Ávarp og árið 2020

Ávarp framkvæmdastjóra

Vatnajökulsþjóðgarður á góðri leið

Vatnajökulsþjóðgarður er tólf ára gömul stofnun í stöðugri þróun. Þjóðgarðurinn nær til Vatnajökuls og stórra svæða í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðanna sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Sumarið 2019 var stigið mikilvægt skref í þróun þjóðgarðsins þegar hann var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO sem staðfestir að hann er einstakur á heimsvísu.

Árið 2020 var þungt í skauti vegna COVID-19 heimsfaraldursins sem hafði gríðarleg áhrif á líf, störf og ferðalög fólks um allan heim. Áhrifin á Vatnajökulsþjóðgarð voru þau helst að um tíma þurfti að loka eða takmarka aðgengi að tjaldsvæðum vegna sóttvarnaraðgerða. Auk þess fækkaði erlendum gestum þjóðgarðsins mikið sem leiddi af sér mikla lækkun sértekna en þær byggjast m.a. á tekjum af tjaldsvæðum og svokölluðum svæðisgjöldum sem ferðamenn greiða. Íslendingum fjölgað á nokkrum áfangastöðum en sú aukning vóg aðeins að litlum hluta á móti sértekjulækkun vegna fækkunar erlendu gestanna. Vegna þessara aðstæðna kom umhverfis- og auðlindaráðuneytið að því með stofnuninni að tryggja aukin fjárframlög til að halda úti reglubundinni landvörslu og þjónustu á áfangastöðum Vatnajökulsþjóðgarðs og ber sérstaklega að þakka fyrir það. Vegna þessa var fjöldi starfsmanna hjá þjóðgarðinum mjög svipaður og árið áður sem var afar jákvætt fyrir allt starf stofnunarinnar.

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðanna. Vatnajökulsþjóðgarður er því vettvangur umfangsmikillar atvinnustarfsemi sem er ein forsenda þess að þjóðgarðurinn nái tilgangi sínum. Innleiðing atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs, sem tók gildi 2019, hófst með þróunarverkefni á suðursvæði þjóðgarðsins á árinu 2020. Um var að ræða samvinnu við fyrirtæki sem hafa kallað eftir skýrum leikreglum m.a. við stýringu á fjölda ferðamanna í íshellaferðum og jöklagöngum til að tryggja öryggi og góða upplifun. Í verkefninu hefur skapast mikilvæg reynsla og þekking og á þeim grunni verður haldið áfram að þróa aðferðir þar sem meginmarkmiðið er sjálfbær uppbygging atvinnustarfsemi í sátt við samfélagið og náttúruna.

Mikil uppbygging stendur nú yfir á innviðum innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs, svo sem á gestastofum, þjónustuhúsum, gönguleiðum, merkingum og brúm. Innviðir sem þessir skipta máli til að tryggja góða umgengni um þjóðgarðinn, verndun náttúru og til að auka ánægju og góða upplifun gesta.

Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs gekk vel á árinu 2020 eins og ýmsir mælanlegir þættir sýna. Einn grundvallar mælikvarði er jákvæð niðurstaða ársreiknings síðustu þrjú árin og með 21 mkr afgangi fyrir árið 2020. Annar mikilvægur mælikvarði er starfsánægja, en á árinu 2020 lenti Vatnajökulsþjóðgarður í 15. sæti af 41 stofnun í flokki meðalstórra stofnana í könnun stétarfélagsins Sameykis um stofnun ársins. Af öllum ríkisstofnunum var Vatnajökulsþjóðgarður nr. 32 af 143 stofnunum og fór stofnun upp um ríflega 40 sæti miðað við fyrra ár sem er vel af sér vikið. Enn einn mælikvarði á starfið er ánægja gesta og varð Vatnajökulsþjóðgarður nýlega í 2. sæti yfir bestu þjóðgarða í Evrópu og í 17. sæti á heimsvísu hjá Trip Advisor ferðavefnum sem er mikil viðurkenning og hvatning til að halda áfram þróun og uppbyggingu starfseminnar í Vatnajökulsþjóðgarði.

