Ferðast um þjóðgarðinn
Description

Hoffell

Hoffell

HoffellTHO012Í Nesjum skammt norðan Hafnar í Hornafirði er Hoffell; fornt höfuðból í jaðri mikilla fjalla og Vatnajökull þar að baki. Hluti jarðarinnar er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og hafa landeigendur byggt upp aðstöðu sem gerir ferðalöngum kleift að njóta svæðisins.

Hoffellsjökull er með stærstu skriðjöklum sem ganga úr Vatnajökli en hefur síðan á fyrri hluta síðustu aldar hopað mikið. Því hefur myndast djúpt lón fyrir framan jökultunguna sem á fljóta stórir ísjakar. Vegslóði liggur að jökulöldu í jaðri HoffellTHO008Hoffellsjökuls og fæst þaðan gott útsýni yfir jökulinn og lónið.

Austan Hoffellsjökuls eru Hoffellsfjöll og Núpar; mikið fjalllendi sem um liggur fjöldi gönguleiða. Stutt hringleið er um Geitafellsbjörg og einnig má ganga á topp Geitafells. Lengri ganga er norður að Múla og Gjánúpi en þar blasa við snarbrött fjöll sem smöluð eru á hverju hausti. Á þeirri leið þarf að þvera Efstafellsgil sem er aðeins fyrir fótvissa fjallamenn.

Í ferðaþjónustunni að Hoffelli II er upplýsingagjöf í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð.

Hoffell - myndasafn

Vegasamgöngur

Frá þjóðvegi 1 eru um fjórir kílómetrar að ferðaþjónustunni í Hoffelli. Skömmu áður en þangað er komið má beygja til vinstri inn á vegslóða sem liggur að Hoffellsjökli. Leiðin að jöklinum er 4,5 km og tekur um 10 mínútur að aka hana. Eitt óbrúað vatnsfall er á leiðinni. Það er alla jafna fært jepplingum en getur vaxið mjög í rigningum. 

Almenningssamgöngur

Strætó bs. er með reglubundnar ferðir milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Er þá ekið framhjá heimreiðinni að Hoffelli. Upplýsingar um áætlun eru á heimasíðu Strætó: http://www.straeto.is/leidakerfi/51

Gisting og önnur þjónusta við ferðamenn

Heimamenn í Hoffelli reka þar gistiheimili sem hægt er að fá nánari upplýsingar um á heimasíðu þeirra. Fleiri gistiheimili og hótel eru í nágrenninu, sjá www.rikivatnajokuls.is

Veitingasala er á Höfn í Hornafirði og á gistiheimilum og hótelum í nágrenninu. Nálægasta verslun er í Nesjahverfi á sumrin en á Höfn í Hornafirði allan ársins hring.

Afþreying

Gönguleiðir liggja víða um Hoffellsfjöll og Núpa. Eru þær merktar á gönguleiðakort sem gefið hefur verið út fyrir Nes. Einnig má finna gönguleiðakort á upplýsingaskilti við Hoffellsjökli.

Heimamenn bjóða upp á fjórhjólaferðir að jaðri Hoffellsjökuls.