Upplifun

Gestir

Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs eru fjölbreyttur hópur sem vill upplifa og stunda útivist á margvíslegan hátt. Hlutverk þjóðgarðsins er fyrst og fremst að tryggja vernd náttúru og menningarminja svæðisins en einnig að bjóða gesti velkomna. Því er sjálfbær nýting lykilatriði í uppbyggingu innviða og stýringu ferðafólks enda eru svæði misviðkvæm fyrir ágangi mannsins. Þjónusta við gesti er áberandi þáttur í starfi þjóðgarðsins og má þar nefna gestastofur, upplýsingastöðvar, landvörslustöðvar, áningarstaði fyrir daggesti, tjaldsvæði, skála, vegi, gönguleiðir og upplýsinga- og fræðsluskilti.

Fjölskylda á ferðalagi nýtur útsýnis yfir jökulinn.

 

Fjöldi gesta í gestastofum þjóðgarðsins

 

Gestastofurnar Gljúfrastofa, Snæfellsstofa, Gamlabúð og Skaftárstofa

Fjöldi gesta á hálendisstöðvum

 

Fjöldi gesta á tjaldsvæðunum í Skaftafelli og Ásbyrgi

 

Fjöldi gesta í skálum og tjaldsvæði á hálendi

Heimildir: Talningar úr gögnum frá Gyðu Þórhallsdóttur og Rögnvaldi Ólafssyni fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og gistináttaskýrslum.

 

Fræðsla

Fræðsla er hornsteinn í starfsemi þjóðgarðsins. Góð fræðsla getur gefið gestum betri upplifun á ferðalagi, aukið öryggi og skilning á gæðum og sérstöðu svæðisins. Þjóðgarðurinn leggur metnað í að veita framúrskarandi fræðslu.

Starfsfólk í Skaftafellsstofu tilbúið að veita fræðslu og upplýsingar.

 

Steinarnir tala

Í þjóðgarðinum nýtum við okkur fjölbreyttar leiðir til að ná til gesta. Fræðslu- og kynningarefni þjóðgarðsins byggir á metnaðarfullri fræðsluáætlun sem gildir til 2022. Áætlunin tekur meðal annars saman helstu áherslur, markmið og skilaboð fræðslunnar. Af mörgu er að taka í þjóðgarði elds og ísa sem hefur verið kallaður lifandi kennslustofa í loftslagsbreytingum og er þjóðinni einnig mikilvægt sögusvið. Fræðslan birtist gestum í sýningum, vegvísum, kortum og á vef og samfélagsmiðlum. En einnig í lifandi fræðslu starfsfólks þjóðgarðsins t.d. í gestastofum, á tjaldsvæðum og í fræðslugöngum landvarða.

Fjöldi gesta í skipulagðri fræðslu

 

Tölfræði fræðslu

Barnastundir fjöldi þátttakendur
Ásbyrgi – Barnastund 28 455
Snæfellsstofa - Barnastund 11 65
Skaftafell - barnastund 12 46
samtals 51

566

 

Fræðslugöngur fjöldi þátttakendur
Ásbyrgi - síðdegisrölt 2 0
Dettifoss 5 5
Holuhraun 5 27
Askja 18 92
Herðubreiðarlindir 9 39
Geimgangan 1 15
Snæfellsstofa - Hengifoss 3 5
     
Kverkfjöll 20 111
Hvannalindir 14 58
Snæfell 3 73
Krepputunga 1 9
Skaftafell - Hörfandi jöklar 44 191
Skaftafell - Sambúð manns og náttúru 44 58
Skaftafell - Óvissuferð með landverði 33 118
Gamlabúð - Barnastund 4 7
Heinaberg 31 4
Jökulsárlón 13 62
Heinaberg - Dagur hinna villtu blóma 1 0
Skaftafell - Dagur hinna villtu blóma 1 0
Gamlabúð - Hræðsluganga 1 27
Lakagígar 11 85
Eldgjá   69
Nýidalur 0 0
Skaftárstofa - daglegar göngur allt   27
Samtals 264 1082

 

