Jafnvægislína

Mörkin sem skilja að safnsvæði (ákomusvæði) jökuls, þar sem snjór og ís hleðst upp, og leysingarsvæði, þar sem meiri snjór og ís bráðnar en bætist við ár hvert, eru nefnd jafnvægislína. Hæð hennar yfir sjávarmáli er aðallega háð hita og úrkomu en einnig landslagi. Ef veðurfar væri stöðugt héldust jafnvægislínan og jökuljaðrar meira eða minna óbreytt. Veðráttan er aftur á móti langt því frá að vera stöðug og hæð jafnvægislínu er að sama skapi breytileg á milli ára. Ef horft er til lengri tíma má líta á meðalhæð jafnvægislína sem vísbendingu um loftslag.

Jafnvægislína á sunnanverðum Vatnajökli er breytileg en er víða í um 1000–1200 m hæð yfir sjó. Í lok litlu ísaldar, fyrir aldamótin 1900, var hún líklega um 300 m lægri á þessu svæði. Þá voru safnsvæði jöklanna miklu stærri en nú og forðasöfnunin að sama skapi meiri. Vegna lægri meðalhita og styttri leysingartíma yfir sumarmánuðina var bráðnunin jafnframt minni og jöklar gengu fram dali og niður á láglendi.

Þversnið af jökli sem sýnir safnsvæði (ákomusvæði), leysingarsvæði og jafnvægislínu. Einnig hvernig ísinn færist frá safnsvæði niður á leysingarsvæði eftir straumlínum.

Þversnið af jökli sem sýnir safnsvæði (ákomusvæði), leysingarsvæði og jafnvægislínu. Einnig hvernig ísinn færist frá safnsvæði niður á leysingarsvæði eftir straumlínum.

 

Landsat gervitunglamynd frá hausti 1994. Hægt er að greina snælínuna sem skilur að snæviþakið hvítt yfirborð á efri hluta jökulsins og dekkri jökulísinn á leysingarsvæðinu. Á þíðjöklum er snælína að hausti oft skilgreind sem jafnvægislína þess árs.

Landsat gervitunglamynd frá hausti 1994. Hægt er að greina snælínuna sem skilur að snæviþakið hvítt yfirborð á efri hluta jökulsins og dekkri jökulísinn á leysingarsvæðinu. Á þíðjöklum er snælína að hausti oft skilgreind sem jafnvægislína þess árs.