Umsóknarferlið

 

Íslensk stjórnvöld tilnefndu Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins þann 28. Janúar 2018 og var tilnefning send inn í lok þess mánaðar. Undirbúningur vegna tilnefningarinnar hófst 2016 en þá var sérstakri verkefnastjórn falið að stýra vinnu við tilnefninguna í samræmi við reglur UNESCO. Í tilnefningunni er áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu og eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem talið er einstakt á heimsvísu. Umsókn Vatnajökulsþjóðgarðs fékk því nafnið Samspil elds og íss.

 

Tilnefning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO

Skýrsla IUCN - World heritage nomination - IUCN technical evaluation, Vatnajökull National Park: Dynamic nature of fire and ice

UNESCO - Vatnajökull National Park - Dynamic Nature of Fire and Ice

 

 

Umsóknarferli 

Útbúa þarf formlega umsókn til heimsminjanefndar UNESCO um að staðir verði teknir inn á heimsminjaskrá. Umsóknin þarf að vera mjög ítarleg og hún er kostnaðarsöm því henni þurfa að fylgja nákvæmar náttúrulýsingar, rökstuðningur fyrir vægi staðanna í menningarlegum eða náttúrufarslegum skilningi, greinargerð um réttarstöðu, ný landabréf, ljósmyndir og margt fleira. 

Þrjár ráðgjafarnefndir aðstoða nefndina við þetta verkefni: Alþjóðaráðið um söguleg mannvirki og staði (ICOMOS), Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN) og Alþjóðleg miðstöð til rannsóknar á varðveislu og endurreisn menningarminja (ICCROM). Ef tilnefning er samþykkt þá kemst viðkomandi staður á heimsminjaskrá.

 

Umsókn Vatnajökulsþjóðgarðs

Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og er kominn á heimsminjaskrá á grunni 8. viðmiðs UNESCO sem kallar á að viðkomandi staður sé (í lauslegri þýðingu): „einstakt dæmi um mikilvæg stig í þróun jarðarinnar, þar með talið þróun lífs, dæmi um mikilvæga jarðfræðilegra ferla við mótun landforma eða einstök landform og jarðfræðifyrirbæri“

Vatnajökulsþjóðgarður er kominn á heimsminjaskrá í fyrsta lagi vegna samspils flekaskila, möttulstróks og hveljökuls sem skapar einstök átök elds og íss1. Ferlarnir sem um ræðir eru skorpuhreyfingar, eldvirkni, og jöklunarferlar. Viðlíka samspil þessra ferla er hvergi þekkt í veröldinni á þessum tímapunkti jarðsögunnar. 

 

Vinna og kostnaður

Umsókn um skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna hefur lengi verið á stefnuskrá stjórnvalda. Umsóknin var unnin frá upphafi til enda af Vatnajökulsþjóðgarði að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Snorri Baldursson ritstýrði umsókninni en fjölmargir fræðimenn komu að gerð hennar. Stjórnvöld greiddu um þrjá fjórðu hluta kostnaðar við umsóknina en hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs – Vinir Vatnajökuls styrktu vinnuna með rausnarlegu framlagi.

 

Samþykkt á Heimsminjaskrá

Tillaga ríkisstjórnarinnar um að Vatnajökulsþjóðgarði yrði bætt á heimsminjaskrána var afhent skrifstofu heimsminjasamningsins í París í lok janúar 2018. Frá þeim tíma hefur tillagan verið til gaumgæfilegrar skoðunar og úttektar hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN sem eru heimsminjanefndinni til aðstoðar við að meta heimsminjagildi, upprunaleika, heilleika og verndarstöðu staða sem tilnefndir eru á skrána vegna náttúrufars. Auk þess að vera viðurkenning á einstakri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsvísu er ákvörðun heimsminjanefndarinnar viðurkenning á þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að stofna þennan víðfeðma þjóðgarð og mikilvægur stuðningur við verndun og stjórnun svæðisins.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra: 
 
