Viðbrögð jökla við loftslagsbreytingum

Viðbrögð jökla við breytingum á loftslagi eru mismunandi eftir stærð þeirra og lögun en flestir skriðjöklar svara breytingum í afkomu innan nokkurra ára með breytingum á stöðu jökulsporðsins. Viðbrögð jökla við breytingum í afkomu eru m.a. háð mismunandi botnlögun og halla undirlagsins og tilvist sporðlóna sem auka leysingu. Jökullinn getur ýmist hopað eða gengið fram í allmörg ár eða áratugi þar til áhrif loftslagsbreytinga eru að fullu komin fram. Á stuttum og bröttum jöklum geta áhrif loftslagsbreytinga verið að mestu komin fram við jökulsporð eftir einn til tvo áratugi en daljöklar og stórir, flatir skriðjöklar eru mun lengur að bregðast við breytingum í loftslagi. Í hlýnandi loftslagi eykst leysingin og leysingartímabilið lengist. Aukin bráðnun veldur því einnig að jöklarnir skríða hraðar vegna þess að bræðsluvatn sem nær til botns eykur skriðhraðann, og jöklar sem ganga í sjó fram kelfa meira.

Sporðlón, eins og Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, auka leysingu. Mynd: Hrafnhildur Hannesdóttir, 2012.

Sporðlón, eins og Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, auka leysingu. Mynd: Hrafnhildur Hannesdóttir, 2012.

 

Næmi jökla gagnvart loftslagsbreytingum er skilgreint sem breyting í afkomu jöklanna eða rúmmálsbreyting sem verður af völdum tiltekinnar breytingar á loftslagi (aðallega hita eða úrkomubreytingar). Afkomunæmni íslensku jöklanna er á bilinu -3,0 til -0,6 m/°C sem er með því hæsta í heiminum, það þýðir að fyrir hverja gráðu hækkun bráðnar sem samsvarar 0,6 til 3,0 m á ári.

Nýlegar rannsóknir með líkanreikningum á viðbrögðum Skálafellsjökuls, Heinabergsjökuls og Fláajökuls (í sunnanverðum Vatnajökli) við breytingum í hita og úrkomu sýna að þessir jöklar myndu tapa 25–35% af rúmmáli sínu við einungis 1°C hlýnun.  Rúmmálstapið er nálægt 60% af völdum 2°C hlýnunar þegar áhrif hennar eru að fullu komin fram, en að jafnaði tók það um 100 ár í líkanreikningunum. Þótt okkur þyki breyting í meðalhita upp á 1°C ekki mikil þá hefur hún mikil áhrif á vöxt og viðgang jöklanna.

Ef skoðaðar eru hitabreytingar yfir árið (þ.e. hvernig hiti hefur breyst innan hvers mánaðar) í Stykkishólmi, kemur í ljós að hitastigsaukningin er meiri yfir vetrarmánuðina heldur en sumarmánuðina. Það hefur talsvert að segja fyrir afkomu jöklanna, að hærra hlutfall úrkomu fellur sem rigning en ekki snjór. Framtíðarveðurspár gera einnig ráð fyrir að árstíðasveiflur verði minni.

Stórfelldar breytingar eiga sér nú stað á ísbreiðum Grænlands og Suðurskautslandsins og eru breytingarnar þar mun hraðari en spár höfðu gert ráð fyrir. Leysingarsvæði stækka og færast ofar, bræðsluvatn safnast fyrir í stöðuvötnum á yfirborði jökulsins sem skyndilega hverfa þegar vatnið finnur sér leið um svelgi sem ná til jökulbotnsins. Við það eykst skriðhraði jökulsins og þar af leiðandi einnig kelfing jökla sem ná í sjó fram.

Yfirborðsvötn á Grænlandi.

Yfirborðsvatn á Grænlandi. Ljósmynd: Timo Lieber

 

Yfirborðsvötn á Grænlandi.

Yfirborðsvötn á Grænlandi. Ljósmynd: Joughin/UW Polar Science Center.