Sambúð fólks og jökla

Í 1100 ár hefur byggðin sunnan Vatnajökuls þurft að aðlagast síbreytilegri náttúru, landeyðingu og náttúruhamförum af völdum jökla sem gengu fram, eldgosum undir jökli og jökulhlaupum. Sveitin milli sanda, Öræfi, sem upphaflega nefndist Litla-Hérað, þurrkaðist út í Öræfajökulsgosinu 1362 og varð fyrir endurteknum áföllum af völdum gossins úr Öræfajökli 1727 og Skeiðarárhlaupa sem fóru stækkandi á 19. öld. Sem dæmi um aðlögun byggðarinnar má nefna flutning húsakosts, akra og túna á staði sem voru öruggir fyrir jökulhlaupum í Skeiðará og á svæði í skjóli við hlaup samfara eldgosum í Öræfajökli, þar á meðal bæirnir í Skaftafelli, Svínafelli, Hofi, Fagurhólsmýri, Hnappavöllum og Kvískerjum.
 Útbreiðsla og helstu farvegir jökulhlaupsins 1362 samkvæmt niðurstöðum Sigurðar Þórarinssonar. Heimild: Magnús Tumi Guðmundsson o.fl. (2016).

Útbreiðsla og helstu farvegir jökulhlaupsins 1362 samkvæmt niðurstöðum Sigurðar Þórarinssonar. Heimild: Magnús Tumi Guðmundsson o.fl. (2016).

 

Sum héruð sunnan jökuls voru lengi meðal þeirra einangruðustu á Íslandi, umkringd beljandi jökulfljótum. Skeiðará var ekki brúuð fyrr en 1974, Jökulsá á Breiðamerkursandi 1967 og Hornafjarðarfljót 1961. Fleiri ár á þessu svæði, svo sem Kolgríma, Heinabergsá, Hólmsá og Jökulsá í Lóni, gátu verið erfiðir farartálmar. Áður en brýr komu til voru ferjur notaðar á sumum þessara áa, en ferðalög og flutningar á hestum voru frá fornu fari meginleið íbúanna til þess að tengjast nágrannabyggðum og umheiminum. Að þvera vatnsmiklar jökulár á hestum var ekki á allra færi og krafðist þjálfunar bæði hesta og manna.

Ferjumenn við Jökulsá á Breiðamerkursandi. Ljósmynd: Helgi Arason, 1938.

Ferjumenn við Jökulsá á Breiðamerkursandi. Ljósmynd: Helgi Arason, 1938.

 

Nýbyggða brúin yfir Heinabergsvötn. Ljósmynd: Skarphéðinn Gíslason, 1948.

Nýbyggða brúin yfir Heinabergsvötn. Ljósmynd: Skarphéðinn Gíslason, 1948.

 

Skeiðarárjökull séður frá Skaftafelli, einhvern tímann á árunum 1925-1930. Ljósmynd: Ólafur Magnússon.

Skeiðarárjökull séður frá Skaftafelli, einhvern tímann á árunum 1925-1930. Ljósmynd: Ólafur Magnússon.

 

Íbúar í Öræfum. Ljósmynd: Helgi Arason, 1938.

Íbúar á Fagurhólsmýri í Öræfum. Aftari röð f.v.: Guðrún Sigurðardóttir, Kristín Stefánsdóttir, Halldór Sigurðsson og Ari Benedikt Sigurðsson. Fremri röð f.v.: Nanna Sigurðardóttir og Tryggvi Sigurðsson. Ljósmynd: Helgi Arason, 1938.

 

Austan Öræfa, hafa náttúruhamfarir líka markað samfélögin. Þegar Breiðamerkurjökull gekk sem mest fram á litlu ísöld (1450–1900) eyddi hann m.a. landnámsjörðunum Fjalli og Breiðá en þar bjó Kári Sölmundarson, ein af sögupersónum Njáls sögu. Vegna hlýnunar loftslags, hefur stórt svæði fyrir framan Breiðamerkurjökul komið aftur undan jökli og er nú einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Enn austar, við Steinavötn, Heinabergsá og Hornafjarðarfljót, olli landbrot af völdum jökulhlaupa miklum búsifjum á litlu ísöld og á fyrri hluta 20. aldar. Á síðustu áratugum hafa stór svæði, sem áður voru svartir sandar, ýmist verið grædd upp með aðstoð mannsins, sbr. Skógey við Höfn í Hornafirði, eða gróið upp af sjálfsdáðum eins og Skeiðarársandur.

 

Landnámsjarðir á Breiðamerkursandi/Bæir í Öræfum fyrir gosið 1362. Heimild: Friðþór S. Sigurmundsson o.fl. (2013). 

Landnámsjarðir á Breiðamerkursandi/Bæir í Öræfum fyrir gosið 1362. Heimild: Friðþór S. Sigurmundsson o.fl. (2013).