Fræðsla

Vatnajökulsþjóðgarður leggur áherslu á að fræðsla er hornsteinn í starfseminni því að með fræðslu má auka skynjun og skilning á sérstöðu svæðisins og náttúruvernd. Þjóðgarðurinn leitast við að tryggja að á helstu viðkomustöðum standi gestum til boða vönduð fræðsla og náttúrutúlkun.

 


 

Markmið fræðslustarfs í þjóðgarðinum

Er að stuðla að náttúruvernd og góðri umgengni gesta, auka þekkingu, skilning og virðingu á náttúrunni, sögu garðsins, samspili manns og náttúru og gagnkvæmum áhrifum þeirra, mynda og styrkja tengsl milli gesta þjóðgarðsins, náttúru hans og sögu. Stuðla að og auka öryggi gesta og góðum tengslum nærsamfélags og þjóðgarðs. Unnið er að markmiðum fræðslustarfs á fjölbreyttan hátt innan þjóðgarðsins eins og kemur fram í næstu köflum. Fræðslustarf þjóðgarðsins byggir á fræðsluáætlun hans. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og er fræðsluáætlunin til fimm ára og verður endurskoðuð fyrir lok þess tímabils

Gestastofur

Gestastofur eru staðsettar við fjölfarnar leiðir annaðhvort í Vatnajökulsþjóðgarð eða við leiðir inn í hann. Gestastofurnar eru margar opnar allt árið eða yfir ferðatímabil á hverju svæði. Þar fer fram upplýsingagjöf um þjóðgarðinn og nærsvæði hans og ferðaþjónustu. Í gestastofum fer fram fræðsla, viðburðir og sýningar um fjölbreytt viðfangsefni sem tengjast náttúru- og menningarminjum á hverju svæði. 

Móttaka hópa í gestastofum 

Á hverju ári er tekið á móti fjölmörgum hópum í gestastofum garðsins og er aðstaða og áherslur til þess mismunandi milli svæða. Í Snæfellsstofu eru hópar veigamikill hluti af starfinu og þangað komu 124 hópar eða alls 2930 manns árið 2019. Hóparnir eru fjölbreyttir en margir tengjast ferðum Norrænu á haustin og vorin. Skólahópar koma af öllum skólastigum bæði hérlendis og erlendis frá. Auk þessa kemur 8. bekkur Egilsstaðaskóla árlega í Snæfell, þar sem hópurinn fer í nokkurra tíma fræðslugöngu með landverði.

  •  

Gestagötur

Víða um þjóðgarðinn má finna svokallaðar gestagötur eða fræðslustíga þar sem hægt er að nálgast fróðleik á skiltum, í bæklingum eða í gegnum síma. Leiðirnar eru ýmist merktar með númerum eða skiltum og henta vel gestum sem vilja njóta svæðisins og fræðast um það á sama tíma.

Ásbyrgi

Blómastígur liggur um birkiskóginn í Ásbyrgi, með viðkomu í grenilundi. Leiðin, sem er um hálfur kílómetri, liggur eftir greiðfærum stíg með upphafs- og endaskilti ásamt þrettán litlum skiltum þar sem fjallað er um blómplöntur, fléttur og sveppi sem sjást á leiðinni. Viðfangsefni stígsins er nýting plantna og þjóðtrú í tengslum við plöntur.

Eyjabakka- og Brúarjökull

Gestagatan „Í faðmi jökla“ er inn við vatnaskil Eyjabakka- og Brúarjökuls sunnan við Snæfell. Gatan er um 1 km að lengd en gestir taka bækling í upphafi leiðar og fylgja síðan númeruðum stikum sem vísa til fyrirbæra sem sjást á leiðinni. Gatan er mjög afskekkt og aðgengi aðeins yfir skamman tíma á meðan Snæfellsleið (F909) er öll opin. Viðfangsefni gestagötunnar er jökullinn, síbreytileiki og gróðurframvinda en leiðin sjálf er á síbreytilegri jökulurð framan við jökulinn svo gatan er aldrei alveg eins frá ári til árs. Ef gestir fylgja leiðbeiningum í upphafi leiðar er aldrei nein hætta. Fræðslan er bæði á íslensku og ensku.

Skaftafell

Þrjár gestagötur eru í Skaftafelli. Sú fyrsta og jafnframt elsta er jarðfræðistígur sem liggur frá Skaftafellsstofu inn að Skaftafellsjökli. Í upphafi gönguleiðar fá gestir bækling sem vísar á númeraðar stikur á leiðinni en í bæklingnum má lesa um ýmis jarðfræðifyrirbæri sem sjást við stikurnar. Leiðin er mikið farin en stígurinn er mjög aðgengilegur og fær hjólastólum, barnakerrum/ vögnum. Önnur gestagatan fjallar um sögu svæðisins, búsetu og mannlíf í Öræfum og áhrif jökulvatna og eldgosa á búsetusögu Öræfa. Hún liggur um Gömlutún sem eru neðst í Skaftafellsheiði en á leiðinni hefur verið komið upp fimm fræðsluskiltum. Þriðja gestagatan er á gönguleiðinni inn að Bæjarstaðarskógi en á henni hefur verið komið upp fimm fræðsluskiltum með upplýsingum um þjóðlíf, dýralíf og fleira.

Lakagígar

Gestagata liggur í gegnum einn af gígum Lakagígaraðarinnar. Hún tekur um 30-45 mínútur í göngu en gestir taka bækling í upphafi leiðar og fylgja síðan númeruðum staurum, alls þrettán talsins, sem vísa til fyrirbæra sem sjást á leiðinni. Gestagatan liggur um úfið og óslétt hraun og þarf að sýna varúð þegar hún er gengin. Viðfangsefni gestagötunnar eru eldgos, lágplöntur og frumframvinda. Áformað er að byggja pall og göngustíg við upphaf gestagötunnar svo sjá megi ofan í einn Lakagíginn.

