Hreyfing jökuls

Skriðhraði jökulsins ræðst einkum af þykkt hans, halla yfirborðsins, þykkt og gerð sets á jökulbotninum, hita íssins, og jafnvel veðráttu og árstíma, til að mynda eykst skriðhraðinn í miklum rigningum þegar regnvatnið nær niður á jökulbotn og minnkar viðnám. Yfirborðshraði nokkurra skriðjökla að sumarlagi hefur verið mældur á undanförnum áratugum með GPS tækjum og kort af hraðasviði hafa verið gerð út frá gervitunglagögnum. Að meðaltali skríða jöklarnir tvöfalt hraðar að sumri en vetri, um 1 m á sólarhring hinir stærstu. Út frá mælingum á hraða og yfirborðsbreytingum er hægt að fylgjast með framhlaupum meðal annars helstu skriðjökla Vatnajökuls. 

Á myndinni hér að neðan má sjá meðalskriðhraða stærstu jökla landsins á tímabilinu 2014 til 2020 skv. greiningu radarmynda frá gervitunglum.

Meðalyfirborðsskriðhraði íslensku jöklanna reiknaður með gervihnattamælingum af austurríska fyrirtækinu Enveo í samstarfi við Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Heimild Wuite o.fl. (2022).

Ágrip úr grein í Jökli:

Radarmyndir úr gervihnöttum sýna breytilegt endurkast frá yfirborði jarðar sem endurspeglar óreglur í ýmsum eiginleikum efstu jarðlaga. Þar sem hreyfing er á lausum jarðlögum eða jöklum er unnt er að meta hraða hreyfingarinnar með því greina hliðrun í endurkastsmynstri milli radarmynda frá mismunandi tímum og nefnist aðferðin „offset-tracking“ á ensku. Nú er unnt að mæla yfirborðshraða ísskriðs á reglulegu neti yfir heilu jöklana með nokkurra daga eða vikna millibili og fylgjast með breytingum ísskriðsins í tíma og rúmi.

Íslensku jöklarnir bjóða upp á einstætt tækifæri til þess að beita þessari nýju tækni. Margvísleg gögn eru tiltæk úr fyrri rannsóknum, auðvelt aðgengi er að jöklunum til mælinga, og jökulhlaup og framhlaup, sem reglulega verða í jöklunum, eru áhugavert rannsóknarefni. Evrópsku Copernicus Sentinel-1 gervitunglin hafa tekið radarmyndir af Íslandi á 6 eða 12 daga fresti síðan haustið 2014. Hliðrunargreiningu hefur verið beitt til þess að greina skriðhraða jökla hér á landi í íslensk−austurrísku rannsóknarverkefni sem stutt er af Rannís. Hliðstæð greining hefur verið unnin fyrir ísbreiður Grænlands og Suðurskautslandsins og ýmsa aðra jökla jarðar á síðustu árum.

Meðalskriðhraði íslensku jöklanna samkvæmt þessum rannsóknum er langmestur um miðbik og neðarlega í skriðjöklum sem spanna mikið hæðarbil á landsvæðum þar sem mikil úrkoma fellur. Þar getur hraðinn verið 400−800 metrar á ári þar sem hann er mestur á Skeiðarárjökli, Breiðamerkurjökli og Kötlujökli.

Hraðinn er einnig tiltölulega mikill á skriðjöklum Öræfajökuls og á skriðjöklum í suðaustanverðum Vatnajökli, mun meiri en á stóru skriðjöklunum í norðan- og vestanverðum Vatnajökli. Þar mælist hraðinn víða nokkrir tugir metra á ári og upp í 50−100 metra á ári og svipaður hraði mælist á jöklum á miðhálendinu og á Vesturlandi og Vestfjörðum. Einnig má sjá að jökulísinn skriður mjög hægt í grennd við ísaskil og víðast nærri jöðrum jöklanna. Hliðrunargreiningin gefur ekki alltaf fullnægjandi niðurstöður fyrir blautan vetrarsnjó að vor- og sumarlagi eða fyrir jökulís á sprungulitlum leysingarsvæðum að sumri. Greiningin gengur hins vegar oftast vel fyrir kaldan vetrarsnjó og fyrir leysingarsvæði þar sem nokkuð er um sprungur.

Miklar breytingar geta orðið á hreyfingu jökulíss við jökulhlaup og þegar gangur eða framhlaup er í jökli. Myndirnar hér að neðan sýna breytingar á skriðhraða Skeiðarárjökuls sem urðu í sambandi við jökulhlaup vorið 1996 en þá herti jökullinn verulega á sér við jökulhlaup miðað við skriðið sem mældist fyrr um veturinn þegar áhrifa jökulhlaupsins gætti ekki.

 

Tvær ólíkar hraðasviðsmyndir af Skeiðarárjökli fengnar með gervitunglagögnum. Lárétt hraðasvið í desember 1995 (a) og við upphafi jökulhlaupsins sem varð í kjölfar Gjálpar-gossins (b). Heimild: Eyjólfur Magnússon o.fl. (2007).

Tvær ólíkar hraðasviðsmyndir af Skeiðarárjökli fengnar með gervitunglagögnum. Lárétt hraðasvið í desember 1995 (a) og í lok mars 1996 í upphafi jökulhlaups sem þá var að hefjast úr Grímsvötnum (b). Blái ferillinn sýnir farveginn sem talið er að jökulhlaupið fylgi. Heimild: Eyjólfur Magnússon o.fl. (2007).