Vettvangsfræðsla þátttakendur
Lakagígar 4596
F910 2707
F88 919
Strangakvísl/Eldgjá 1800
Kárahnjúkar 522
Samtals 12344

 

Gestastofur

Gestastofur Vatnajökulsþjóðgarðs eru dreifðar í kringum jökulinn. Þær eru ýmist opnar allt árið eða yfir ferðatímabil á hverju svæði. Í gestastofunum fer fram upplýsingagjöf um þjóðgarðinn og nærsvæði hans og ferðaþjónustu. Hver gestastofa býður upp á sýningu, fræðslu um fjölbreytt viðfangsefni sem tengjast náttúru- og menningarminjum á hverju svæði ásamt lifandi fræðslu.

Móttaka hópa í gestastofum

Á hverju ári er tekið á móti fjölmörgum hópum í gestastofum þjóðgarðsins. Tekið er á móti ferðahópum og skólahópum á öllum stigum. Kappkostað er að eiga gott samtal við nærsamfélag hverrar gestastofu og skóla þar í kring.

Eitt af okkar skemmtilegustu verkefnum er að taka á móti skólahópum. Hóparnir heimsækja gestastofur og fá kynningu frá starfsfólki um þjóðgarðinn og vinna þematengd verkefni og njóta útivistar. Árið 2021 var tekið á móti 43 skólahópum og um 700 nemendum.

Fræðsluefni um þjóðgarðinn

Mikinn fróðleik um náttúru og sögu þjóðgarðins er að finna á vefnum þar eru einnig öll göngukort aðgengileg og vert er að minnast á fræðsluvefinn Hörfandi jöklar sem gefur innsýn í loftslagsvá, bráðnun jökla og rannsóknir.

Fræðsludagskrá

Á hverju ári býður þjóðgarðurinn gestum upp á fræðslugöngur, barnastundir og viðburði. Dagskráin fer að mestu fram yfir sumartímann þegar öll svæði eru opin en alltaf er að bætast í viðburði yfir vetrartímann. Flestar fræðslugöngur eru stuttar og auðveldar yfirferðar og eru á hverjum degi út frá gestastofum eða landvörslustöðum. Árið 2021 var fræðsludagskrá þjóðgarðsins metnaðarfull og nokkuð vel sótt þrátt fyrir heimsfaraldur.

 

Fylgið þjóðgarðinum á samfélagsmiðlum

Undanfarin ár hefur fræðsluhlutverk þjóðgarðsins á netmiðlum vaxið enda vefir og samfélagsmiðlar orðnir eitt stærsta verkfæri stofnana og fyrirtækja í fræðslu- og kynningarmálum. Vatnajökulsþjóðgarður aðlagar sig að breytingum og nýtir helstu miðla til að koma upplýsingum til gesta á sem fjölbreyttastan hátt. Gefnar eru út reglulegar fréttir og tilkynningar á vef og fræðsluefni er matreitt sérstaklega fyrir samfélagsmiðla ásamt ljósmyndum, hreyfimyndum og grafík.

 

 

Öryggi

Í Vatnajökulsþjóðgarði er rík áhersla lögð á forvarnir. Hvað starfsfólk varðar er lögð áhersla á jákvætt vinnuumhverfi og öfluga þjálfun starfsmanna með tilliti til eigin heilsu og færni í starfi með tilliti til forvarna og faglegs viðbragðs. Varðandi gesti er markmiðið að stuðla að öryggi eins og frekast er kostur en helstu verkfæri í því samhengi eru hættumat, upplýsingagjöf og ígrundaðar leiðbeiningar. Í þeim tilfellum sem slysum verður ekki forðað er áhersla á faglegt viðbragð og skilvirkt samstarf við viðbragðsaðila.

Stikun gönguleiða í snjó við Öskju. Mynd: Margrét Gísladóttir

 

Fjarskipti

Tetra kerfið er notað til fjarskipta og eykur það skilvirkni í daglegri starfsemi úti á svæðunum. Þegar upp koma neyðartilfelli skiptir kerfið sköpum í samskiptum við viðbragðsaðila.

