Aðstæður á hálendinu norðan jökla

Nú er farið að hausta og því full ástæða til að fylgjast vel með aðstæðum á fjöllum. Ferðafélag Akureyrar er sem stendur að loka skálum og snyrtihúsi í Drekagili og taka vatn af tjaldsvæðinu. Í Drekagili eru því engin opin vatnsklósett, en við skálana er þurrsalerni sem er og verður opið. Snyrtihúsið sem verið er að reisa við Vikraborgir í Öskju verður því miður ekki opnað þetta sumarið – það verður glimmrandi fínt og tilbúið til notkunar næsta sumar. Hægt er að gista í Drekagili (í tjaldi eða bíl) en þá má benda ferðamönnum á að hér er ekkert rennandi vatn nema hjá landvörðum (við fyllum fúslega á flöskur og slíkt) og skálar lokaðir.

Aðstæður í Öskju eru ágætar. Gönguleiðin er auð en nokkuð blaut og drullug innst við Víti. Gott er að ítreka við fólk að vera vel klætt og í vatnsheldum utanyfirfatnaði þegar það fer í Öskju, og einnig að skoða veðurspá áður en farið er inn á svæðið. Annars er virkilega fallegt haustyfirbragð yfir svæðinu og ennþá margt að sjá og skoða.

Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs verða í Drekagili að minnsta kosti út september. Þið megið gjarnan vísa fólki til okkar ef það er á leið inn á svæðið, og það er alltaf hægt að ná í okkur í síma til að fá upplýsingar um aðstæður, veður eða annað.

Landverðir í Drekagili    833-0360, 842-4357


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?