Fræðsla og fróðleikur
Description

Almennt um þjóðgarða

Almennt um þjóðgarða

SkaftafellGO124Verndarsvæðum er skipt í nokkra flokka og tilheyra þjóðgarðar einum þeirra. Alþjóða náttúruverndarsamtökin IUCN (the International Union for Conservation of Nature) standa að baki flokkuninni og skilgreina þau þjóðgarða sem stór og ósnortin eða lítt snortin svæði sem tekin eru til hliðar í því skyni að vernda heildræna vistfræðilega framvindu, með stuðningi við einkennandi tegundir og vistkerfi viðkomandi svæðis. Jafnframt er það markmið að veita ýmiskonar tækifæri fyrir gesti, sama hvort þau eru vísinda-, fræðslu-, afþreyingar- eða andlegs eðlis, svo lengi sem þær athafnir samrýmist umhverfi og menningu svæðisins.


Tilurð þjóðgarða má rekja til Bandaríkjanna og er Yellowstone þjóðgarður þar í landi yfirleitt talinn sá fyrsti á heimsvísu. Stjórnvöld í Bandaríkjunum skilgreindu árið 1872 Yellowstone sem friðað svæði ætlað almenningi að njóta og nokkrum árum síðar var Yellowstone formlega skilgreint sem þjóðgarður. Í millitíðinni hafði þó verið stofnað til þjóðgarðs í Ástralíu þar sem Royal National Park var settur á laggirnar 1879.

Önnur lönd fylgdu í kjölfarið. Rocky Mountains Park (síðar Banff National Park) var stofnaður 1885 í Kanada og Tongariro National Park á Nýja Sjálandi árið 1887. Fyrstu þjóðgarðar Evrópu voru stofnaðir í Svíþjóð árið 1909 en það voru þá níu þjóðgarðar vítt og breitt um Svíaríki.

Þjóðgarðar hafa þróast með öðrum hætti í Evrópu en til að mynda í Norður-Ameríku. Þar vestra voru víðfeðm svæði ósnortin af athöfnum mannsins en því var öðruvísi farið í Evrópu sem hafði verið öllu þéttbýlli um aldaraðir. Þess vegna er það svo að þjóðgarðar Evrópu ná flestir yfir fremur smá svæði og umtalsverð búseta manna þekkist innan þeirra, svo sem í Cairngorms þjóðgarði í Skotlandi.


Vatnajökulsþjóðgarður er stærsti þjóðgarður Vestur Evrópu og er það vísbending um hversu stór hluti íslenskrar náttúru er ósnortinn af manna völdum. Hann er þó fráleitt stærsti þjóðgarður heims; sú nafnbót tilheyrir þjóðgarðinum á Norðaustur-Grænlandi sem stofnaður var 1974 og stækkaður 1988. Hann er að flatarmáli 972.000 ferkílómetrar eða nálægt tífalt stærri en Ísland, álíka stór og Frakkland og Þýskaland samanlögð.