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

 

Árið 2020 í Vatnajökulsþjóðgarði

 

 

Suðursvæði: Skaftafell

Veturinn 2019-2020 var misviðrasamur. Sífelldar lægðir settu mark sitt á starfsemina en þjóðvegi 1 var ítrekað lokað vegna erfiðra aðstæðna. Í upphafi árs snjóaði mikið sem er óvenjulegt fyrir svæðið Snjóalög héldust langt fram á vorið og hluta tjaldflata kól. Göngustígar komu fremur illa undan vetri sökum snjófargs og bleytu um vorið. COVID-19 hafði óhjákvæmilega áhrif á starfsemina með vorinu en gestum fækkaði mikið eftir að smit fóru að greinast á Íslandi og samkomutakmarkanir tóku gildi.

Sumarstarfsfólk

Sumarstarfsfólk kom seinna til vinnu í Skaftafelli en venjulega. Sumarið 2020 voru 9 landverðir, 9 þjónustufulltrúar á tjaldsvæði, 3 þjónustufulltrúar í minjagripum og 5 verkamenn að störfum í Skaftafelli og á Breiðamerkursandi. Starfsfólk er samnýtt milli þessara tveggja starfsstöðva og hefur það fyrirkomulag gengið vel síðan það var tekið upp árið 2019. Starfsfólk bjó í húsnæði þjóðgarðsins á Sandaflöt og í Sandaseli. 

Stígagerð

Suðursvæði stefnir á að breyta fyrirkomulagi á viðhaldi stíga á svæðinu og var fyrsta skrefið tekið sumarið 2020. Starfsfólk sinnti af miklum þrótti og metnaði ýmsu viðhaldi á stígakerfinu í Skaftafelli. Hingað til hafa sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar séð að mestu um viðhald stíga á svæðinu. Mikil ánægja var meðal starfsfólks á þessari breytingu og er stefnt að því að halda sérstakt göngustíganámskeið árið 2021 til að styrkja verkefnið enn fremur og fá þekkingu innanhúss. Hins vegar hefur vinna sjálfboðaliða verið dýrmæt í gegnum árin og ennþá stefnt að því að fá þá í stærri verkefni á svæðinu.

Fræðsla og skipulag

Fræðslutímabilið í Skaftafelli var frá 8. júní til 18. ágúst. Farnar voru fræðslugöngur þrisvar sinnum á dag og aukin áhersla á leiðsögn á íslensku en hingað til hefur meiri hluti gesta verið erlendir. Að auki var sérstök fræðsludagskrá Jónsmessuhelgina og Verslunarmannahelgina og farin var blómaganga í tilefni degi villtra blóma. Að vanda var Kvennahlaupið haldið í Skaftafelli í tíunda sinn með öðru sniði sökum COVID-19.Vinna við svokallað fræðslutorg fór fram árið 2020 og er fyrirhuguð opnun vorið 2021. Þar mun fræðsla færast út fyrir gestastofuna og opna glugga inn á aðra fræðslu á svæðinu.

Á árinu hófst vinna við mótun framtíðarsýnar fyrir Skaftafell. Settur var á fót stýrihópur starfsmanna með ráðgjöf frá fyrirtækinu Alta. Afurð vinnunnar gæti falið í sér breytingar á deiliskipulagi í Skaftafelli.

 

Suðursvæði: Breiðamerkursandur og Höfn

Á austurhluta suðursvæðis einkenndist árið af vinnu við gerð viðauka við stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs vegna Breiðamerkursands. Viðaukinn var samþykktur í stjórn í október og fór þá í lögbundið umsagnarferli sem gert er ráð fyrir að klárist á vordögum 2021. Þessi vinna var einnig mikilvægur þáttur í innleiðingu atvinnustefnu á svæðinu. 

