Um okkur
Description

Fréttir

Snæfellsstofa opnuð með viðhöfn

25.6.2010

Snaefellsstofa-opnud-02

Snæfellsstofa á Skriðuklaustri var opnuð með viðhöfn í gær, en Snæfellsstofa er nýbyggð gestastofa fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, minjagripaverslun, skrifstofur starfsfólks þjóðgarðsins og sýningin Veraldarhjólið.


BYGGINGIN
Gestastofan að Skriðuklaustri sækir m.a. hughrif til Gunnarshúss og notuð eru byggingarefni úr nánasta umhverfi stofunnar - lerki og gras á þaki og hleðslur í lóð hlaðnar úr heimafengnu grjóti. Form byggingarinnar er innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins, hvernig hann ýmist brýtur sér leið í gegnum landið eða hopar og sverfur nýjar, síbreytilegar náttúruperlur í landslagið.

Gestastofan er fyrsta vistvænt vottaða bygging landsins. Hún er byggð samkvæmt umhverfisstaðlinum BREEAM sem gerir kröfur um notkun á vistvænum byggingarefnum og byggingaraðferðum, minni orkunotkun, meiri endingu og minna viðhald, til að stuðla að vistvænni byggingum og umhverfi.

SÝNINGIN
Veraldarhjólið fjallar um hringrás og mótun náttúrunnar og leggur áherslu á samspil gróðurfars og dýralífs á austursvæði þjóðgarðsins.

Hringrásin birtist í ýmsum myndum á sýningunni, í vatnafarshring, árstíðaskiptum og hringrás lífs og dauða. Hún birtist einnig í vatnshjólinu sem minnir á hringiðu mannlífs í tímans rás og á mylluhjólið sem malaði korn nótt sem nýtan dag á Skriðuklaustri á 19. öld - Veraldarhjólið.

Snaefellsstofa-opnud-01