Ný fræðsluskilti afhjúpuð á Svínadal

Hluti gönguhópsins les á eitt nýju skiltanna.
Hluti gönguhópsins les á eitt nýju skiltanna.

Síðastliðinn laugardag gekk hópur fólks frá Vesturdal og upp í Svínadal, en um var að ræða árlega fræðslugöngu þjóðgarðsins sem ber yfirskriftina „Páll og heiðarbýlið.“ Að vanda var gengið undir leiðsögn Sigþrúðar Stellu Jóhannsdóttur, fyrrum þjóðgarðsvarðar í Jökulsárgljúfrum, og var mæting mjög góð í ár eða um 25 manns. Veðrið lék við hópinn og má telja víst að allir hafi farið ánægðir heim og með nýja vitneskju í farteskinu.

Í ferðinni gátu gestir séð ný fræðsluskilti sem sett hafa verið upp við tóftir gamla heiðarbýlisins á Svínadal. Um er að ræða þrjú skilti þar sem fjallað er um heiðarbýli almennt, fornleifarnar á Svínadal og svo síðustu ábúendur þar, en saga þeirra er saga bæði sigra og sorga sem lætur engan ósnortinn. Skiltin voru unnin af starfsmönnum þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og var verkefnið styrkt af Vinum Vatnajökuls.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?