Á árinu 2019 gekk starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs vel. Flest markmið sem sett voru varðandi verkefni og þjónustu við ferðamenn. Starfið einkenndist af samstöðu starfsmanna þar sem sparnaður og hagsýni var höfð að leiðarljósi. Um leið var stöðugt unnið að umbótum og nýsköpun í starfseminni.
Á árinu 2019 vann Ríkisendurskoðun úttekt á starfsemi og stjórnskipulagi Vatnajökulsþjóðgarði að beiðni stjórnar og framkvæmdastjóra. Skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út í lok október 2019 og hefur hún nýst mjög vel í því umbótastarfi sem hefur verið hjá Vatnajökulsþjóðgarði undanfarið. Í skýrslunni er bent á nauðsyn þess að efla miðlæga skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs. Á árinu 2019 voru því stigin mikilvæg skref í þá átt með ráðningu sérfræðings á skrifstofu, fræðslufulltrúa og mannauðsstjóra. Auk þess sem auglýst var starf mannvirkja og gæðafulltrúa í lok árs. Þessi liðsauki er mikilvægur til að efla þjónustu og faglegan stuðning við einstök svæði þjóðgarðsins. Auk þess að styrkja miðlæga skrifstofu þá var markvisst unnið að því að skilgreina betur ferla og verklag hjá stofnuninni ásamt því að vinna að ýmiss konar stefnumótun.
Hápunkturinn í starfi Vatnajökulsþjóðgarðs á árinu 2019 var þegar Heimsminjaráð UNESCO samþykkti einróma á 43. fundi ráðsins í Baku í Aserbaídsjan að setja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá.
Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi voru undanþegin í tilnefningunni vegna þess að ekki er lokið vinnu við friðlýsingu en svæðið getur komið inn síðar. Í tilnefningunni er áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu, eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem einstakt er talið á heimsvísu. Skráning Vatnajökuls á heimsminjaskrá er mikilvægt skref í verndun og viðurkenningu svæðisins til framtíðar.
Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins. Með því að setja fram atvinnustefnu sem var samþykkt af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs í lok júní 2019 útskýrir þjóðgarðurinn hvernig samstarfi hans við atvinnulífið á að vera háttað.
Vatnajökulsþjóðgarður er ein af stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er góð samvinna við ráðuneytið ákaflega mikilvæg. Ýmis mikilvæg samskipti og samvinna voru við ráðuneytið á árinu 2019 og má t.d. nefna uppbyggingu innviða í Vatnajökulsþjóðgarði og forystu ráðuneytisins við stækkun þjóðgarðsins með svæði Herðubreiðarlinda.
Framtíðin er björt hjá Vatnajökulsþjóðgarði sem helgast ekki síst af því að hjá þjóðgarðinum starfar öflugur hópur starfsmanna sem hefur einstaka reynslu og þekkingu við að byggja upp og reka einn stærsta þjóðgarð í Evrópu sem er sannarlega einstakur á heimsvísu
Stígar komu þokkalegir undan vetri en sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar unnu að viðgerðum á gönguleið S2 upp frá bílastæðinu að Bölta síðsumars, stefnt er á frekari viðgerðir sumarið 2020.
Skipulagðar fræðslugöngur voru á bilinu 5. júní – 19. ágúst í Skaftafelli, þrjár göngur á dag með mjög góðri mætingu gesta, mest 49 gestir. Í fyrsta skipti voru skipulagðar fræðslugöngur yfir veturinn og heppnaðist það vel. Skaftafell tók þátt í Menningarminjadögum Minjastofnunar þetta árið, samevrópsk hátíð á vegum Evrópuráðs. Eins var haldið Kvennahlaup í níunda sinn í Skaftafelli með pompi og prakt en 2019 varð Kvennahlaupið 30 ára.
Eftir útboð á innheimtukerfi þjónustugjalda í Skaftafelli var gerður samningur við fyrirtækið Computer Vision. Unnið er áfram með fulltrúum Computer Vision til þess að breyta og bæta kerfið fyrir gesti þjóðgarðsins. Á vordögum fór fram örútboð á rekstri veitingasölunnar í Skaftafelli en engin tilboð bárust. Í kjölfarið var samið við Hótel Skaftafell um rekstur veitingasölunnar sem gengið hefur vel.
