Öryggi

Í Vatnajökulsþjóðgarði er áhersla lögð á góð fjarskipti sem grunnþátt í öryggi gesta. Tetra-kerfið er notað markvisst á hálendinu. Það eykur skilvirkni starfa og skiptir sköpum í samskiptum við viðbragðsaðila. Mikið er lagt upp úr góðri þjálfun starfsmanna, þeir gæti að eigin öryggi, séu færir í að meta hættur og fyrirbyggja afleiðingar þeirra, en geti einnig brugðist við þegar þeim verður ekki forðað. 

 

Margar hættur leynast á jöklinum því er mikilvægt að allir sem ferðast um jökla eða stunda slíka ferðaþjónustu hafi réttan búnað og þekkingu.

 

Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs við SafeTravel hefur verið mikilvægur hlekkur í upplýsingagjöf til ferðamanna varðandi aðstæður og öryggi. Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem og viðbragðsvakt sömu aðila í Skaftafelli hefur skipt miklu máli í víðfeðmum þjóðgarði með síaukinn gestafjölda. Einnig á þjóðgarðurinn í góðu samstarfi við Lögreglu og neyðarlínuna.

 

Mynd 1. Staðsetning sprungunnar sem fannst árið 2014 efst á norðurhlíð Svínafellsheiðar ofan við austanverðan Svínafellsjökul. (Kort frá Daniel Ben-Yehoshua 2016).

Mynd 1. Staðsetning sprungunnar sem fannst árið 2014 efst á norðurhlíð Svínafellsheiðar ofan við austanverðan Svínafellsjökul. (Kort frá Daniel Ben-Yehoshua 2016). Sjá nánar á vef Almannavarna

 

Vatnajökulsþjóðgarður kom að viðbrögðum vegna yfirvofandi hættu á berghlaupi úr Svínafellsheiði en þann 22. júní gaf lögreglan á Suðurlandi, sveitarfélagið Hornafjörður, Vatnajökulsþjóðgarður og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, að höfðu samráði við Veðurstofu Íslands, út sameiginlega viðvörun.  Varað var við ferðum á jökulinn og tilmælum beint  til ferðaþjónustuaðila að þeir fari ekki með hópa ferðamanna á Svínafellsjökul. Einnig var þeim tilmælum beint til ferðafólks að staldra stutt við á útsýnisstöðum við sporð Svínafellsjökuls. Í framhaldinu veitti stjórn þjóðgarðsins tímabundið leyfi til skipulagðra ferða á Skaftafellsjökul út árið 2018. 

 

Aðvaranir

Á heimasíðu þjóðgarðsins eru settar inn aðvaranir sem tengjast færð, aðstæðum, íshellum eða lokunum. Þær er alltaf hægt að sjá á forsíðu og á síðu hvers svæðis fyrir sig.