Um Vatnajökulsþjóðgarð

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Hann nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans. Þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem teljast sérstæð vegna náttúrufars eða sögulegrar helgi. Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs felst einkum í fjölbreytilegum landslagsformum sem samspil eldvirkni, jarðhita, jökuls og vatnsfalla hafa skapað.


Athugið að kortið sýnir þjóðgarðsmörk 2019, fyrir mörk 2018 má skoða þetta kort hér.

Þjóðgarðurinn rekur nú fimm gestastofur. Þær eru: Gljúfrastofa í Ásbyrgi, Snæfellsstofa á Skriðuklaustri, Gamlabúð á Höfn í Hornafirði, Skaftafellsstofa í Skaftafelli og Skaftárstofa á Kirkjubæjarklaustri, sem rekin er í húsnæði og samvinnu við Skaftárhrepp, þangað til ný verður byggð. Yfir sumartímann teygir starfsemi þjóðgarðsins sig vítt um garðinn en á veturna, þegar hálendinu er lokað, einskorðast hún við færri staði. Á kortinu hér sjást landvörslu- og starfsstöðvar þjóðgarðsins. Landvörslustöðvar eru merktar með appelsínugulum kössum. Aðalskrifstofa þjóðgarðsins er til húsa í Garðabæ og reikningshaldi er sinnt í Fellabæ.

Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs er dreifð og skiptist garðurinn í fjögur rekstrarsvæði. Svæðin eru kennd við höfuðáttirnar og á hverju svæði er þjóðgarðsvörður sem annast daglegan rekstur. Norðursvæðið skiptist í tvo hluta og þar eru tveir þjóðgarðsverðir.

 

Stjórnun og skipulag

Fyrir hvert rekstrarsvæði þjóðgarðsins er skipað sex manna svæðisráð sem í sitja þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélögum og þrír fulltrúar frá félagasamtökum. Formenn hvers svæðisráðs taka sæti í stjórn þjóðgarðsins auk formanns og varaformanns skipuðum af ráðherra og fulltrúa náttúruverndarsamtaka. Útivistar- og ferðamálasamtök tilnefna hvor sinn áheyrnarfulltrúa. Framkvæmdastjóri þjóðgarðsins annast daglegan rekstur í umboði stjórnar, þ.m.t. starfsmannamál, framfylgir ákvörðunum hennar og ber jafnframt ábyrgð á fjárreiðum og rekstri starfseminnar í samræmi við skyldur forstöðumanns ríkisstofnunar.

 

Drög að stjórnarfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs

 

Skaftafell Höfn Klaustur