Jökulhlaup

Jökulhlaup verða frá jarðhitasvæðum undir jökli, vegna eldgosa undir jökli eða úr jökulstífluðum lónum. Jökulhlaup ógna byggð og innviðum nærliggjandi sveita og rjúfa og móta landslagið með mikilvirkum hætti. Jökulsárgljúfur mynduðust í gríðarlega vatnsmiklum jökulhlaupum ættuðum úr Kverkfjöllum eða Bárðarbungu á fyrri hluta nútíma.

Þekktust eru jökulhlaup úr Grímsvötnum sem komu fram í Skeiðará eftir að hafa ferðast 50 km leið undir Skeiðarárjökli. Jarðhiti hefur brætt jökulinn í Grímsvatnaöskjunni um aldir og vatn hleypur úr lóninu með reglulegu millibili. Fyrstu lýsingar á Grímsvatnahlaupum eru frá miðöldum en alls eru þau talin vera rúmlega 40 talsins. Í stærstu hlaupunum náði vatnið yfir allan Skeiðarársand eða yfir um 1000 km2 svæði. Sandurinn er byggður upp af framburði jökulánna og jökulhlaupseti á síðustu 10.000 árum. Hann er um 100 m þykkur nálægt jökli en allt að 250 m við ströndina. Mjög hefur dregið úr stærð Grímsvatnahlaupa á síðustu áratugum.

Jökulhlaup verða einnig að jafnaði á 1–3 ára fresti úr Skaftárkötlum sem eru milli Grímsvatna og Hamarsins og rennur vatnið í Skaftá. Skaftárkatlar eru tveir, sá eystri og sá vestari, og veldur jarðhiti því að vatn safnast fyrir við jökulbotn undir þeim. Í yfirborð jökulsins, sem er 350–400 m þykkur á þessu svæði, myndast lægðir (katlar) af völdum jarðhitans og afmarkast þær af miklum hringsprungum. Við hlaup sígur yfirborð katlanna um 70–100 m og rís hægt aftur milli hlaupa.


 

Kort sem sýnir upptök jökulhlaupa í Vatnajökli. Rautt: eldvirkni undir jökli, blátt: jökulstífluð lón (núverandi og fyrrverandi), grænt: jarðhiti undir jökla.

Kort sem sýnir upptök jökulhlaupa í Vatnajökli. Rautt: eldvirkni undir jökli, blátt: jökulstífluð lón (núverandi og fyrrverandi), grænt: jarðhiti undir jökla. Heimild: Oddur Sigurðsson og Richard S Williams, í undirbúningi.

 

 

Jökulhlaup í Skaftá þann 2. október 2015. Ljósmynd: Tómas Jóhannesson.

Jökulhlaup í Skaftá þann 2. október 2015. Ljósmynd: Tómas Jóhannesson.

 

 

Grímsvötn og Skaftárkatlar í vestanverðum Vatnajökli og slóð jökulhlaupa úr vötnunum. Heimild: Veðurstofa Íslands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskólans.

Grímsvötn og Skaftárkatlar í vestanverðum Vatnajökli og slóð jökulhlaupa úr vötnunum. Heimild: Veðurstofa Íslands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskólans.

 

Skeiðarársandur 6. nóvember 1996. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Skeiðarársandur 6. nóvember 1996. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.