Framhlaup

Sumir jöklar hlaupa fram sem kallað er, en þá verður tímabundin aukning í skriðhraða íssins. Vatn undir miklum þrýstingi dreifist um jökulbotninn og lyftir jöklinum svo skrið hans getur aukist allt að hundraðfalt. Sporðurinn getur þá færst fram mörg hundruð metra á nokkrum mánuðum. Flestir framhlaupsjöklar hafa lítinn halla (á bilinu 1,5–4°) og hreyfast of hægt til þess að halda í við snjósöfnunina á safnsvæðinu. Til þess að rétta af þetta ójafnvægi hlaupa þeir fram. Framhlaup geta flutt 25% af heildarísflæði milli hlaupa og hafa víðtæk áhrif á jökulinn, svo sem á legu ísaskila, ísflæði, rennslisleiðir vatns og lögun jökulsins. Framhlaupsjöklar ná yfir um 75% af yfirborði Vatnajökuls og margir þeirra hlaupa reglulega fram. Frá því á síðasta áratug 20. aldar, þegar nokkrir skriðjöklar Vatnajökuls hlupu, hefur aðeins orðið eitt lítið framhlaup í Kverkjökli á árunum 2008 til 2011.

Framhlaup í Síðujökli árið 1994. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Framhlaup í Síðujökli árið 1994. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

 

Framhlaup í Tungnaárjökli árið 1994. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Framhlaup í Tungnaárjökli árið 1994. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

 

Framhlaup í Vatnajökli. Heimild: Teiknað eftir Helga Björnssyni o.fl. (2003).

Framhlaup í Vatnajökli. Heimild: Teiknað eftir Helga Björnssyni o.fl. (2003).