Leysingarvatn og jökulár

Vatnið sem myndast þegar jökull bráðnar rennur ofan á, undir og inni í jöklinum að sporðinum þar sem það safnast í jökulár sem falla til sjávar. Jökulár bera fram fíngerðan svifaur, sand og möl og grafa farvegi og gljúfur í landið. Svifaurinn gefur jökulánum ljósgrænan blæ og er talað um að þær séu mjólkurlitaðar. Framburðurinn sest til þegar fjær dregur jöklinum og þær mynda á löngum tíma aurkeilur og sanda sem þær flæmast um. Þar sem landslag við jökulsporða er síbreytilegt geta jökulár tekið upp á því að skipta um farveg og skilja þá gamla farveginn eftir auðan og jafnvel brýr á þurru eins og sjá má við Heinaberg og við gömlu Skeiðarárbrúna, lengstu brú landsins, sem nú hefur verið aflögð eftir að Skeiðará flutti sig yfir í Gígjukvísl árið 2009.

Breytingar árfarvega frá því snemma á 20. öld:

Skeiðará í Gígjukvísl 1929, 1991, 2009

Veðurá í Stemmu 1930–1940

Heinabergsvötn í Kolgrímu 1948

Breiðá í Fjallsá 1954

Skaftá hættir að renna í Langasjó 1966

Stemma í Jökulsárlón 1990

Kvíslar í Skaftá í Hverfisfljót 1991, 1994 og hugsanlega 2011

Sæluhússvatn í Gígjukvísl um 1992

Upptök Breiðár undan jökli fluttust til 2002

Neskvísl Svínafellsjökuls í Svínafellsá 2007

Hrútá í Öræfum í Fjallsárlón um 2007

Austurfljót í Hornafirði í Suðurfljót 2008

Leirá á Mýrdalssandi í Skálm 2013

Súla í Gígjukvísl 2016

Eystri Kvíá í Kvíá, óljóst hvenær

Skráma í Svínafellsá, óljóst hvenær

 

Heinabergsvötn. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson.

Heinabergsvötn árið 1948. Ljósmynd: Skarphéðinn Gíslason.

Heinabergsvötn renna úr Heinabergsjökli og voru áður fyrr mikið vatnsfall og farartálmi. Á fimmta áratug 20. aldar voru Heinabergsvötn brúuð, en skömmu eftir að brúin hafði verið tekin í notkun, tóku Heinabergsvötn að renna í Kolgrímu og hafa gert síðan. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2017. Neðri mynd: Heinabergsvötn árið 1948. Ljósmynd: Skarphéðinn Gíslason.

 

Skeiðarársandur. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Skeiðarársandur. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.