Vinna við deiliskipulag svæðisins við Jökulsárlón hófst á árinu og var tillagan send til Skipulagsstofnunar í lok ársins.
Skúmaskot, aðstaða landvarða við Jökulsárlón, var tekin í notkun á vormánuðum. Við það varð mikil breyting á aðstöðu landvarða á svæðinu. Um mitt sumar var síðan opnaður fræðslustígur og ljósmyndasýning við Jökulsárlón. Bæði verkefnin voru styrkt af Vinum Vatnajökuls og voru sett upp í tilefni 10 ára afmælis samtakanna.
Í sumar komu svo 3 hópar sjálfboðaliða til okkar, sem unnu við afmörkun á göngustígum og gerð steinþrepa við Jökulsárlón. Ómetanlegt er að fá slíka hópa til aðstoðar.
Á öðrum stöðum á svæðinu var heldur rólegt. Gestum í Gömlubúð hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár og var árið 2019 ekki undanskilið. Verkefni landvarða í Gömlubúð var fyrst og fremst viðhald göngustíga og eftirlit á svæðinu, auk upplýsingagjafar í gestastofunni.
Þar sem sístækkandi hluti gesta okkar er, erlendir ferðamenn, á eigin vegum leggjum við stöðugt meiri áherslu á vegalandvörslu á hálendinu, þar sem gestir eru boðnir velkomnir, fá upplýsingar um svæðið og rætt er við þá um ábyrga ferðahegðun, í tengslum við utanvegarakstur og óbrúuð vatnsföll. Þetta teljum við að skili sér meðal annars í færri óhöppum í fjölmörgum vatnsföllum á svæðinu og minni utanvegarakstri.
Í vor kom í ljós að göngustígurinn upp á Laka að sunnan/austan hafði ekki þolað þennan óvenjulega milda vetur og var allur grafinn og stórskemmdur. Óhjákvæmilegt var að loka honum fyrir umferð í sumar til að gróður og jarðminjar við stíginn yrðu ekki fyrir varanlegum skaða og var því allri umferð göngumanna beint upp og niður fjallið að vestan. Búið er að sækja um styrk til að endurgera stíginn og vonandi hefjast framkvæmdir næsta sumar.
Þann 8. nóvember, á Uppskeru- og þakkarhátíð Skaftárhrepps, var opnaður nýr fræðslustígur á Kirkjubæjarklaustri, með margvíslegri aðstoð heimamanna og styrkjum frá Vinum Vatnajökuls og SASS. Stígurinn er jarðfræðileikur sem tengir þátttakendur við ýmsa staði í nágrenni hans og fjallar um áhrif heita reitsins og jökulhlaupa, með meiru. Nemendur Kirkjubæjarskóla aðstoðuðu við opnunina.
Árlegur göngudagur Egilsstaðaskóla var 4. september og hélt þá hluti nemenda úr 8. bekk af stað í Vatnajökulsþjóðgarð. En áður hafði Agnes Brá þjóðarðsvörður heimsótt Egilsstaðaskóla og haldið kynningu um þjóðgarðinn, náttúruvernd, heimsminjaskrá og svæðið. Hópurinn gekk svo með leiðsögn landvarðar frá Snæfellsskála, gegnum Vatnsdal, yfir á Snæfellsnes.
Það er sérstaklega ánægjulegt að taka á móti hópnum á hverju ári. Starfsfólk þjóðgarðsins þakkar 8.bekk Egilsstaðaskóla kærlega fyrir heimsóknina, umræður og daginn.
Í vöktunarferð landvarða í Krepputungu að háhitasvæðinu í Kverkfjöllun í byrjun sumars komu í ljós ýmsar breytingar við jökuljaðarinn. Einnig hafði Galtarlón tæmt sig um um veturinn eða vorið.
Í júlí var sett upp bílahleðslustöð við Snæfellsstofu. Gestir og starfsmenn Snæfellsstofu geta því hlaðið rafbíla á bílastæðinu. Starfsfólk gestastofunnar var með rafbíl árið 2019 til að komast til og frá vinnu þriðja árið í röð til að minnka kolefnisfótspor Vatnajökulsþjóðgarðs.
