Lýsing

Vatnajökull er hveljökull, samsettur af jökulhettum og fjölda skriðjökla sem sumir hverjir hlaupa fram með óreglulegu millibili. Hann er svokallaður þíðjökull, þ.e. jökulísinn er við frostmark frá yfirborði niður á botn, nema snjór nærri yfirborði að vetri. Flatarmál jökulsins nú er um 7700 km2 (tæp 8% landsins). Hann er enn stærsti jökull Evrópu að rúmmáli þótt hann hafi tapað meira en 15% af rúmmáli sínu vegna hlýnandi loftslags á síðustu öld. Sjö virkar megineldstöðvar leynast undir jöklinum, sem og djúpir dalir og trog. Eldvirkni og jarðhiti valda því að lón myndast við jökulbotn og jökuljaðar á nokkrum stöðum og eru lónin undir Skaftárkötlum og í Grímsvötnum þeirra þekktust. Í Kverkfjöllum er lón við jökuljaðar, myndað af jarðhita (Gengissig). Frá þessum lónum falla jökulhlaup með reglulegu millibili en einnig hafa komið hlaup frá jökulstífluðum lónum t.d. Grænalóni og Vatnsdalslóni. Þessi hlaup valda tjóni í byggð sunnan og norðan jökuls og mögulegir farvegir flóða vegna eldgoss í Öræfajökli eða Bárðarbungu eru á vinsælum ferðamannaslóðum. Frá jöklinum renna nokkrar af stærstu ám landsins og hluti þeirra er notaður til raforkuframleiðslu í vatnsaflsvirkjunum.

Mikil velta er í búskap Vatnajökuls, þ.e. hann safnar miklu á sig og að sama skapi er leysing hröð og hann er  næmur fyrir breytingum í loftslagi. Rannsóknir á sögu loftslagsbreytinga og viðbrögðum jökulsins eru mikilvægar í alþjóðlegu samhengi. Þekking og skilningur á þeim ferlum sem eru að verki er nauðsynleg til þess að spá fyrir um framtíðarbreytingar. Rannsóknasaga Vatnajökuls nær nokkrar aldir aftur í tímann og fyrstu nákvæmu lýsingar á jöklinum eru frá seinni hluta 18. aldar. Auðvelt aðgengi er að jöklinum og góð aðstaða Jöklarannsóknafélags Íslands hefur greitt götu vísindamanna. Jökullinn og nærliggjandi svæði eru eins konar lifandi kennslustofa í jöklafræði og náttúrufræði og fjölmargir vísindaleiðangrar eru gerðir út á hverju einasta ári.

Lidar-hæðarlíkan af Vatnajökli 2010–2012. Heimild: Gagnasafn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar háskólans.

Lidar-hæðarlíkan af Vatnajökli 20102012. Heimild: Gagnasafn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans.

 

Í Jökulheimum hafa vísindamenn aðstöðu vegna rannsókna á Vatnajökuli. Ljósmynd: Finnur Pálsson, 2018.

Aðstaða Jöklarannsóknafélags Íslands í Jökulheimum er mikið notuð vegna rannsókna á Vatnajökli. Ljósmynd: Finnur Pálsson, 2018.