Samningar við rekstaraðila

Gerð samninga um ferðir í íshella og jöklagöngur á suðursvæði var fyrsta skrefið í innleiðingu atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið er ærið, enda hefur lengi verið kallað eftir slíkum samningum frá rekstraraðilum á svæðinu. Fyrsta úthlutun var í september 2020, en ferlið allt hefur, eins og annað, litast af heimsfaraldri COVID-19. 

Fræðsla

Landverðir í Gömlubúð buðu upp á fræðslugöngur á slóðum hörfandi jökla á Heinabergi. Fræðslugöngurnar voru þrisvar í viku á fræðslutímabili þjóðgarðsins. Auk þess var boðið upp á barnastundir í Gömlubúð alla fimmtudaga á fræðslutímabilinu.

Ekki var mikil aðsókn í fræðslugöngur, enda aðstæður erfiðar, en áætlað er að halda áfram á sömu braut næsta ár og bjóða upp á svipaða dagskrá á fræðslutímabilinu. Á Jökulsárlóni buðu landverðir upp á fræðslugöngu sem kallaðist Bláa Gullið. 

Gestafjöldi

Sumarstarfsemi á svæðinu gekk vonum framar. Fækkun á Jökulsárlóni var minni en búist var við, og er það ferðaglöðum Íslendingum að þakka. Þó fækkaði gestum úr 816.508 árið 2019, niður í 296.002 árið 2020, eða um 63,7%. Hæstu gestatölur frá Jökulsárlóni eru frá 2018, þegar komu 838.448 gestir.

Heimsóknum í Gömlubúð fækkaði líka mikið, eða úr 23.005 árið 2019, niður í 4.997 árið 2020. Það jafngildir fækkun um 78,3%. Stærsta ár Gömlubúðar frá upphafi var 2016, þegar þangað komu 38.266 gestir. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Austursvæði

Árið 2020 gekk í garð með nýjum áskorunum og verkefnum tengdum COVID-19 eins og víða annarsstaðar. Mikil vinna var á austursvæði vegna innleiðingu Grænna skrefa, Græns bókhalds og endurnýjun leyfis VAKANS fyrir þjóðgarðinn, en starfsmenn á austursvæði hafa leitt þá vinnu. Snæfellsstofa opnaði í maí, mánuði seinna en vanalega. Fáir gestir komu til að byrja með en fór fjölgandi er leið á sumarið og voru þá Íslendingar í aðalhlutverki ólíkt hefðbundnu ferðasumri. Gestafjöldi í Snæfellsstofu minnkaði um 75% milli ára og komu um 5 þúsund gestir. Íslendingar voru iðnir við fjallaferðir og var gaman að taka á móti mörgum þeirra á hálendinu um sumarið. Fækkun gesta á hálendinu varð því minni en búist var við. Landverðir komu til byggða fyrr en vanalega vegna aðalhalds í rekstri og komu áður en að vegir lokuðust norðan jökla. Framkvæmdir á svæðinu voru litlar. Smálegt viðhald var í Snæfellsskála sem og á öðrum innviðum á svæðinu. 

COVID-19 krísa á hálendinu

Um mitt sumar greindist starfsmaður á hálendi COVID-19 jákvæður og þurfti stór hluti starfsmanna á hálendinu norðan jökla að fara í sóttkví að þessum sökum. Starfsmenn austursvæðis komu úr sumarfríum og aðrir starfsmenn svæðanna sem ekki tengdust smiti leystu málið með miklu púsli og fórnum. Engin fleiri smit greindust og því gátu starfsmenn smátt og smátt snúið til vinnu eftir sóttkví. 

Fræðsla og vöktun

Þátttaka í skipulagðri fræðslu dróst saman á hálendi austursvæði en jókst í Snæfellsstofu og við Hengifoss. Allri fræðsludagskrá var aflýst frá og með 4. ágúst vegna COVID-19. Þátttaka í fræðslu minnkaði um 15% í Hvannalindum í heildina en einungis um 3% ef borið er saman sama tímabilið (til 4. ágúst). Í Kverkfjöllum var samdráttur í þátttöku í fræðslugöngum í heildina 70% og í Snæfelli var samdrátturinn 35%. Þátttaka í barnastundum í Snæfellsstofu og fræðslugöngu við Hengifoss jókst um 50% á milli ára munar þar um fjölda Íslendinga sem ferðuðust mikið innanlands og dvöldu á tjaldsvæðum í nágrenni Snæfellsstofu.

