Saga jöklabreytinga við sunnanverðan Vatnajökul

Gögn um jöklabreytingar á Íslandi eru mikilvægar vísbendingar um hnattrænar loftslagsbreytingar. Skriðjöklar í Austur-Skaftafellsýslu eru á einu hlýjasta og úrkomumesta svæði landsins, þeir bregðast hratt við breytingum í afkomu og velta í búskap er með því mesta sem gerist á jörðinni. Gagnasafnið er stórt og veðurgögn frá nálægum stöðvum ná aftur til ársins 1884 (fyrir hitastig) og 1921 (fyrir úrkomu). Til eru stafræn kort af botni og yfirborði jöklanna á mismunandi tíma, og afkomumælingar og veðurgögn veita einstakt tækifæri til rannsókna á viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum. Skriðjöklarnir eru allt frá 10 km2 upp í 200 km2 að flatarmáli. Meðalþykkt þeirra er 100–350 m og þeir skríða úr 1400–2100 m hæð niður að sjávarmáli margir hverjir, og botn þeirra stærstu ná nokkur hundruð m undir sjávarmál.

 

Litla ísöld

Við landnám voru jöklar mun minni en þeir eru nú en á litlu ísöld (1450–1900) tóku þeir að vaxa og ganga fram. Loftslag var breytilegt á litlu ísöld og alls ekki alltaf jafn kalt. Suðurskriðjöklarnir voru í mikilli framrás á 17. og 18. öld og náðu þá langt fram á láglendið. Þeir hörfuðu svo og gengu fram á víxl fram til um 1890 þegar flestir skriðjöklanna náðu sögulegu hámarki. Ummerki um framgang jökla má finna í jökulgörðum, stöðuvatnaseti og rituðum heimildum. Saga jöklabreytinga er einkum skýr við skriðjökla í alfaraleið á svæðinu frá Morsárjökli að Lambatungnajökli við sunnanverðan Vatnajökul. Skrif heimamanna, ferðalanga og fræðimanna á þessu tímabili veita innsýn í jöklabreytingar og afleiðingar þeirra. Skrifin lýsa tjóni á nytjalandi og jafnvel húsakosti af völdum vaxandi jökla, jökulhlaupa og síbreytilegra jökuláa. Við framgang jöklanna lögðust líka af nokkrar þjóðleiðir milli byggða norðan, austan og sunnan jökuls, m.a. svokallaður Norðlingavegur sem lá úr Fljótsdal niður í Lón og er kenndur við Norðlendinga sem sóttu sjóróðra á Suðausturlandi.

Fornar leiðir yfir Vatnajökul gætu hafa legið eins og punktalínurnar sýna. Á fyrstu öldum byggðar var jökullinn mun minni en nú. Heimild: Byggt á korti í bók Sigurðar Þórarinssonar (1974).

Fornar leiðir yfir Vatnajökul gætu hafa legið eins og punktalínurnar sýna. Á fyrstu öldum byggðar var jökullinn mun minni en nú. Heimild: Byggt á korti í bók Sigurðar Þórarinssonar (1974).

 

Breytingar frá lokum 19. aldar

Skriðjöklar Vatnajökuls, frá Skaftafelli austur fyrir Höfn, hafa hörfað um 1–8 km frá lokum 19. aldar til ársins 2017. Upp úr 1890 tóku flestir jöklar við sunnanverðan Vatnajökul að hopa, en þó mishratt eftir tímabilum og á köldu árunum 1970–1995 gengu sumir þeirra fram aftur. Flatarmál þeirra hefur minnkað um 340 km² samtals (sem samsvarar flatarmáli Stór-Reykjavíkursvæðisins) og rúmmálið um 140 km³ eða um 20% frá lokum 19. aldar fram til ársins 2017. Rýrnunin samsvarar 14 milljörðum vörubílshlassa af ís (!) og vatnsmagnið myndi hækka sjávarborð heimshafanna um 0,3 mm.

Síðan um aldamótin 2000 hefur rýrnun suðurskriðjöklanna verið sérstaklega hröð og með því mesta á flatarmálseiningu sem mælst hefur í heiminum á þessu tímabili. Rúmmálstap einstakra jökla nemur 15–50% frá 1890, en rýrnunin er háð stærð safnsvæðis þeirra miðað við leysingarsvæðið, halla undirlagsins og því hvort lón hafi myndast framan við þá. Ef fram heldur sem horfir munu jöklarnir minnka niður í u.þ.b. helming af núverandi rúmmáli fyrir 2100 og verða að mestu horfnir eftir 150–200 ár. Svipuð örlög bíða flestra annarra jökla á Íslandi og einnig jökla annars staðar á jörðinni utan heimskautasvæða.

Gögn um jöklabreytingar á Íslandi eru mikilvægar vísbendingar um hnattrænar loftslagsbreytingar. Skriðjöklar í Austur-Skaftafellsýslu eru á einu hlýjasta og úrkomumesta svæði landsins, þeir bregðast hratt við breytingum í afkomu og velta í búskap er með því mesta sem gerist á jörðinni. Gagnasafnið er stórt og veðurgögn frá nálægum stöðvum ná aftur til ársins 1884 (fyrir hitastig) og 1921 (fyrir úrkomu). Til eru stafræn kort af botni og yfirborði jöklanna á mismunandi tíma, og afkomumælingar og veðurgögn veita einstakt tækifæri til rannsókna á viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum. Skriðjöklarnir eru allt frá 10 km2 upp í 200 km2 að flatarmáli. Meðalþykkt þeirra er 100–350 m og þeir skríða úr 1400–2100 m hæð niður að sjávarmáli margir hverjir, og botn þeirra stærstu ná nokkur hundruð m undir sjávarmál.

Kort af suðurskriðjöklum Vatnajökuls sem sýnir útbreiðslu þeirra frá um 1890 til 2014. Heimild: Hrafnhildur Hannesdóttir o.fl. (2015a).

Kort af suðurskriðjöklum Vatnajökuls sem sýnir útbreiðslu þeirra frá um 1890 til 2014. Heimild: Hrafnhildur Hannesdóttir o.fl. (2015a).

 

Hörfun Breiðamerkurjökuls og stækkun Jökulsárlóns. Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Hörfun Breiðamerkurjökuls og stækkun Jökulsárlóns. Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskólans.

 

Breiðamerkurjökull 1890, 1945 og 2010. Snævarr Guðmundsson (2014).

Breiðamerkurjökull 1890, 1945 og 2010. Snævarr Guðmundsson (2014).