Öryggi

Vatnajökulsþjóðgarður leggur mikla vinnu í forvarnastarf með góðri þjálfun starfsmanna sem veita upplýsingar allstaðar um þjóðgarðinn. Einnig er hugað að öryggi á gönguleiðum, vegum og mannvirkjum með vöktun landvarða. Mikið er lagt upp úr því að starfsfólk gæti að eigin öryggi, sé fært til að meta hættur og fyrirbyggja afleiðingar þeirra, en geti einnig brugðist við þegar þeim verður ekki forðað.

Öryggi gesta

Á heimasíðu þjóðgarðsins eru settar inn aðvaranir sem tengjast færð, aðstæðum, íshellum eða lokunum. Þær er alltaf hægt að sjá á forsíðu og á síðu hvers svæðis fyrir sig til að koma upplýsingum til gesta. Einnig sinnir starfsfólk í gestastofum og landvörslustöðum mikilvægri upplýsingagjöf til ferðafólks varðandi veðurspá og aðstæður á ferðaleiðum. Starfsfólk þjóðgarðsins notar Tetra kerfið og eykur það skilvirkni starfa og skiptir sköpum í samskiptum við viðbragðsaðila. Bætt var verulega í fjölda Tetra talstöðva 2019 og einnig fengu allir starfsmenn ferilvöktun á stöðvarnar sem veitir t.d. starfsfólki á einmenningstöðvum aukið öryggi.

Vöktun á og við jökla

Á árinu 2019 bættist við vöktun landvarða á og við jökla. En á árinu bættist við starfsfólk í full störf og afleysingar með reynslu af jöklaleiðsögn og réttindi til að starfa á jökli samkvæmt þjálfunarkerfi Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG). Þessi þekking nýttist í vöktunarferð að háhitasvæði Kverkfjalla þar sem aðstæður geta breyst hratt vegna samspils jökulsins og háhitasvæðisins en á svæðið sækja árlega gönguhópar og ferðafélög. Einnig varð reglulegt eftirlit á og við jökla á Breiðarmerkurjökli þar sem hundruðir manns leggja leið sína daglega með ýmsum ferðaþjónustufyrirtækjum. Vatnajökulsþjóðgarður stefnir á að þróa enn frekar vöktun í og við jökla og fylgja áfram ítrustu öryggiskröfum.

SafeTravel og björgunarsveitir

Samstarf  Vatnajökulsþjóðgarðs við SafeTravel hefur verið mikilvægur hlekkur í upplýsingagjöf til ferðamanna varðandi aðstæður og öryggi. Starfsfólk þjóðgarðsins kemur upplýsingum um breyttar aðstæður til SafeTravel sem fara beint inn á vef og ferðakort þeirra. Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem og viðbragðsvakt sömu aðila í Skaftafelli hefur skipt miklu máli í víðfeðmum þjóðgarði með síaukinn gestafjölda. Einnig á þjóðgarðurinn í góðu samstarfi við lögreglu og Neyðarlínuna.