Um okkur
Description

Fréttir

Þingeyskir skólakrakkar taka þátt í Fræðsluskjálfta

24.4.2012

Síðustu tvær vikurnar hafa þingeyskir skólakrakkar verið á ferð um Norður-Þingeyjarsýslu og tekið þátt í verkefninu Fræðsluskjálfta sem er samstarfsverkefni Gljúfrastofu í Ásbyrgi og Skjálftasetursins á Kópaskeri. Verkefnið var sett á laggirnar á vordögum 2010 og snýst um það að kynna fyrir nemendum starfsemi Skjálftaseturs og Gljúfrastofu með sérstakri áherslu jarðskjálfta og þar af leiðandi Kópaskersskjálftann sem skók Norðausturland 13. janúar 1976. Inn í þetta fléttast svo fræðsla um ýmis jarðfræðifyrirbrigði innan þjóðgarðs og í nærsveitunum. Markmiðið með verkefninu er að gefa nemendum á miðstigi grunnskóla kost á að taka þátt í fræðandi verkefni um jarðskjálfta og eldvirkni, tengja þjóðgarðinn nærsveitunum og sérstöðu þeirrra, auka staðarstolt og efla náttúrufræðikennslu.

Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf. í Reykjahverfi hefur verið ötull stuðningsaðili verkefnisins með því að koma til móts við ferðir skólahópanna. Í ár lagði fyrirtækið auk þess til styrktarfé frá erlendri ferðaskrifstofu sem fékk fyrir tilstuðlan Fjallasýnar að heimsækja þjóðgarðinn á nýstárlegan hátt síðastliðið haust.

Fimm skólar tóku þátt í verkefninu að þessu sinni; 3.-6. bekkur frá Stórutjarnaskóla, 4,-7. bekkur frá Litlulaugaskóla, 4.- 7. bekkur frá Hafralækjarskóla, 3.-8. bekkur frá Reykjahlíðarskóla og 6. bekkur frá Borgarhólsskóla. Myndir úr ferðunum má nálgast á fésbókarsíðum þjóðgarðsins og Skjálftasetursins. Starfsfólk Gljúfrastofu og Skjálftaseturs þakkar kærlega fyrir góðar heimsóknir og bíður spennt eftir að ný hrina af Fræðsluskjálfta gangi yfir!