  • Egilsstaðaskóli heimsótti Snæfell að vanda í gönguviku skólans. Gengu landverðir með 8.bekkingum upp með Hölkná um Vatnsdal í norðurhlíðum Snæfells og niður á Snæfellsnes. Þátttakendur voru um 45, nemendur og kennarar - þessi ganga er ætið gefandi og mikilvægur þáttur í starfsemi svæðisins.
  • Gæsavarp var metið í Hvannalindum að vanda auk þess sem haldið áfram með gróðurvöktunarverkefni í samvinnu við NA í lindunum. En tilfinning starfsmanna og þeirra sem vel til þekkja er að gróðri fari hniggnandi í lindunum.

Svæðisráð og rekstur

Miklar sviptingar voru í svæðisráði austursvæðis vegna sameiningar sveitarfélaga en Seyðisfjarðarkaupstaður, Fljótsdalshérað, Borgarfjörður Eystri og Djúpivogur sameinuðust í sveitarfélagið Múlaþing. Haldnar voru sveitarstjórnarkosningar skipað á nýjan leik í ráð og nefndir. Nýtt svæðisráð var skipað 20.október 2020, í kjölfar þeirrar tilnefningar kom ábending úr Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um kynjahalla og var því skipað á ný. 

Sjaldan hafa starfsmenn svæðanna þurft að gera eins margar sviðsmyndir í áætlanagerð þjóðgarðsins - en ástæðan er óvissuástandið vegna COVID-19. Fátt er með öllu illt að ekki boði gott en á austursvæði jókst yfirsýn starfsmanna á rekstri svæðisins og samanburður milli ára sýnir svart á hvítu að svæðið hefur staðið í stað hvað fjármögnun varðar. 

 

 

Vestursvæði

Þegar litið er um öxl er óhætt að segja að liðið ár hafi einkennst af óvissu og nýjum áskorunum. Starfstímabilið á hálendinu var óvenju stutt enda opnuðust leiðir með seinna móti og þegar leið á ágúst var faraldurinn, á ný, búinn að draga verulega úr ferðagleðinni. Íslendingar voru hins vegar duglegir að ferðast um fjöllin í sumar og gáfu sér góðan tíma til að njóta þeirra og því fækkaði gestakomum á háönn minna en búist hafði verið við.

Í desember setti Vatnajökulsþjóðgarður svo af stað nýtt verkefni á Kirkjubæjarklaustri, í samstarfi við Skógræktina. Verkefnið felst í gerð ævintýraskógar, í þjóðskóginum á Kirkjubæjarklaustri og er hugsað sem lifandi samfélagsverkefni, sem byggir á útivist og náttúruupplifun, leik og sköpun.

Fræðsla

Fræðsluhlutinn í starfi landvarða hefur líklega aldrei verið meiri, enda landar okkar áfjáðir í að fá upplýsingar, mæta í fræðslugöngur og sækja sér leiðbeiningar, hugmyndir og fróðleik í smiðju þeirra. Breyttar aðstæður komu þyngst niður á Skaftárstofu. Í fyrstu bylgju COVID-19 var upplýsingamiðstöðinni lokað og var hún lokuð frá 20. mars -21. maí. Eftir það var opið alla daga fram til 5. nóvember þegar opnunartíminn var styttur á ný og fljótlega lokað alveg enda sóttvarnir hertar og mjög fáir gestir.

Þegar færra fólk er á ferðinni er mikilvægt fyrir samfélagið að gestirnir staldri við lengur en part úr degi. Frá júnílokum fram í ágúst, bauð landvarðateymið á Skaftárstofu því gestum í daglegar fræðslugöngur um náttúruperlur í nágrenninu. Auk þess var ferðamönnum vísað á skemmtilegar gönguleiðir, afþreyingu og áfangastaði innan svæðisins.

