flutt niður á vírstrengjum. Stærsti silfurbergssteinninn sem fannst í námunni vó 350 pund. Vinnsla í námunni lagðist af um 1940. Síðar hefur grjótskriða fallið fyrir op námunnar og eru lítil merki hennar sjáanleg í dag.

 

GRÓÐURFAR OG DÝRALÍF
Fjalllendið austan Hoffellsjökuls er búsvæði sjaldgæfra plantna. Í klettum vaxa háplönturnar bergsteinbrjótur (Saxifraga paniculata) og klettaburkni (Asplenium viride) og í birkiskógum og kjarrlendi á svæðinu flétturnar birkiskegg (Bryoria fuscescens), flatþemba (Hypogymnia tubulosa), gullinvarpi (Vulpicida pinastri), kvistaskeggi (Bryoria simplicior) og næfurskóf (Platismatia glauca).

Tófur, hagamýs og hreindýr eiga athvarf í Hoffellsfjöllum og fuglalíf er fjölskrúðugt. Algengt er að sjá þar spörfugla s.s. auðnutittlinga, skógarþresti, snjótittlinga, hrafna, steindepla, músarrindla og maríuerlur. Þar sjást líka rjúpur, heiðlóur, grágæsir og fýlar. Á aurunum fyrir framan Hoffellsjökul hafa fundist rostungstennur og ígulker. Rostungstennurnar voru aldursgreindar og reyndust 7.000 ára gamlar. Er það vísbending um að í lok síðustu ísaldar hafi sjór fyllt fjörð þar sem nú er Hoffellsjökull.