Loftslagsbreytingar
Loftslag fer hlýnandi um allan heim og nemur hlýnunin á síðustu 100 árum að meðaltali um 0,8°C við yfirborð jarðar, en hitastigsaukningin er um tvöfalt meiri á norðurslóðum. Þetta virðist ekki há tala þegar horft er til hitasveiflna dag frá degi en þar sem um vik frá meðalárshita er að ræða eru áhrifin víðtæk og birtast m.a. í bráðnun hafíss og jökla, hækkun sjávarborðs, lengri vaxtartíma gróðurs á tempruðum svæðum og breytingum á farháttum dýra, svo eitthvað sé nefnt.
Ástæða hlýnunarinnar er fyrst og fremst aukinn styrkur koltvísýrings (CO2) og fleiri svokallaðra gróðurhúsalofttegunda, svo sem metans (CH4), í lofthjúpnum. Aukning þessara lofttegunda er af mannavöldum og stafar einkum af bruna á kolum og olíu til raforkuframleiðslu, í samgöngum og iðnaði, minni bindingu CO2 vegna gróðureyðingar og losunar metans í landbúnaði. Styrkur CO2 í lofthjúpnum hefur aukist um meira en 45% frá því fyrir iðnbyltingu. Sambærileg aukning CO2 hefur orðið í sjónum og leitt til súrnunar hans, sem verður til þess að að minna er þar af uppleystum kalksamböndum. Ef fram heldur sem horfir munu ýmsar tegundir sjávarlífvera deyja út og súrnunin mun hafa víðtæk áhrif á vistkerfi sjávar.

Ýmis merki þess að loftslag fer hlýnandi. Heimild: http://visindavefur.is/svar.php?id=62047
Jöklar
Jöklar eru mesta ferskvatnsforðabúr Jarðar. Langstærstu jöklana er að finna á Suðurskautslandinu og á Grænlandi. Utan þessara svæða er fjöldi jökla, einkum á norður- og suðurheimskautssvæðunum, en jökla er þó að finna í fjalllendi í öllum heimsálfum. Leysingarvatn frá jöklum er notað til áveitna á landbúnaðarland, það safnast í ár og vötn og verður að drykkjarvatni dýra og milljóna manna. Jökulvatn er líka víða notað til rafmagnsframleiðslu, eins og hér á landi.
Íslenskir jöklar geyma um 3500 km3 af ís, þar af Vatnajökull einn um 3000 km3. Ef allur þessi ís bráðnaði væri hægt að kaffæra allt Ísland í 30 m djúpu vatni eða hækka sjávarborð heimshafanna um einn cm. Ef allir jöklar heimsins bráðnuðu mundi sjávarborð hækka um allt að 65 m og kaffæra stóran hluta alls ræktar- og borgarlands jarðarinnar.
Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í rúma tvo áratugi og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing hlýnandi loftslags hérlendis og skýr vitnisburður um hlýnunina. Sumir jöklar hafa horfið á síðasta áratug, eins og Okjökull suðvestan Langjökuls er dæmi um. Síðan jöklar á Íslandi náðu mestu útbreiðslu í lok 19. aldar hafa þeir hopað mikið og flatarmál þeirra dregist saman um meira en 2100 km2 eða um 17%. Miklar breytingar hafa orðið á afrennslisleiðum frá jöklum og á jaðarlónum við jökulsporða, ný lón hafa myndast og eldri stækkað, en önnur horfið. Hörfunin hefur hert á sér síðustu áratugina og jöklarnir minnkuðu um rúma 700 km² á tímabilinu 2000–2017 sem samsvarar um 43 km² á ári að meðaltali (til samanburðar er flatarmál Reykjavíkur 273 km2).

Kort af jöklum heimsins í bleikum lit, sem eru um það bil 198.000 talsins. Heimild: https://www.goldensoftware.com/blog/where-are-the-world-s-glaciers.

Strandlínur í Evrópu ef allir jöklar heims bráðna. Heimild: National Geographic.
Vatnajökulsþjóðgarður
Í Vatnajökulsþjóðgarði blasa við margs konar ummerki um jöklabreytingar sem nú verður vart víða á jörðinni sökum hlýnunar lofthjúpsins af mannavöldum. Í þjóðgarðinum má m.a. finna hliðstæður við hinar hröðu jöklabreytingar á stórum ísbreiðum heimskautasvæðanna, á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Allir jökulsporðar á fjölmennum ferðamannaslóðum við sunnan- og suðaustanverðan Vatnajökul hörfa og lækka hratt. Við jökulsporða sem teygja sig niður á láglendið er að finna fjölmargar vísbendingar, svo sem jökulgarða og jaðarurðir, um útbreiðslu og þykkt skriðjöklanna frá fyrri tíð en ekki eru nema um 130 ár síðan flestir þeirri náðu mestri útbreiðslu á Nútíma, þ.e. á síðustu 10 000 árum.

Heinabergsjökull og lónið framan hans, sem hefur stækkað ört á undanförnum árum. Ljósmynd: Þorvarður Árnason, 2018.

Skálafellsjökull nær og Heinabergsjökull fjær, og framan þeirra sjást ystu jökulgarðar frá því um 1890. Endurtekin jökulhlaup frá jökulstífluðum lónum (í Vatnsdal og Heinabergsdal) hafa sópað jökulgörðunum í burtu að hluta til. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 17. ágúst 2006.

Fjallsárjökull og Fjallsárlón. Blásporður Hrútárjökuls t.v. og Breiðamerkurjökull fjær t.h. Jökulgarðar sem Fjallsárjökull myndaði um 1890 sjást í mosavöxnum sandinum. Sporðalónin hafa stækkað á undanförnum áratugum og flýta fyrir leysingu. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 17. ágúst 2006.
Við sporð Fláajökuls sem hefur lækkað um 250 m á sl. 130 árum. Ljósmynd: Þorvarður Árnason, 2016.