Skóflustunga að nýrri gestastofu

Sunnudaginn 7. júní, á 12 ára afmæli Vatnajökulsþjóðgarðs var blásið til hátíðarhalda á Kirkjubæjarklaustri. Tilefnið var fyrsta skóflustungan að byggingu nýrrar gestastofu þjóðgarðsins. Gestastofan rís við Sönghól, í landi Hæðargarðs, en Magnús Þorfinnsson, fyrrverandi bóndi í Hæðargarði gaf Vatnajökulsþjóðgarði lóð undir bygginguna. Veðrið lék við gesti, sem fjölmenntu til hátíðarhalda og fylgdust með Magnúsi, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, Söndru Brá Jóhannsdóttur, sveitarstjóra Skaftárhrepps og Ástu Berghildi Ólafsdóttur formanni svæðisráðs vestursvæðis og oddvita Ásahrepps, taka fyrstu skóflustunguna. Umhverfisráðherra flutti ávarp og gestir nutu tónlistaratriða frá Tónlistarskóla Skaftárhrepps. Að þessu loknu færðist gleðin inn í Skaftárstofu, þar sem dagskráin hélt áfram og endaði svo með veislukaffi í umsjá Kvenfélags Kirkjubæjarhrepps. Nemendur Heilsuleikskólans Kærabæjar tóku einnig þátt í deginum með myndlistarsýningu á veggjum félagsheimilisins.

Ævintýraskógurinn

Í upphafi aðventu var fyrirsjáanlegt að hefðbundnar skemmtanir (s.s. samsöngur og jólatrésskemmtanir) yrðu erfiðar í framkvæmd. Við ákváðum því, í samstarfi við Skógræktina, að bregða á leik og hvetja börn og fullorðna til að nýta sér skóginn á Kirkjubæjarklaustri til útivistar og skemmtunar. Skógurinn er svokallaður þjóðskógur en fjölskyldan á Kirkjubæjarklaustri hóf þar skógrækt upp úr 1940. Skógurinn er eign Klausturbænda, en hefur verið í umsjá Skógræktarinnar í rúma hálfa öld. Við sendum út boð til skólanna í Skaftárhreppi og íbúa á Klausturhólum um að vera með okkur í að skapa ævintýraskóg og fengum góð viðbrögð, m.a. fallegt skraut á jólatré, söngtexta fyrir þá sem taka vildu lagið á göngunni og skemmtilegar kynjaverur. Ævintýraskógurinn nær frá Systrafossi og í gegnum dimmasta hluta skógarins. Skógurinn var tilbúinn um miðjan desember og skemmtilegt var að fara um hann bæði í björtu og í rökkri með vasaljós. Nú eru jólin að baki og Grýla og aðrar jólaverur draga sig í hlé. Ævintýraskógurinn er þó kominn til að vera og vonir standa til að nýir íbúar og ný ævintýri birtist þar von bráðar, í stað þeirra sem hverfa á braut.

 

 

 

 

 

Norðursvæði

Ársins 2020 verður helst minnst fyrir tvennt: COVID-19 aðgerðir og fjölda Íslendinga sem skelltu sér í útilegu í Ásbyrgi. Veður var mjög kaflaskipt og má í grófum dráttum lýsa sumrinu þannig að maí var kaldur, júní sólríkur og hlýr, júlí kaldur og ágúst hlýr.

Fræðsla og viðburðir

Verulega dró úr heildarfjölda gesta í Jökulsárgljúfrum árið 2020. Þannig var fjöldi ferðamanna við Dettifoss ekki nema tæplega þriðjungur af því sem hann var árið á undan. Skýrist það af mikilli fækkun erlendra ferðamanna sem ekki gátu lagt leið sína til Íslands sökum heimsfaraldursins. Íslendingar flykktust á hinn bóginn í Ásbyrgi til að njóta þar veðurblíðu og náttúrufegurðar, og þar nam heildarfækkun ferðamanna tæpum þriðjungi.

