Um Heinaberg og Hjallanes

HEINABERG OG HJALLANES

Þrjár miklar jökultungur setja svip sinn á svæðið sem samanstendur af Hjallanesi vestan Kolgrímu og Heinabergi austan hennar. Er fágætt að finna jökla í jafnmiklu návígi við heilt byggðarlag. Oft má sjá stórar hjarðir hreindýra á svæðinu frá hausti og fram á vor. Á litlu ísöld og fram yfir aldamótin 1900 náðu jökultungur Skálafellsjökuls og Heinabergsjökuls saman fyrir framan Hafrafell. Þá lá skriðjökull yfir Hjallanesi og má sjá þess ýmis merki þegar þar er gengið um, s.s. hvalbök, grettistök og jökulrákir.

 

HEINABERGSJÖKULL OG HLAUPIN ÚR VATNSDAL

Heinabergsjökull var stærstur árið 1887 og náði þá saman við Skálafellsjökul og Fláajökul. Meðan Heinabergsjökull var þykkur myndaði hann trausta stíflu og yfirfylltist þá lónið í Vatnsdal. Vatn úr lóninu fossaði yfir bergþröskuld niður í Heinabergsdal og gróf djúpt gil í dalstafninum.

Vatnsdalshlaupin voru alræmd fyrir eyðingu ræktarlands. Heinabergsjökull tók að hopa og rýrna undir lok 19. aldar. Þegar ísstíflan við mynni Vatnsdals þynntist náði vatnið að þrengja sér undir hana og hætti þá að renna yfir bergþröskuldinn. Eftir það tæmdist lónið a.m.k. árlega í snöggum jökulhlaupum. Vatnið ruddi sér leið undir jökulinn um göng við botn hans og braust fram undan jökuljaðrinum. Fyrsta Vatnsdalshlaupið 1898 var hamfarahlaup, sem flæddi yfir stóran hluta láglendisins. Nokkrar jarðir fóru í eyði vegna ágangs jökulvatna og sandfoks.

Bærinn Heinaberg stóð undir Heinabergsfelli þegar hann fór í eyði á fjórða áratug 20. aldar. Áður stóð bærinn sunnar, á Heinabergsnesi, en þaðan var hann fluttur vegna ágangs jökulvatna. Nafnið dró bærinn af Heinum, sérkennilegum klapparásum með stuðluðu bergi. Talið er að þeir dragi aftur nafn sitt af því að lögun stuðlanna minnir á mjúka, olíukennda steina sem voru kallaði heinar og þóttu góðir sem brýni. Einnig eru kenningar um að nafnið sé komið úr heiðni (Heiðnar).

 

HREINDÝR (RANGIFER TARANDUS)

Heinabergssvæðinu sjást oft stórar hjarðir hreindýra, sérstaklega á veturna og snemma á vorin, þegar þau halda sig á láglendinu. Einnig má stundum koma auga á refi, sem eru einkum á ferðinni í ljósaskiptunum.

 

Hreindýr voru flutt til Íslands á 18. öld frá Noregi. Þau eru jórturdýr og éta helst grös, starir, fléttur og víðitegundir. Hár þeirra eru þétt og hol að innan og eru bæði góð einangrun gegn kulda og léttir þau í vatni svo þau eiga auðvelt með sund. Klaufirnar eru stórar og virka eins og snjóþrúgur. Þær bera dýrin yfir snjó og mýrlendi og henta vel til að krafsa eftir fæðu í snjó. Ólíkt mönnum geta hreindýr séð útfjólublátt ljós, sem hjálpar þeim að finna fæðu og að rata í vetrarmyrkrinu.

Hornin eru stöðutákn og falla á mismunandi tíma ársins eftir kyni og aldri. Í lok vetrar eru einungis kelfdar kýr hyrndar. Þær eru þá efst í goggunarröðinni og hafa mestar lífslíkur. Dýrin þurfa kalk til að byggja upp ný horn og naga þess vegna gömlu hornin. Á fengitímanum gildnar háls tarfanna mikið og vex á þá sítt skegg. Ríkjandi tarfar eru þá uppteknir við að vakta kýrnar og hafa lítinn tíma til að hvílast eða éta, svo þeir horast mikið.

 

HEIMSKAUTAREFUR (ALOPEX LAGOPUS)

Heimskautarefurinn barst til Íslands með hafís í lok síðustu ísaldar, löngu fyrir landnám manna. Heimskautarefir eru mjög vel aðlagaðir köldu loftslagi. Þeir hafa mjög þéttan feld, sem ver þá fyrir raka og einangrar þá svo vel að þeir þola allt að 35 stiga frost. Heimskautarefir hafa styttri útlimi en suðlægari refategundir til að minnka varmatap. Einnig safna þeir miklu spiki á haustin, sem er orkuforði þeirra fyrir veturinn og ver þá gegn kulda. Refir finnast um nánast allt land en halda sig þó mest við sjávarsíðuna. Þeir eru tækifærissinnar sem éta það sem til fellur eftir árstaíma, einkum fugla en einnig ýmiskonar sjávarfang, dýrahræ, hagamýs, skordýr, egg og ber. Að sumarlagi fela þeir fæðu til að geta lifað af veturinn. Refir velja sér maka fyrir lífstíð og koma sér upp óðali sem þeir verja fyrir öðrum refum. Refaparið gerir sér greni, sem það notar í áratugi. Þar gýtur læðan 5-6 yrðlingum, sem parið elur upp í sameiningu. Refir hafa oft valdið tjóni á sauðfé eða í æðarvarpi og hafa því ætíð verið afar óvinsælir. Fyrr á öldum urðu bændur sem veiddu ekki nógu marga refi að greiða sekt, svokallaðan dýratoll.

 

FORN ELDSTÖÐ UNDIR JÖKLI OG HEITAR UPPSPRETTUR

Undir upptökum Skálafells- og Heinabergsjökla leynist forn megineldstöð, sem var virk á Síð-Tertíer. Þar sem jöklarnir hafa rofið djúpa dali í berggrunninn sér nú í innviði hennar. Innarlega í Heinabergsdal bera þykk líparítlög og fjölmargir berggangar vitni um tilvist eldstöðvarinnar.

Í Vatnsdal eru um 50°C heitar kolsýruríkar lindir, þar sem grunnvatn hefur komist í snertingu við kólnandi kvikuinnskot. Umhverfis lindirnar eru útfellingar og mikill þörungagróður og þar vaxa einnig blómplöntur sem sjást sjaldan svo hátt til fjalla: eyrarrós, bláklukka, hvönn og melasól.