Landmótun jökla

Ísland er í stórum dráttum mótað af upphleðslu jarðlaga í eldgosum og rofi þeirra af völdum jökla og vatnsfalla. Landmótun suðurskriðjökla Vatnajökuls er ekki eins stór í sniðum og mótun ísaldarjöklanna en setur engu að síður sterkan svip á Suðausturland. Sérstaklega hafa skriðjöklar Öræfajökuls grafið sig inn í eldstöðina og skorið og mótað landslagið í kring. Meðal áberandi jökulmenja eru jökulgarðar, jökullón, tómir árfarvegir og ummerki jökulhlaupa. Jarðfræðingar lesa þetta jöklalandslag og ráða meðal annars af því stöðu jöklanna á mismunandi tímum. Jöklar og jökulvötn móta undirlagið með margvíslegum hætti. Sjálfur ísinn er of mjúkur til þess að sverfa harðan berggrunn en grjót og möl sem hann ber með sér við jökulbotn grafa og rista rákir í undirlagið. Jökulruðningurinn, sem þetta lausa efni kallast, berst fram með jöklinum, ýmist undir, í eða ofan á jökulísnum, veltist og mylst undan þunga hans og hleðst að lokum upp í jökulgarða til hliðar eða framan við sporðinn.

 

Landmótunarkort af nágrenni Svínafells. Heimild: Everest o.fl. (2017).

Landmótunarkort af nágrenni Svínafells. Heimild: Everest o.fl. (2017). [Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu.]

 

Jökulmótað landslag framan við Skaftafellsjökul. Litlar tjarnir myndast í dældum sem koma undan jökli. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson.

Jökulmótað landslag framan við Skaftafellsjökul. Litlar tjarnir myndast í dældum sem koma undan jökli. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2014.

 

Jökulsorfinn Birnudalstindur í Skálafellsjökli. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2013.

Jökulsorfinn Birnudalstindur í Skálafellsjökli. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2013.

 

Jökulgarðar Brúarjökuls frá 1890. Ljósmynd: Ívar Örn Benediktsson, 2003.

Jökulgarðar Brúarjökuls frá 1890. Ljósmynd: Ívar Örn Benediktsson, 2003.