Afleiðingar hörfunar jökla

Hækkun sjávarborðs

Íslensku jöklarnir geyma alls 3500 km3 af ís sem samsvarar 1 cm hækkun sjávarborðs. Grænlandsjökull hefur á síðustu árum tapað um helmingi meiri ís á hverju ári en suðurskriðjöklar Vatnajökuls á 120 ára tímabili og hækkar nú sjávarborð heimshafanna um meira en 0,6 mm ár hvert. Rýrnun jökla, einkum á Suðurskautslandinu og Grænlandi, er veigamesta orsök hækkandi sjávarborðs jarðar sem nú rís um 3–4 mm á ári að meðaltali. Önnur orsök hækkandi sjávarborðs er útþensla sjávar vegna hlýnunar hafsins. Líklegt er að hækkun sjávarstöðu við Ísland verði um 30–40% af hnattrænni meðalhækkun. En óvissumörkin eru rífleg svo munar tugum cm og hefur ísbráðnun á Grænlandi og Suðurskautslandi þar ráðandi áhrif.

Hnattrænar sjávarstöðubreytingar. Heimild: Halldór Björnsson o.fl. (2018).

Hnattrænar sjávarstöðubreytingar. Heimild: Halldór Björnsson o.fl. (2018).

 

Berghlaup

Hörfun skriðjökla og hlýnun þelaurða getur valdið skriðuföllum úr fjallshlíðum þegar sífreri fer úr jörðu, skriðjöklar þynnast og hörfa og aðhald þeirra minnkar. Á síðastliðnum árum hafa miklar skriður eða berghlaup fallið á Morsárjökul og Svínafellsjökul. Hætta er á að hrun ofan í jökullón framan við hopandi jökla valdi skyndilegum flóðbylgjum sem geta ógnað fólki og mannvirkjum.


Horft yfir Morsárdal, Morsárjökul og Skaftafellsjökul. Á milli jöklanna eru Skaftafellsheiði, Kristínartindar og Skarðatindur. Í fjarska sést til Breiðamerkurjökuls og austur á Hornafjörð. Mikið berghlaup féll á Morsárjökul í mars 2007, en það er eitt hið stærsta á Íslandi í áratugi. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson 13. september 2014. 

Horft yfir Morsárdal, Morsárjökul og Skaftafellsjökul. Á milli jöklanna eru Skaftafellsheiði, Kristínartindar og Skarðatindur. Í fjarska sést til Breiðamerkurjökuls og austur á Hornafjörð. Mikið berghlaup féll á Morsárjökul í mars 2007, en það er eitt hið stærsta á Íslandi í áratugi. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson 13. september 2014.

 

Landris

Þegar jöklar þynnast og hörfa minnkar fargið á jarðskorpuna og landið rís. Landris er mest næst jökuljaðrinum og á jökulskerjum en minna fjær honum, t.d. um 40 mm/ári á mælistöð í Jökulheimum við vesturjaðar Vatnajökuls en um 12 mm á ári á Höfn í Hornafirði. Óvissa er um framtíð siglinga um Hornafjarðarós vegna landrissins en hækkandi sjávarborð af völdum hlýnandi loftslags og bráðnunar jökla vegur að vissu marki á móti landrisinu.

Landris á Íslandi 2004-2016. Heimild: Guðmundur Valsson (2017).

Landris á Íslandi 2004-2016. Heimild: Guðmundur Valsson (2017).

 

Aukin eldvirkni

Farglétting vegna bráðnunar jökla er talin örva kvikuframleiðslu sem getur leitt til aukinnar gosvirkni og  þessara áhrifa gætir hugsanlega nú þegar í aukinni virkni eldstöðva undir Vatnajökli. Líkanreikningar sem herma eftir jökulhörfuninni 1890–2010 gera ráð fyrir að kvikuframleiðsla aukist um 100–135% vegna fargléttingar, sem samsvarar um 0,2 km3/ári af kviku undir Íslandi. Ef 25% af þessari kviku nær til yfirborðs jafngildir það einu Eyjafjallajökulsgosi á 7 ára fresti.

