Ferðast um þjóðgarðinn
Description

Aðgengi hreyfihamlaðra

Aðgengi hreyfihamlaðra

AsbyrgiGO03Eitt af markmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs er að gera hreyfihömluðum kleift að njóta garðsins og innviða hans. Eru gestastofur Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi, Skaftafelli, Höfn og á Skriðuklaustri aðgengilegar öllum, og svo verður einnig um þær gestastofur sem byggðar verða í framtíðinni.

Norðursvæði

Innst í Ásbyrgi er búið að útfæra stíg að útsýnispalli yfir Botnstjörn þannig að hann uppfylli kröfur fyrir aðgengi einstaklinga með gönguhömlun. Stígurinn er með þjappaðri mjöl, handriðum þar sem þess þarf og bekkjum með 100 m millibili.

Bílastæði fyrir hreyfihamlaða er við innsta hluta Ásbyrgis. Einnig eru bílastæði fyrir hreyfihamlaða við Gljúfrastofu, í Vesturdal, Hólmatungum og Dettifoss að austan en öll þarfnast þau úrbóta.

Í Gljúfrastofu og á tjaldsvæði í Ásbyrgi eru salerni aðgengileg öllum. Ennfremur eru þannig salerni á eftirtöldum áningarstöðum, sem þó þarfnast úrbóta og betri aðkomu:

  • við Dettifoss beggja megin
  • í Hólmatungum
  • á tjaldsvæði í Vesturdal (Hljóðaklettar)
Ýtarlegri upplýsingar um aðgengi hreyfihalmaðra má finna hér: http://godadgang.dk/is/search/mainsheet.asp?id=7143

Austursvæði

Við Snæfellsstofu eru bílastæði fyrir hreyfihamlaða og salerni aðgengileg öllum.

. Í Kverkfjöllum er salerni aðgengilegt öllum.

Suðursvæði

Malbikaður stígur er frá Skaftafellstofu áleiðis að Skaftafellsjökli. Stígurinn náði áður að útsýnispalli nálægt jöklinum en vegna grjóthruns úr hlíðum Skaftafellsheiðar er ekki lengur fært alla leið að útsýnispallinum. Því hefur verið lögð hjáleið á nýjan útsýnisstað og er hún enn sem komið er ekki hjólastólafær. Sá hluti malbikaða stígsins sem enn er í notkun er sæmilega fær hjólastólum en stenst þó ekki viðmið Ferðamálastofu þar að lútandi.

Í Skaftafellsstofu og á tjaldsvæði í Skaftafelli eru salerni aðgengileg öllum og einnig sturtur fyrir alla. Við Skaftafellsstofu eru bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Í Gömlubúð á Höfn er bílastæði fyrir hreyfihamlaða og salerni aðgengileg öllum. Lyfta er í húsinu.

Vestursvæði

Salerni aðgengilegt öllum er við Tjarnargíg í Laka.


Flokkunarviðmið Ferðamálastofu fyrir aðgengi að áningar- og útivistarsvæðum á Íslandi : [pdf 161kb]


L16STÍGUR FÆR EINSTAKLINGUM MEÐ GÖNGUHÖMLUN

Stígar eru með bundnu slitlagi, timburpallar eða þjöppuðu malarlagi án lausamalar á yfirborði. Rifur á milli fjala og eða hella mega ekki vera meiri en 5mm.Stígar eru yfir 75 cm breiðir.Halli á stíg og eða skábraut fer að jafnaði ekki yfir 1:15 (6,7%) og aldrei yfir 1:12 (8%). Bil á milli handriða er um 90 cm og aldrei meira en 120 cm.Hvíldarsvæði með bekkjum eru með um 100 m millibili.

L18STÍGUR FÆR EINSTAKLINGUM Í HJÓLASTÓL MEÐ AÐSTOÐARMANN

Stígar eru með bundnu slitlagi, timburpallar eða þjöppuðu malarlagi án lausamalar á yfirborði. Rifur á milli fjala og eða hella mega ekki vera meiri en 5mm. Stígar eru 90 cm eða breiðari. Halli á stíg og eða skábraut er að jafnaði ekki yfir 1:15 (6,7%), þurfi að brúa meiri hækkun t.d. með þrepum þá séu ekki fleiri en eitt þrep í einu og ekki fleiri en 3 stök þrep á hverja 50 m. Hvíldarflötur sé ekki styttra en 120 cm eftir hvert þrep. Hvert þrep sé ekki hærra en 15 cm. Hvíldarsvæði með bekkjum eru með um 100 m. millibili og með a.m.k. 90 cm breiðu svæði fyrir hjólastóla við bekkina Hliðarkantar á skábrautum a.m.k. 4 cm.


L17STÍGUR FÆR EINSTAKLINGUM Í HJÓLASTÓL ÁN AÐSTOÐARMANNS

Stígar eru með bundnu slitlagi, timburpallar eða þjöppuðu malarlagi án lausamalar á yfirborði. Rifur á milli fjala og eða hella má ekki vera meiri en 5mm. Stígar eru 90 cm eða breiðari. Halli á stíg og eða skábraut fari að jafnaði ekki yfir 1:20 (5%), þurfi að brúa meiri hækkun skulu vera hjálparhandriði á þeim stöðum, þó fari halli aldrei yfir 1:15 (6,7%), bil á milli handriða sé um 90 cm og aldrei meira en 120 cm. Hliðarhalli á stígum sé að jafnaði ekki meiri en 1:50 (2%). Hvíldarsvæði með bekkjum séu með um 100 m millibili og með a.m.k. 90 cm breiðu svæði fyrir hjólastóla við bekkina. Meðfram skábrautum skal vera hliðarkantar a.m.k. 4 cm háir.