„Náttúra svæðisins sem nú fer inn á heimsminjaskrána er stórbrotin – með ævintýralegum hraunmyndunum, svörtum söndum, fágætum gróðurvinjum, víðernum sem eiga sér fáa líka, minjum um stórkostleg hamfarahlaup og jöklum sem geyma ótrúlega sögu og endurspegla um leið loftslagsvána. Afar óvenjulegt er að svo stór hluti lands sé á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta er sannarlega gleðidagur.“
 

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: 

„Þetta er dýrmætt skref fyrir okkur Íslendinga sem án efa verður lyftistöng fyrir svæðið og orðspor þess. Við berum ábyrgð á þessu stórbrotna landi, ekki aðeins fyrir okkur sjálf – heldur heiminn og framtíðina. Ég fagna þessum  mikilvæga áfanga og þakka þeim fjölmörgu sem unnið hafa ötullega að þessu markmiði undanfarin ár.“ 
 
 

Hvað tekur við eftir samþykkt

Skráning á heimsminjaskrá breytir starfsemi þjóðgarðsins í raun óverulega þar sem hún byggir á gildandi stjórnunar- og verndaráætlun garðsins. Heimsminjaskrá hefur það markmið að vernda menningar- og náttúruminjar heimsins þar sem minjarnar hafi einstakt gildi fyrir mannkynið. Þær geta verið stór hluti af sjálfsmynd og sögu þjóða og minjar heimsins hafa verið í hættu meðal annars vegna heimstyrjalda, fátæktar, fólksfjölgunar, ásókn ferðamanna og mengunar. 

Skráning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá staðfestir mikilvægi verndunar svæðisins og er mikill heiður fyrir þjóðgarða og verndarsvæði. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hvetur lönd til að taka þátt í að ská minjar heimsins til að tryggja verndun þeirra og horfir til þess að til sé áætlun um verndun svæðisins og á því fari fram vöktun. Einnig er veitt aðstoð sé svæðið í mikilli hættu t.d. vegna átroðnings ferðamanna. Markmiðið er einnig að veita leiðbeiningar um vernd og að íbúar í nærumhverfi taki þátt í henni. Skráninging mun ekki hindra t.d. útivist umfram þær heimildir sem þegar eru til staðar í lagaumgjörð og Stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Helstu breytingar verða því á kynningarefni eins og skiltum og fræðslu þar sem flétta þarf inn heimsminjaskrá en umfram allt er markmiðið með heimsminjaskráningu að vel sé hugsað um svæðið til framtíðar.

 

Úttekt IUCN

IUCN tók umsókn Íslands um skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá út og í niðurstöðu úttektarinnar mæla þeir með því að þjóðgarðurinn til og með Herðubreiðarfriðlandi verði tekinn á skrána. Einnig bendir IUCN á að friðun Jökulsár á Fjöllum sé ekki tryggð alla leið frá jökli. Þar með sé heild (e. integrity) þjóðgarðsins rofin á því svæði og ekki leyfilegt að taka hann allan inn á skrána að svo stöddu. Auðvelt verði þó að bæta Jökulsá á Fjöllum og Jökulsárgljúfrunum við heimsminjasvæðið þegar öll áin hefur verið friðuð frá upptökum.

Auk þessa fer IUCN fram á að bætt verði úr eftirfarandi atriðum:

• Lokið verði sem fyrst við endurskoðun Stjórnunar- og verndaráætlunar garðsins.
• Friðlöndunum í Herðubreiðalindum og Lónsöræfum verði formlega bætt við þjóðgarðinn.
• Mannauður þjóðgarðsins verði efldur, bæði með tilliti til heilsárs- og tímabundins starfsfólks, ekki síst við ný svæði innan þjóðgarðsins eins og Jökulsárlón.
• Ferðamannaaðstaða við Jökulsárlón og Dettifoss verði bætt.
• Komið verði á virku leyfis- og gæðakerfi vegna atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum (fyrirtæki og leiðsögumenn).
• Auki aðgerðir til að hindra utanvegaakstur og viðgerðir á skemmdum svæðum.