 

Ferðamennska

Með hörfun jökulsporða og myndun lóna framan við þá versnar aðgengi fótgangandi manna að skriðjöklum landsins og þar á meðal mælingamanna Jöklarannsóknafélagsins sem mæla hörfun jöklanna ár hvert. Aftur á móti aukast möguleikar á bátasiglingum á jökullónum eins og dæmin sanna við Jökulsárlón og Fjallsárlón. Íshellaferðir hafa einnig notið vaxandi vinsælda yfir vetrartímann, en leysingarvatnið sem rennur við botn jökulsins býr til göng upp í ísinn. Þegar vorar og hlýnar, eykst leysingin og ísveggirnir veikjast og geta hrunið. Auk þess geta orðið skyndilegir vatnavextir og er því varasamt að heimsækja hellana að sumri til. Með fjölgun jöklaferða fyrir ferðamenn aukast tækifæri til þess að koma á framfæri fræðslu um loftslagsbreytingar og rýrnun jökla.

Íshellir í Breiðamerkurjökli. Ljósmynd: Þorvarður Árnason.

Íshellir í Breiðamerkurjökli. Ljósmynd: Þorvarður Árnason.

 

Breytingar á lífríki

Jöklar hafa ekki bara áhrif á hina dauðu náttúru. Í framrás ganga þeir yfir gróið land og eyða lífi sem fyrir verður, plöntum og dýrum. Þegar jöklarnir hopa og þynnast kemur lífvana land í ljós fyrir framan jökulsporðana og við lækkandi jökuljaðra á jökulskerjum, fjallstoppum og klettum sem standa upp úr jöklinum. Næst jökuljaðrinum nema örfáar frumherjategundir land í fyrstu en þegar fjær dregur fjölgar tegundunum og lífverusamfélögin verða sífellt flóknari. Við hörfandi jökla er því einstakt tækifæri til að fylgjast með landnámi lífvera og framvindu lífsamfélaga með tíma.

Rannsóknir á jökulskerjum í Breiðamerkurjökli og Vatnajökli sýna að plöntutegundum hefur fjölgað og gróðurmörk breyst með hlýnandi loftslagi. Fleiri plöntutegundir geta nú vaxið þar en fyrir 30–40 árum síðan. Skerin þar sem rannsóknir hafa farið fram eru af mismunandi aldri; Máfabyggðir hafa staðið upp úr jökli frá lokum síðasta kuldaskeiðs ísaldar, Kárasker kom upp úr jöklinum 1935, Bræðrasker árið 1961, Maríusker haustið 2000, Systrasker í kringum 2010 og Grannasker sumarið 2016. Reglulega hefur verið fylgst með breytingum á gróðurfari Káraskers og Bræðraskers frá árinu 1965 en þá hóf Eyþór Einarsson grasafræðingur vöktun á föstum rannsóknareitum í samstarfi við bræðurna á Kvískerjum í Öræfum.

Niðurstöður sýna að samsetning gróðurs á þessum „eyjum“ er bæði háð aldri þeirra en ekki síður fjarlægð frá næsta „meginlandi“, það er, fjarlægð frá jökuljaðri. Jökulskerin gefa innsýn í hvað takmarkar landnám og frumframvindu gróðurs á Íslandi.

Framvinda lífs á jökulskerjum og við hörfandi skriðjökla er oft ólík framvindu á nýrunnum hraunum þar sem fyrstu sýnilegu frumherjarnir eru yfirleitt fléttur og mosar. Við jökuljaðar Skaftafellsjökuls eru blómplöntur aftur á móti frumherjar og á jökulskerjum í sunnanverðum Vatnajökli koma ýmis smádýr svo sem mítlar, mordýr og tvívængjur, ásamt svifköngulóm, á undan gróðrinum. Fyrrnefndu dýrin lifa á bakteríum og lífrænum leifum en köngulærnar eru rándýr. Öll berast þau með vindi inn á jökulskerin.

Birki á Skeiðársandi. Ljósmynd: Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Birki á Skeiðársandi. Ljósmynd: Bjarni Diðrik Sigurðsson.