Landslag við jökuljaðra er síbreytilegt og á síðastliðnum árum og áratugum hafa breytingarnar við suðurskriðjökla Vatnajökuls verið mjög hraðar. Við jaðar Vatnajökuls eru skólabókardæmi um landmótunarferli og form sem verða æ sýnilegri eftir því sem skriðjöklarnir hörfa meira. Margt í umhverfinu er nútímahliðstæða við ísaldarjökla. Meðal áberandi jökulmenja sem finna má í Vatnajökulsþjóðgarði eru jökulgarðar, jökullón, tómir árfarvegir og ummerki jökulhlaupa. Umhverfið fyrir framan flesta sporða jökulsins hefur verið kortlagt af mikilli nákvæmni á síðastliðnum áratugum. Þau ferli sem eru að verki við jaðra Vatnajökuls má heimfæra á aðra jökla sem hörfa hratt í hlýnandi loftslagi um allan heim.

Múlavatn austan við Hoffellsjökul 2018. Ljósmynd: Þorvarður Árnason.

Landslag framan Skaftafellsjökuls 2014. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson.

Heinabergsjökull og Vatnsdalslón 2007. Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir.

Framan Fláajökuls 2016. Ljósmynd: Þorvarður Árnason.