Þann 29. júní var Vatnajökulsþjóðgarður stækkaður um 560km2 og bætti þá við sig landsvæðinu sem áður tilheyrði Herðubreiðarfriðlandi frá árinu 1974, sem og stærri hluta Ódáðahrauns en þar er m.a. að finna Kollóttudyngju, Eggert og Bræðrafell. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði reglugerð þess efnis við Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum og var gestum við athöfnina boðið í kaffi í skálanum við tilefnið. Þá leiddi Kári Kristjánsson, fyrrum landvörður í Herðubreiðarfriðlandi, fræðslugöngu fyrir hópinn um hraunið við lindirnar.
Með stækkuninni var landvarslan efld á svæðinu og var einn landvörður búsettur í Herðubreiðarlindum í sumar og sinnti fræðslu, eftirliti og upplýsingagjöf. Endurvakin var dagleg fræðsluganga með landverði að morgni í Herðubreiðarlindum. Fram undan er aukin uppbygging innviða, svo sem hvað varðar gönguleiðir og merkingar.
Samstarf við austursvæði vegna landvörslu í Krepputungu var með svipuðu sniði og undanfarin sumur, en með þeirri vakt voru að meðaltali 4-5 landverðir sem sinntu vöktum úr Drekagili í sumar. Hópar sem sinntu vísindarannsóknum á svæðinu í sumar voru þó nokkrir að vanda, og dvöldu nokkrir hópar á vegum Nasa stóran hluta sumars í Drekagili og sinntu m.a. rannsóknum við Holuhraun í tengslum við Mars rannsóknir. Fire&Ice hlaupið var einnig á sínum stað í lok ágúst og var gert út úr Drekagili að stærra hluta en áður. Helstu vandræðin í sumar tengdust Flæðum, en þær voru óvenjulega vatnsmiklar og sandbleyta veruleg stóran hluta sumars svo að loka þurfti fyrir umferð um þær. Nokkrir bílar fóru framhjá lokunum og þrír þeirra festust með miklu eigna- og fjárhagstjóni fyrir eigendurna. Þessi óvenjulega hegðun er ekki að fullu útskýrð en tekin voru vatnssýni og Veðurstofan skoðaði málið.
Í september var nokkuð um framkvæmdir á svæðinu, en nýtt aðstöðuhús var flutt að Vikraborgum sem tekið verður í notkun sumarið 2020. Neyðarlína gróf fyrir og byggði virkjun neðan Drekagils og plægði raflagnir upp á Vaðöldu, þar sem sendar Neyðarlínu eru staðsettir. Mun virkjunin framleiða rafmagn fyrir sendana og koma þar með í stað mikillar olíunotkunar og aksturs olíu þangað. Ætlað er að rafmagnið muni einnig duga til þess að sjá skálunum við Drekagil fyrir rafmagni. Í lok árs 2019 var unnið að því að sækja aftur um framkvæmdaleyfi til Skútustaðahrepps, sem vonir standa til þess að klárist fyrir sumarið 2020 svo hægt verði að nýta rafmagnið af virkjuninni.
Heilt yfir var örlítil fækkun í gestakomum annað árið í röð. Engu að síður var árið 2019 það þriðja stærsta frá upphafi hvað fjölda gesta í Jökulsárgljúfrum varðar. Og á vissan hátt má líta á það sem hálfgerða blessun að það hafi dregið úr þeirri gífurlega hröðu fjölgun sem hefur átt sér stað á síðustu árum því það gefur svigrúm til endurskipulagningar og tíma til að styrkja innviði og þjónustu. Ekki veitir af, því nú sér fyrir endann á framkvæmdum við nýjan Dettifossveg og mikilvægt er fyrir þjóðgarðinn að geta tekist á við þær breytingar sem honum fylgja. Er þá fyrst og fremst verið að vísa til fjölgunar gesta og lengingar ferðamannatímabils.
Þann 10. ágúst, kom Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra umhverfis- og auðlindamála, í Ásbyrgi ásamt fylgdarliði frá ráðuneytinu. Tilefnið var stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs sem nemur svæðinu fremst í Ásbyrgi og var reglugerð þess efnis undirrituð í Gljúfrastofu. Um leið var undirrituð friðun Jökulsár á Fjöllum fyrir orkuvinnslu. Vegna þessa var gestum og gangandi boðið í kaffiveitingar í Gljúfrastofu og jafnframt var ráðherra fenginn til að afhenta verðlaun í Jökulsárhlaupinu sem fór fram þennan sama dag.