Heimsminjaskrá

Umsókn ríkisstjórnarinnar um að Vatnajökulsþjóðgarði yrði bætt á heimsminjaskrá SÞ var afhent skrifstofu heimsminjasamningsins í París í lok janúar 2018. Frá þeim tíma fram til vors 2019 var tillagan til gaumgæfilegrar skoðunar og úttektar hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN). Þeirri úttekt lauk með því að IUCN mælti með því að heimsminjanefnd SÞ samþykkti skráninguna og það gekk eftir á aðildaríkiþingi nefndarinnar í Bakú, Aserbaídsjan, 5. júlí 2019.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði af því tilefni:

„Náttúra svæðisins sem nú fer inn á heimsminjaskrána er stórbrotin – með ævintýralegum hraunmyndunum, svörtum söndum, fágætum gróðurvinjum, víðernum sem eiga sér fáa líka, minjum um stórkostleg hamfarahlaup og jöklum sem geyma ótrúlega sögu og endurspegla um leið loftslagsvána. Afar óvenjulegt er að svo stór hluti lands sé á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta er sannarlega gleðidagur.“
 

Og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði:

„Þetta er dýrmætt skref fyrir okkur Íslendinga sem án efa verður lyftistöng fyrir svæðið og orðspor þess. Við berum ábyrgð á þessu stórbrotna landi, ekki aðeins fyrir okkur sjálf – heldur heiminn og framtíðina. Ég fagna þessum mikilvæga áfanga og þakka þeim fjölmörgu sem unnið hafa ötullega að þessu markmiði undanfarin ár.“
 

Hvað tekur við eftir samþykkt?

Skráning á heimsminjaskrá breytir starfsemi þjóðgarðsins í raun óverulega þar sem hún byggir á gildandi stjórnunar- og verndaráætlun garðsins. Markmið þjóðgarða og heimsminjastaða – að vernda menningar- og náttúruminjar – fara saman, en munurinn er sá að fyrir heimsminjastaði er verndargildið og eignarhaldið fyrir mannkynið allt.

Skráning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá staðfestir mikilvægi náttúru garðsins. Líta má á skráninguna sem æðstu gæðavottun sem völ er á. Menningarmálastofnun SÞ (UNESCO) hvetur lönd til að taka þátt í að ská og vernda minjar heimsins með markvissum verndunar- og vöktunaráætlunum sem íbúar í nærumhverfi taki þátt í og hefur útbúið leiðbeiningar í því sambandi. Veitt er aðstoð sé svæðið í mikilli hættu t.d. vegna átroðnings ferðamanna.

Skráning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá hindrar ekki útivist eða önnur umsvif í þjóðgarðinum umfram þær takmarkanir sem þegar eru til staðar í stjórnunar- og verndaráætlun hans. Helstu breytingar sem gestir garðsins kunna að taka eftir varða kynningar- og fræðsluefni þar sem fléttað verður inn einkennismerki og gildum heimsminjastaða. Umfram allt er það markmið heimsminjaskráningar að vel sé hugsað um viðkomandi svæði til framtíðar.

Úttekt IUCN

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN gerðu ítarlega úttekt á umsókn Íslands um skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá. Niðurstaða þeirrar úttektar var sú að mæla með því að þjóðgarðurinn til og með Herðubreiðarfriðlandi í norðri yrði tekinn á skrána. IUCN benti réttilega á að friðun Jökulsár á Fjöllum væri ekki tryggð alla leið frá jökli. Þar með væri heild (e. integrity) þjóðgarðsins og tilnefnda svæðisins rofin. Auðvelt verði þó að bæta þessum svæðum við þegar áin hefur verið friðuð frá upptökum.

Auk þessa fór IUCN fram á að bætt verði úr eftirfarandi atriðum:

· Lokið verði sem fyrst við endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar garðsins.

· Friðlöndunum í Herðubreiðarlindum og Lónsöræfum verði formlega bætt við þjóðgarðinn.

· Mannauður þjóðgarðsins verði efldur, bæði með tilliti til heilsárs- og tímabundins starfsfólks, ekki síst til að sinna nýjum svæðum innan þjóðgarðsins, svo sem Jökulsárlóni.

· Ferðamannaaðstaða við Jökulsárlón og Dettifoss verði bætt.

· Komið verði á virku leyfis- og gæðakerfi vegna atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum (fyrirtæki og leiðsögumenn).

· Aðgerðir til að hindra utanvegaakstur og gera við röskuð svæði verði efldar.

Nú þegar hafa stjórnvöld brugðist við hluta þessara ábendinga. Í lok júní 2019 undirritaði umhverfisráðherra reglugerð sem gerði Herðubreiðarfriðland formlega að hluta Vatnajökulsþjóðgarðs og hinn 10. ágúst staðfesti hann friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum fyrir orkuvinnslu.

Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og skráður á heimsminjaskrá 2019 fyrir náttúruminjar undir áttunda viðmiði (criteria viii) sem kallar á að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvægt stig í þróun jarðarinnar. Svæðið er því viðurkennt sem einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra.

Umsókn Vatnajökulsþjóðgarðs

Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og er kominn á heimsminjaskrá á grunni 8. viðmiðs UNESCO sem krefst þess að viðkomandi staður sé (í lauslegri þýðingu): „einstakt dæmi um mikilvæg stig í þróun jarðarinnar, þar með talið þróun lífs, dæmi um mikilvæga jarðfræðilegra ferla við mótun landforma eða einstök landform og jarðfræðifyrirbæri“.

Í Vatnajökulsþjóðgarði fara saman skil jarðskorpufleka, möttulstrókur sem færir heita kviku úr iðrum jarðar til yfirborðs og hveljökulll. Ferlarnir sem um ræðir eru skorpuhreyfingar, eldvirkni og jöklunarferlar og samspil þeirra skapar einstök átök elds og íss. Viðlíka samspil er hvergi þekkt í veröldinni á þessum tímapunkti jarðsögunnar. Landformin sem af þessum átökum leiða og finnast í ríkum mæli í Vatnajökulsþjóðgarði eru m.a. langar gígaraðir, móbergshryggir, dyngjur og móbergsstapar, árgljúfur og jökulsandar.

Vinna og kostnaður

Umsókn um skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna hefur lengi verið á stefnuskrá stjórnvalda. Umsóknin var unnin af Vatnajökulsþjóðgarði að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Snorri Baldursson ritstýrði umsókninni en fjölmargir fræðimenn komu að gerð hennar. Stjórnvöld greiddu um þrjá fjórðu hluta kostnaðar við umsóknina en hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs – Vinir Vatnajökuls styrktu vinnuna með rausnarlegu framlagi.

Einstök náttúra

Nánar tiltekið er Vatnajökulsþjóðgarður kominn á heimsminjaskrá í fyrsta lagi vegna samspils flekaskila, möttulstróks og hveljökuls sem skapar einstök átök elds og íss. Ferlarnir sem um ræðir eru skorpuhreyfingar, eldvirkni, og jöklunarferlar. Viðlíka samspil þessra ferla er hvergi þekkt í veröldinni á þessum tímapunkti jarðsögunnar. Fjölbreyttar afurðir ferlanna eru greinilegar á yfirborði og fæstar þeirra finnast á öðrum heimsminjastöðum. Sem dæmi má nefna sprungur og misgengi (d. Heljargjá), móbergshryggi (d. Fögrufjöll) og stapa (d. Herðubreið) sem verða til við gos undir jökli – hryggir við gos á eldsprungum, stapar við gos úr einu gosopi, gígaraðir (d. Lakagígar) og dyngjur (d. Trölladyngja) sem verða til við sambærileg gos undir berum himni, auk jökulhlaupa og virkra jökulsanda. Í öðru lagi er Vatnajökulsþjóðgarður kominn á heimsminjaskrá vegna samspils loftslags og jökulíss og margvíslegra afurða þess – jöklalandslagsins – sem er óvenju fjölbreytt og aðgengilegt við jaðra fjölmargra skriðjökla þjóðgarðsins (d. jökullón, jökulker, jökulgarðar). Því er óhætt að segja að Vatnajökulsþjóðgarður sé einstök kennslustofa fyrir áhrif hamfarahlýnunar á jökla heimsins.

 

Eldur og ís

Flekaskil Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, Mið-Atlantshafshryggurinn, ganga í gegnum endilangt landið frá Reykjanesi til Öxarfjarðar og þar með talið um norðvestanverðan Vatnajökulsþjóðgarð á u.þ.b. 200 km kafla. Flekaskilum fylgir eldvirkni. Undir flekaskilunum miðjum, þar sem nú er Bárðarbunga, er möttulstrókur úr iðrum jarðar sem veitir heitri kviku til yfirborðs og eykur á eldvirknina. Eldvirkni er því óvenjumikil á Íslandi öllu og ekki síst í Vatnajökulsþjóðgarði sem hýsir tvær af fjórum virkustu eldstöðvum landsins, Grímsvötn og Bárðarbungu. Yfir hluta af eldvirkasta svæði landsins – og sjö megineldstöðvum – liggur Vatnajökull sem varð til á Nútíma (sl. 6000 árum eða svo) og er óðum að skreppa saman. Áður, á 2,7 milljón ára tímabili ísaldar, breiddust samfelldir jökulskildir aftur og aftur yfir svæðið á kuldaskeiðum en hurfu alveg eða að mestu á hlýskeiðum. Vatnajökulsþjóðgarður er því ekki aðeins mótaður af núverandi átökum elds og íss heldur nær þessi átakasaga næstum þrjár milljónir ára aftur í tímann.