Jaðarlón

Skriðjöklar geta grafið sig býsna djúpt niður og þegar þeir hopa safnast vatn í dældina sem þeir hafa grafið. Slík lón flýta fyrir hopi jöklanna, m.a. vegna þess að sporðar þeirra fljóta upp og ísjakar taka að brotna úr þeim, en þá er sagt að jökullinn kelfi. Stærsta og virkasta lón af þessu tagi hérlendis er Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Jökulsárlón er í raun mynnið á 200–300 m djúpum firði eða stöðuvatni sem Breiðamerkurjökull hefur grafið á árþúsundum og gengur um 25 km inn í landið.

Lón hafa á síðustu árum myndast framan við marga jökulsporða við suðaustanverðan Vatnajökul, til dæmis við Svínafellsjökul, Skaftafellsjökul, Fjallsjökul, Fláajökul, Heinabergsjökul og Hoffellsjökul. Þessir staðir eru ákjósanlegir til að skoða þróun jaðarlóna. Fyrst myndast nokkur lítil aðskilin lón eða tjarnir við hörfandi jökulsporð. Tjarnirnar renna fljótt saman í langt og mjótt stöðuvatn milli jökulgarðs og sporðsins. Lónið stækkar hratt þegar jökullinn þynnist það mikið að sporðurinn flýtur upp og brotnar í marga fjölbreytilega jaka, sem endurspegla lagskiptingu jökulsins. Að lokum verður til stórt stöðuvatn við þverhníptan sporð sem jökullinn kelfir út í.

 

Svínafellsjökull með nokkur lítil aðskilin jaðarlón (nær) og Skaftafellsjökull með langt og mjótt lón milli jökulgarðs og jökuljaðars (fjær). Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2014.

Svínafellsjökull með nokkur lítil aðskilin jaðarlón (nær) og Skaftafellsjökull með langt og mjótt lón milli jökulgarðs og jökuljaðars (fjær). Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2014.

 

Fláajökull með nokkur aðskilin lón og mjótt lón milli jökulgarðs og jökuljaðars. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2014.

Fláajökull með nokkur aðskilin lón og mjótt lón milli jökulgarðs og jökuljaðars. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2014.

 

Sporður Heinabergsjökuls flýtur upp og brotnar upp í ótal jaka. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson.

Sporður Heinabergsjökuls flýtur upp og brotnar upp í ótal jaka. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2017.

 

Fjallsjökull kelfir í Fjallsárlón. Ljósmynd: Guðmundur Ögmundsson, 17. maí 2012.

Við Fjallsjökul er orðið til stórt lón og kelfir úr jökulstálinu. Þar er boðið upp á bátasiglingar á milli fljótandi ísjaka. Ljósmynd: Guðmundur Ögmundsson, 17. maí 2012.