Afkomu- og veðurmælingar

Reglulegar afkomumælingar hófust á Vatnajökli árið 1992 og eru nú samvinnuverkefni Jarðvísindastofnunar háskólans og Landsvirkjunar. Afkoman er mæld á 70 stöðum víðs vegar um jökulinn en meirihluti þeirra er á skriðjöklum þaðan sem leysingarvatn er virkjað til raforkuframleiðslu. Á vorin er vetrarsnjór mældur með því að bora kjarna gegnum vetrarlagið og á haustin er leysing mæld með því að lesa af stikum eða vírum sem komið hefur verið fyrir í borholum. Út frá afkomumælingunum hefur afrennsli frá jöklinum verið áætlað. Mælingarnar nýtast líka við rannsóknir á breytingum á ísrúmmáli jökla, fyrir afkomulíkön og við mat á viðbrögðum jökla við breytingum í loftslagi. Búin eru til afkomukort af jöklinum sem byggja á mælingunum og sambandi milli hæðar og afkomu.

Sjálfvirkar veðurstöðvar sem reknar hafa verið á jöklinum á sumrin síðan 1994 mæla hita, rakastig, vindhraða, vindátt, stutt- og langbylgjugeislun og leysingu til þess að hægt sé að meta samhengi jöklaleysingar og veðurþátta. Veðurgögnin nýtast einnig við gerð afkomulíkana fyrir jökulinn.

Áhrif gjósku og ryks á endurkast sólarljóss og leysingu hafa verið skoðuð ítarlega. Þunnt gjóskulag getur aukið leysingu, en ef lagið nær ákveðinni þykkt einangrar það jökulinn. Nýlegar rannsóknir á Vatnajökli hafa sýnt fram á að gjóskulag upp á 10–15 mm getur komið í veg fyrir bráðnun. En áhrif gjósku og ryks gætir í stuttan tíma, því lögin grafast undir snjó á safnsvæðinu og skolast í burtu á leysingarsvæðinu. Kelfing jökla í sporðlón er hluti af leysingunni og er sérstaklega stór hluti af leysingu Breiðamerkurjökuls, ásamt aukinni ísbráðnun vegna innstreymis hlýs sjávar inn í Jökulsárlón.

 

Afkomumælistaðir á Vatnajökli. Heimild: Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskólans.

Afkomumælistaðir á Vatnajökli. Heimild: Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskólans.

 

Veðurstöð á Vatnajökli. Ljósmynd: Einar Ragnar Sigurðsson.

Veðurstöð á Vatnajökli. Ljósmynd: Einar Ragnar Sigurðsson.

 

Sporður Breiðamerkurjökuls kelfir í Jökulsárlón. Ljósmynd: Þorvarður Árnason.

Sporður Breiðamerkurjökuls kelfir í Jökulsárlón. Ljósmynd: Þorvarður Árnason, 2017.