Vöktun, rannsóknir og leyfi

 

Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs við vísindasamfélagið er bæði lögbundið og afar verðmætt. Unnið er að fjölþættum rannsóknum í síkvikri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs ár hvert. Þjóðgarðurinn er einnig fjölsóttur vettvangur fyrir kvikmynda- og auglýsingatökur og notkun fjarstýrðra flygilda (dróna) fer vaxandi.

Rannsóknir, kvikmyndataka, drónanotkun, lending loftfara utan flugvalla og ýmsar framkvæmdir eru leyfisskyldar skv. lögum og reglugerðum um Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðsverðir veita leyfi til þessara athafna þegar svo ber undir, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Fjöldi og gerð leyfa 2018

  Rannsóknarleyfi Kvikmyndatökuleyfi (auglýsingar) Viðburðir Þyrlu-lendingarleyfi athugasemdir
Vestursvæði 5 6 1    
Norðursvæði 5 11 2 1 Ekki öll eingöngu á norðursvæði
Norðursvæði - hálendi 16 5 1 1  
Austursvæði 6 3 1 1 Ekki öll eingöngu á austursvæði
Suðursvæði 13 146 2    
Samtals 45 171 7 3  

 

Auk fyrrnefndra leyfisveitinga, upplýsingagjafar og margháttaðrar aðstoðar við innlend sem erlend rannsóknarteymi, sem stunda fjölbreyttar rannsóknir innan vébanda þjóðgarðsins, er Vatnajökulsþjóðgarður formlegur þátttakandi í mörgum rannsóknarverkefnum.

 

Þar má t.d. nefna:

  • Rjúpnatalningar og aðrar fuglatalningar með Náttúrufræðistofnun Íslands.
  • Eftirlit með fálkahreiðrum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Fálkasetur Íslands.
  • Loftslagsverkefnið SÓLEY (Langtímaáhrif loftslagsbreytinga á blómgun plantna á Íslandi).
  • Hreindýraskráningu
  • Vöktun gróðurs í Hvannalindum í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands.
  • Fiðrildavöktun í Ási í samstarfi við Náttúrstofu Norðausturlands.
  • Rannsóknir í Skúmey í Jökulsárlóni í samstarfi við Náttúrustofu Suðausturlands.
  • Hörfandi jöklar, samvinnuverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans

 

Hörfandi jöklar

Verkefnið er eins og áður kom fram samvinnuverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans. Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni. Hluti af verkefninu er fræðsluvefur sem er aðgengilegur á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs og í vinnslu eru fræðslustígar í Skaftafelli og á fleiri stöðum á suðursvæði þjóðgarðsins.

Hörfandi jöklar fræðsluvefur