Búið er að opna fyrir umferð að Dettifossi á ný, frá þjóðvegi 1 norður um veg 862, Dettifossveg, vestan ár. Vegurinn austan ár er enn ófær, sem og vegurinn upp að vestan úr Kelduhverfi. 

Vegna mikilla leysinga skapaðist hættuástand við Dettifoss um helgina og ákvað þjóðgarðsvörður í samráði við lögreglu og Vegagerðina að loka vegi 862 frá þjóðvegi 1 suður að Dettifossi. Reyndar var sú lokun fyrst og fremst til að spara fólki óþarfa akstur áleiðis að fossinum því náttúran sjálf sá til þess að enginn komst að honum nema fuglinn fljúgandi. Nú hefur hins vegar dregið úr leysingunni og var opnað á ný í morgun.

Seinni part liðins vetrar snjóaði mikið á svæðinu í kringum Dettifoss. Fuglafræðingar sem fara árlega í rjúpnatalningu í Jökulsárgljúfrum mátu það sem svo að ekki hefði verið meiri snjór á svæðinu síðan 1988, en talið var við Hafursstaði fyrir tveimur vikum síðan. Hlýtt og sólríkt veður, ásamt stífri sunnanátt í lok síðustu viku, gerðu hins vegar að verkum að heilmikinn snjó tók upp, en eftir varð vatn sem flæddi um klappir og gamla flóðafarvegi.

Í eftirmiðdaginn sl. laugardag hafði vatn aukist svo mikið að síðustu gestir áttu í vandræðum með að komast til baka frá fossunum að bílastæðinu vestan Sanddals. Í Sanddal hafði myndast lítil á sem hægt var að fara yfir á snjóbrú, en varla hefði þurft að spyrja að leikslokum hefði einhver farið þar í gegn. Því var svæðinu lokað þá um kvöldið og var sú lokun í gildi allan daginn eftir. Þótt vatnsrennsli hefði minnkað tölvuvert um nóttina leiddi athugun snemma á sunnudagsmorgni í ljós að það var tekið að vaxa mjög hratt á ný og því full ástæða til að viðhalda lokuninni þann daginn. Ferðamenn sem rætt var við þá um morguninn sýndu þeirri ákvörðun mikinn skilning.

Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs hafa í vetur fylgst mjög vel með svæðinu vestan við Dettifoss, í góðu samstarfi við leiðsögumenn og aðra fastagesti á svæðinu. Stikaðar hafa verið leiðir í snjónum og þannig útbúnar þjappaðar slóðir að bæði Dettifossi og Selfossi. Leiðunum hefur síðan verið breytt í samræmi við breyttar aðstæður, ásamt því sem villuslóðum hefur verið lokað jafnóðum og þeir hafa myndast. Það er engum vafa undirorpið að þessar aðgerðir hafa aukið mjög öryggi ferðamanna á svæðinu, ásamt því að stuðla að jákvæðri upplifun þeirra af svæðinu og þeim stórkostlegu náttúrusmíðum sem þar eru að finna. Er það einlæg von okkar að svo verði áfram.Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?