Upplýsingar um aðstæður

Á vefsíðu eru settar inn aðvaranir sem tengjast færð og aðstæðum á gönguleiðum, í íshellum, eða á vegum. Einnig sinnir starfsfólk í gestastofum og úti á svæðunum mikilvægri upplýsingagjöf til ferðafólks varðandi veður og færð á ferðaleiðum. Á hálendi hefur fræðsluspjall við ferðamenn á vegum úti stuðlað að auknu öryggi og fækkað tilfellum aksturs utan vega.

Náttúruvá

Náttúra Vatnajökulsþjóðgarðs getur reglulega af sér vá sem krefst viðbragða almannavarna og vísindasamfélagsins. Vatnajökulsþjóðgarður hefur lagt sig fram um náið samstarf við viðbragðsaðila og aðra fagaðila í slíkum tilfellum. Í janúar hlóðst upp mikil krapastífla í Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði, en ruddi sig undir lok janúar án teljandi áhrifa í Jökulsárgljúfrum. Í september varð jökulhlaup úr Skaftárkötlum, sjá nánar í kafla Vestursvæði - Skaftárhlaup. Í Öskju var í haust gefið út óvissustig almannavarna vegna landriss og varir enn þegar þetta er skrifað, sjá nánar kafla Hálendi norðursvæðis - Óvissustig almannavarna. Í árslok hljóp jökulvatn úr Grímsvötnum með tilheyrandi hættu á eldgosi, sem leiddi af sér óvissustig almannavarna í rúmar tvær vikur, sjá kafla Suðursvæði - Skaftafell - Hlaup í Grímsvötnum.

Vöktun á og við jökla

Á árinu var haldið áfram að þróa vöktun landvarða á og við jökla. Í byrjun árs var haldin vinnustofa um nýtt íshellanámskeið í samvinnu við þjóðgarðinn, leiðandi fyrirtæki og Félag fjallaleiðsögumanna, AIMG. Íshellanámskeiðið var þörf viðbót til að auka öryggi og þekkingu í greininni. Þjóðgarðurinn hélt áfram reglulegu eftirliti við fjölfarna skriðjökla ásamt því að framkvæma sporðamælingar við Kverkjökul sem hægt er að nálgast í jöklavefsjánni (islenskirjoklar.is). Vatnajökulsþjóðgarður stefnir á að þróa enn frekar vöktun á og við jökla með helstu samstarfsaðilum og fylgja áfram ítrustu öryggiskröfum.

SafeTravel og björgunarsveitir

Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs og SafeTravel hefur verið mikilvægur hlekkur í upplýsingagjöf til ferðamanna varðandi aðstæður og öryggi. Starfsfólk þjóðgarðsins kemur upplýsingum um breyttar aðstæður til SafeTravel og þær fara beint inn á vef þeirra og ferðakort. Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem og viðbragðsvakt sömu aðila í Skaftafelli hefur skipt miklu máli í víðfeðmum þjóðgarði. Einnig á þjóðgarðurinn í góðu samstarfi við Neyðarlínu og lögregluna (m.a. í tengslum við hálendisgæslu lögreglu).

Fyrsta hjálp fyrir starfsfólk

Vatnajökulsþjóðgarður leggur mikla áherslu á að starfsfólk sé í stakk búið til þess að bregðast við slysum og óhöppum á svæðunum áður en frekari bjargir berast. Aðstæður á hálendi geta verið erfiðar og á flestum starfsstöðvum þjóðgarðsins er langt í aðrar bjargir. Á hverju vori býður þjóðgarðurinn verðandi sumarstarfsfólki að taka þátt í Fyrstu hjálpar námskeiði fyrir vertíðina. Aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli sinnir kennslu fyrstu hjálpar. Kosturinn við það fyrirkomulag er innsýn inn í reynsluheim landvarða á vettvangi og þar með hagnýtari kennsla. Stefnt er að því að auka samstarf milli stofnana og fá Umhverfisstofnun og Þingvelli með í verkefnið að ári.

Tengdar fréttir: