Um okkur
Description

Þjóðgarðsverðir

Þjóðgarðsverðir

Þjóðgarðsverðir eru ráðnir af stjórn samkvæmt tillögu svæðisráða og svara til ábyrgðar á fjárreiðum og reikningshaldi, sbr. ákvæði laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Framkvæmdastjóri er næsti yfirmaður þjóðgarðsvarða.

Þjóðgarðsverðir annast daglegan rekstur, hver á sínu rekstrarsvæði. Þeir eru framkvæmdastjóra til ráðgjafar við gerð tillögu að rekstraráætlunum svæðanna á grunni þess fjárhagsramma sem stjórn setur.

Þeir aðstoða svæðisráð við gerð tillögu að verndaráætlun og stjórn við gerð tillögu að Stjórnunar- og verndaráætlun. Þeir sjá einnig um að hrinda staðfestri Stjórnunar- og verndaráætlun í framkvæmd innan fjárhagsramma hvers rekstrarsvæðis.

Þjóðgarðsverðir ráða starfsfólk þjóðgarðsins, hver á sínu rekstrarsvæði. Þjóðgarðsverðir bera ábyrgð á að rekstur aðstöðu á vegum þjóðgarðsins uppfylli lagakröfur, meðal annars um umhverfismál, vinnuvernd og eldvarnir. Þjóðgarðsverðir gefa út leyfi þar sem starfsemi þarf að styðjast við þau. Þeir hafa eftirlit með að farið sé að lögum, reglum og ákvæðum Stjórnunar- og verndaráætlunar. Þeir annast samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld ef út af bregður. Þeir hafa vald til að loka tímabundið fyrir umferð og er heimilt að vísa á brott úr þjóðgarðinum þeim sem brjóta reglur hans, sbr. ákvæði í lögum og reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.

Þjóðgarðsverðir hafa yfirumsjón með fræðslu um þjóðgarðinn og náttúruvernd, hver á sínu rekstrarsvæði og með hliðsjón af þjóðgarðinum í heild. Þeir sjá um að útfæra þjónustuhlutverk þjóðgarðsins og eiga samstarf við stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og aðra hagsmunaaðila um málefni hans. Þjóðgarðsverðir sitja fundi svæðisráða.