Kirkjubæjarklaustur

Jarðfræðistígurinn er nú komin upp við Skaftárstofu á Kirkjubæjarklaustri. Stígurinn er jarðfræðileikur sem tengir þátttakendur við ýmsa staði í nágrenni hans og fjallar um áhrif heita reitsins, jökulhlaup, Eldgjá, Lakagíga og fleira. Á hverri stöð eru þrautir ásamt fróðleik og er stígurinn tilvalinn fyrir fjölskyldufólk.

 

Skipulögð fræðsla landvarða

Landverðir sinna fjölbreyttri fræðslu um þjóðgarðinn

Fræðsludagskrá landvarða

 

 

 

Hér fyrir ofan eru titlar úr fræðslugöngum landvarða víða um garðinn en yfir háannatíma sumarsins bjóða landverðir upp á reglubundnar fræðslugöngur og viðburði, gestum að kostnaðarlausu. Að auki eru haldnir stakir viðburðir með ólík þemu sem tengjast gjarnan sögu og/eða lífríki viðkomandi starfsstöðvar. 

 

Fjöldi gesta í fræðslugöngum landvarða 2019

             

 

Nánar um fræðsludagskrá landvarða 2019

Svæði Staðsetning Fjöldi viðburða Fjöldi þátttakenda
Jökulsárgljúfur Ásbyrgi – Botnsrölt   318
  Ásbyrgi – Kvöldrölt   96
  Ásbyrgi – Barnastund   227
  Hljóðaklettar   236
Norðursvæði-hálendi Holuhraun 36 212
  Askja 36 317
Austursvæði Snæfellsstofa - Hengifoss 6 38
  Snæfellsstofa - Barnastund 12 38
  Kverkfjöll - dagleg ganga 37 405
  Hvannalindir - dagleg ganga 35 122
  Snæfell - dagleg ganga 17 105
Suðursvæði Skaftafell 224 2428
Vestursvæði Lakagígar   36
  Eldgjá   52
  Nýidalur 6 20

 

Sérstök viðvera

Sérstök viðvera eða vettvangsfræðsla fer þannig fram að landverðir nálgast ferðamenn að fyrra bragði og taka upp spjall um það sem tengist náttúruvernd og menningu svæðisins. Í Lakagígum er t.d. áherslan á náttúruvernd og reglur svæðisins og reynt er að tala við alla gesti sem koma enda mosinn og gígaröðinn sérstaklega viðkvæm fyrir traðki.

 

Vegalandvarsla 

 

Vegalandvarsla er þegar landverðir sinna upplýsingagjöf og fræðslu á vegum og er grunnþáttur í starfi landvarða á hálendi. Tilgangurinn er að hitta ferðamenn á leið sinni inn í þjóðgarðinn, bjóða þá velkomna, gefa góð ferðaráð, upplýsingar um aðstæður og kynna helstu öryggis- og umgengisreglur. Vegalandvarsla hefur þannig ótvírætt forvarnargildi og hefur sannað sig á þeim svæðum sem hún er virk. Um leið og gestir upplifa hlýjar móttökur og öryggistilfinningu, felur samtalið í sér leiðbeiningar sem stuðla að öruggari og ábyrgari ferðahegðun gesta. Einnig er mikil áhersla á að koma í veg fyrir utanvegaakstur og vegalandvarslan er mikilvægur hlekkur í að útskýra aðstæður á hálendi fyrir ferðafólki.

 

 

Vefur og samfélagsmiðlar

 

Vinsælasta mynd ársins frá 2019 á samfélagsmiðlum var þetta dásamlega augnablik við Öskju fangað af Helgu Hvanndal landverði.

 

      

 

Vatnajökulsþjóðgarður hefur ávallt gefið út reglulegar fréttir á heimasíðu og samfélagsmiðlum þjóðgarðsins. Árið 2018 gaf þjóðgarðurinn út 50 fréttir og má lesa þær allar hér á síðunni. Einnig heldur þjóðgarðurinn úti fjölmörgum samfélagsmiðlasíðum sem við hvetjum alla til að fylgja til að fá t.d. tilkynningar um viðburði og fallegar myndir. Yfirlit yfir þær er að finna hér fyrir neðan:

 

Vatnajökulsþjóðgarðar - síða                       

 

 

Útgáfa

 

Í tilefni af heimsminjaskráningu Vatnajökulsþjóðgarðs var sett upp sérstakt fræðslusvæði á vefnum um heimsminjaskrá, umsóknarferlið og lifandi samspil elds og íss. Einnig er hægt að nálgast þar áhugaverða tengla um heimsminjar almennt, UNESCO og aðra heimsminjastaði á Íslandi. 

Fara á UNESCO vefsvæði

 

Þjóðgarðurinn gefur ávallt út kynningarbækling um Vatnajökulsþjóðgarð og svæðisbundna gönguleiðarbæklinga, auk reglubundinna upplýsinga um gestakomur í garðinn. Á árinu komu t.a.m. út endurnýjaðir gönguleiðabæklingar fyrir Snæfellsöræfi og Skaftafell. Verkefnið Hörfandi jöklar - lifandi kennslustofa í loftlagsbreytingum gaf einnig út fréttabréf með yfirliti um stöðu íslenskra jökla í lok árs 2019. Einnig gefa svæði út ársyfirlit og/eða fréttabréf.