Vegna COVID-19 varð lítið úr fræðsludagskrá landvarða sumarið 2020 og var hún blásin af um mitt sumar vegna samkomutakmarkana. Sömuleiðis var Jökulsárhlaupinu aflýst í fyrsta sinn frá því að keppnin hófst árið 2004.

Framkvæmdir

Vinna við Dettifossveg og tengivegi hélt áfram og jafnframt var unnið að betrumbótum á göngu-, hjóla- og reiðleiðum. Bílastæði við Gljúfrastofu var malbikað í júní. Bygging nýs salernishúss við Dettifoss vestanverðan hófst og var langt komin í lok ársins.   

 

 

Norðurhálendi

COVID-19 setti sitt mark á starfsemina. Landverðir fóru í sóttkví í 2 vikur en tekist var á við þá áskorun með mikilli samheldni og af æðruleysi. Þrír hlupu í skarðið við krefjandi aðstæður og munaði þá um að það voru reyndir landverðir, því veður var gott og umferð mikil. Gestir voru annars í heildina færri en undangengin ár. Vegir voru opnaðir 25. júní en ekki var eftirspurn ferðaþjónustuaðila eftir undanþágum, líkt og verið hefur. Veður var almennt í kaldara lagi - hlýir kaflar inn á milli, en einnig hraustleg vetrarskot með snjókomu. Milt veður var í byrjun október, þegar landverðir fóru til byggða 4.október.

Óhöpp og slys voru með minna móti. Rannsóknaraðilar voru færri en undangengin ár, en margir erlendir aðilar frestuðu um ár vegna COVID-19.

Í lok árs tók Anna Þorsteinsdóttir til starfa sem þjóðgarðsvörður og Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir lét af því starfi eftir 10 ár á svæðinu. 

Landvarsla

Níu landverðir skiptu með sér 7 stöðum en jafnframt voru tveir landverðir austursvæðis í tengslum við samstarf um landvörslu í Krepputungu. Landverðir voru með megin starfsstöð í Drekagili en jafnframt var einn landvörður í Herðubreiðarlindum, í tengslum við samstarf við Ferðafélag Akureyrar. Aðstöðuhús í Vikraborgum í Öskju var vígt, en þar er gestamóttaka og aðsetur landvarða yfir daginn. 

Fræðsla og viðburðir

Þrjár göngur voru á fræðsludagskrá daglega; í Holuhrauni, Öskju og Herðubreiðarlindum, en að auki voru sérviðburðir á Knebelsdag og hefðbundnum hátíðisdögum í náttúruvernd. Heildarþátttaka var minni en undanfarin ár, enda tímabilið styttra vegna sóttkvíar landvarða. Þátttaka Íslendinga rauk upp miðað við fyrri ár, enda hlutfall þeirra nú mun hærra miðað við erlenda gesti. Vegalandvarsla var með hefðbundnu sniði og hefur skilað góðum árangri í þátttöku í fræðslu og baráttu gegn akstri utan vega. 

Framkvæmdir

Átak var gert í stikun gönguleiða og allar gönguleiðir í Herðubreiðarlindum og að uppgöngu við Herðubreið voru endurstikaðar. Jafnframt voru allar gönguleiðir á svæðinu ferlaðar með RINEX, sem veitir nákvæmar landupplýsingar. Akvegur að Herðubreið var endurstikaður, sem og vesturhluti Flæða og Dyngjufjalladalur að Botna. Vegagerðin stækkaði bílastæði í Vikraborgum og keyrði efni í vegi niður úr Öskjuopi, við Herðubreiðartögl og í Lindahrauni efra. Ferðafélag Akureyrar vann hörðum höndum að byggingu aðstöðuhúss fyrir tjaldgesti.

Tilraunir með jarðgerð seyru héldu áfram. Græntunnur undan salernum í Vikraborgum eru fluttar í Ásbyrgi, en tveggja ára seyra kom vel undan seinni vetri og var tilbúin til dreifingar. Í ár var gerð sú nýbreytni að bæta gerjuðum matarafgöngum (Bokashi) samanvið.