Um okkur
Description

Fréttir

Eftirlit með íshellaferðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs

11.1.2017

Eitt að einkennum íslenskrar náttúru er síbreytileikinn, m.a. í eldfjallalandslagi, veðurfari og ásýnd jökla. Íshellar eru eitt af þeim síkviku náttúrufyrirbærum, sem með sínum bláa lit og tærleika, heilla æ fleiri ferðalanga sem sækja landið heim.  Íshellar í jöklum myndast yfirleitt vegna vatnsstreymis eða jarðhita. Þeir færast til og breytast með skriði jöklanna og eru því ekki varanleg fyrirbrigði heldur eyðast þeir vegna bráðnunar. 


Á síðustu árum hefur sá hópur ferðaþjónustufyrirtækja sem bjóða upp á skipulagðar ferðir í íshella í Vatnajökli farið ört stækkandi, samhliða aukningu ferðamanna til landsins. Eftir breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem samþykktar voru í september 2016, er atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins orðin leyfisskyld. Í framhaldi af því, samþykkti stjórn þjóðgarðsins á fundi 3. nóvember 2016 að koma af stað eftirliti landvarða með ferðum að íshellum í Vatnajökli í vetur, þá sérstaklega í Breiðamerkurjökli. Tilgangur eftirlitsins er fyrst og fremst að auka þekkingu og skilning þjóðgarðsins á þessari atvinnustarfsemi og verður meðal annars safnað ýmsum upplýsingum sem talið er að gagnist í yfirstandandi vinnu við gerð samninga og útgáfu leyfa. Að auki munu landverðirnir fylgja lögbundinni skyldu sinni; að hafa eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum laga og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og að ákvæði verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn séu virt. 

Þjóðgarðurinn fékk leyfi frá Sveitarfélaginu Hornafirði til að setja upp tímabundna aðstöðu (gámahús) við veginn sem liggur inn að Breiðamerkurjökli, vestan Jökulsárlóns, og var það sett niður 19. desember síðastliðinn. Landverðir hafa reglubundna viðveru við aðstöðuhús og fylgjast með og skrá niður umferð um svæðið sem og að fara reglulega að jökli til að kynna sér aðstæður og fylgjast með umgengni.

Jöklar og landsvæði framan við jökla eru áhættusöm yfirferðar. Hætta er á íshruni, falli í jökulsprungu eða svelg og hættu á ofkælingu skal aldrei vanmeta. Í jaðri skriðjökla  leynist oft sandbleyta og hættulega kalt vatn, oft hulið þunnum ís. Framan við hopandi jökul er gjarnan „dauðís“ undir jökulurðinni sem bráðnar smámsaman og það getast myndast stór jökulker. Í brattlendi við hopandi skriðjökla er veruleg hætta á grjóthruni og skriðum. Nauðsynlegt er að þeir sem leggja á jökul, heimsækja íshella, eða fara um svæði framan við jökla hafi til þess viðeigandi kunnáttu og búnað. Í Vakanum, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar er verið er að vinna að viðmiðum fyrir íshellaferðir. Á meðan þau eru ekki komin, er vakin athygli á viðmiðum VAKANS „203 Gönguferðir um jökla og fjöll“. 
Þeim tilmælum er beint til þeirra sem bjóða upp á skipulagðar ferðir í íshella að fylgja  þessum viðmiðum við skipulagningu ferða. Það á ekki síst við hvað varðar hlutfall viðskiptavina á leiðsögumann og öryggisþætti almennt. Á fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 7. desember síðastliðinn var samþykkt að fara í framkvæmd á áhættumati á þessu svæði. Starfsmenn þjóðgarðsins fagna þeirri framkvæmd sem vonandi næst að klára á þessum vetri, þannig að hægt verði að fara að vinna eftir því mati næsta vetur.

Vert er að benda á að malarslóðinn inn að Breiðamerkurjökli er ekki undir formlegu veghaldi Vegagerðarinnar. Vegurinn er illfær venjulegum bílum og ólíklegt að hefðbundnar tryggingar bæti tjón á ökutækum. Enn fremur skal það tekið fram að óheimilt er að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi innan Vatnajökulsþjóðgarðs og að allur akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Vatnajökulsþjóðgarði er bannaður, nema á snævi þakinni og frosinni jörð.  

Ný lög um Vatnajökulsþjóðgarð má nálgast hér

Tengdar fréttir.