Fjölbreytt landslag, jarðfræði og veðurfar móta vistkerfi innan þjóðgarðsins. Á svæðinu er hægt að sjá mikinn breytileika í gróðri og dýralífi, allt frá líflitlum auðnum til svæða með mikinn lífbreytileika. Gróðurfar er margbreytilegt; gróðurvana jökulsandar, samfelldur hálendisgróður, votlendi, gróðurvinjar í hraunjöðrum, mosabreiður, mólendi og birkiskógar. Dýralíf þjóðgarðsins endurspeglar fjölbreytt landslag, veðurfar og gróðurfar svæðisins. Undir yfirborðinu leynist einnig stórmerkilegt og ævafornt lífríki. Í uppsprettulindum og neðanjarðarsprungum finnast ísaldarmarflær og bifdýr sem þær nærast á, í einangruðum lindakerfum jökuláa hafa þróast merkileg afbrigði dvergbleikju og á háhitasvæðum innan og utan jökuls finnast einstakar hveraörverur og örverulíf. 

 

Landnám gróðurs og dýralífs

Þegar Vatnajökull hopar kemur nýtt land í ljós og breytingar verða á rennsli jökuláa. Þannig skapast aðstæður fyrir landnám lífs á víðáttumiklum söndum og jökulurðum. Á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs gefst lærðum jafnt sem leikum einstakt tækifæri til að fylgjast með náttúrulegri
gróðurframvindu, landnámi dýra og mótun nýrra vistkerfa. Í Esjufjöllum fylgjast vísindamenn með landnámi lífs á jökulskerjum og á Skeiðarársandi, þar sem áður var gróðursnauður jökulsandur, er nú að vaxa upp víðfeðmur birkiskógur sem mun á næstu áratugum gjörbreyta lífríki sandsins. 

Lindir og gróðurvinjar

Sú litla úrkoma sem fellur norðan Vatnajökuls hripar niður í gegnum eldbrunnin og sandorpin hraun og sprettur fram sem vatnsmiklar lindir í hraunjöðrum. Á svæðinu eru nokkur af stærstu lindasvæðum Íslands, einstök á heimsvísu, og veita þau okkur mikilvæga vistkerfaþjónustu. Við lindasvæði hálendisins eru gróðurvinjar með einstöku gróðurfari og dýralífi. Í uppsprettulindum og neðanjarðarsprungum finnast ísaldarmarflær og bifdýr sem þær nærast á og í einangruðum lindakerfum Jökulsáa hafa þróast merkileg afbrigði dvergbleikju. 

Fálkinn konungur Gljúfra

Jökulsárgljúfur eru mikilvægt búsvæði og varpland fálka og hvergi á Íslandi er varp hans þéttara. Klettar og syllur Jökulsárgljúfra ásamt vel grónu heiðalandi með gnótt af rjúpu, aðalfæðu fálkans, hafa þar mest að segja. Jökulsárgljúfur eru ákjósanlegur staður til að sýna fálka í sínum náttúrulegu heimkynnum án þess að skaði hljótist af og um leið veita gestum tækifæri til að öðlast innsýn í vistfræði fálkans og tengsl hans við aðrar fuglategundir, einkum rjúpuna.  

Griðland hreindýra

Hreindýr voru ekki á Íslandi fyrr en þau voru flutt hingað á ofanverðri 18. öld. Vegna samfelldrar gróðurþekju og fjölbreytts hálendisgróðurs eru Snæfellsöræfi mikilvægt búsvæði hreindýra. Langt inni á öræfum Austurlands þrifust dýrin á meðan þau hurfu af öðrum stöðum á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Árið 1975 var stofnað friðland hreindýra í Kringilsárrana. Á Snæfellsöræfum gefst því einstakt tækifæri til að segja sögu hreindýra á Íslandi og gefa gestum innsýn í vistfræði dýranna sem nýta svæðið sem burðar- og beitarsvæði.

Heiðagæs, einkennisfugl Snæfellsöræfa

Gróðurrík, votlend öræfin eru mikilvæg varpsvæði heiðagæsa en þessi einkennisfugl svæðisins er víða áberandi, einkum við vötn og tjarnir. Stöðug fjölgun heiðagæsa setur mark sitt á gróðurfarið, einkum hina vel grónu töðuhrauka sem eru víða rótbitnir. Í júlí má sjá stóra hópa ófleygra heiðagæsa fella flugfjaðrir sínar, einkum við Eyjabakka, sem hýstu til skamms tíma heimsins stærsta fellihóp heiðagæsa. 

Flækingar – fuglar og fiðrildi

Vegna landfræðilegrar einangrunar er fugla- og fiðrildafána Íslands fátækleg. Á Suðausturlandi má þó oft finna flækinga sem berast með ríkjandi suðaustanvindum frá Evrópu, einkum vor og haust. Fæstir þeirra ná fótfestu en flestir gleðja augu manna. Þannig hefur í Hornafirði myndast öflugt samfélag fuglaáhugamanna sem keppast við að skrá komur flækinga líkt og Hálfdán Björnsson á Kvískerjum í Öræfum gerði en hann safnaði einnig fjölda fiðrilda.

Gróðurframvinda - mosi um mosa frá mosa til mosa

Mikil úrkoma einkennir landsvæði suðvestan Vatnajökuls og er mosi hvergi á Íslandi jafn ríkjandi í gróðurfari og þar. Á nýmynduðum landsvæðum í röku loftslagi svæðisins skapast einstakar aðstæður fyrir lágplöntur og þar má finna víðáttumiklar breiður gamburmosa og sjaldgæfar vistgerðir með gamburmosa í bland við breiskjufléttur í aðalhlutverki. Nær mosamottan stundum að verða það þykk að hún hamlar landnámi annarra plöntutegunda. Þó líður aldrei langur tími, á jarðfræðilegum tímaskala, þangað til árset, öskulag eða jafnvel hraunlag sest á gróðurþekjuna og myndar beð fyrir annan gróður. Á svæðinu gefst einstakt tækifæri til að komast í snertingu við og fræðast um þennan viðkvæma en jafnframt mikilvæga einkennisgróður, gamburmosana, sem í rigningu litar umhverfið grænt en grátt í þurrki. 

 

Gagnlegir tenglar