Beint í efni

Lakagígar

Um Lakagíga
– komdu í heimsókn

Lakagígar eru rúmlega 29 km löng gígaröð sem varð til í Skaftáreldum árin 1783-1784, einu stærsta hraungosi Íslandssögunnar. Gígarnir eru yfir 130 talsins. Skaftáreldar eru einar mestu náttúruhamfarir frá því að land byggðist og þeim fylgdu Móðuharðindin sem höfðu áhrif á veðurfar, uppskeru og lífsviðurværi fólks víða um heim. Í dag eru gígarnir mosum vaxnir og eru vinsæll áningarstaður vegna stórbrotnar náttúru sinnar og sögu.

Aðgengi, þjónusta og fræðsla

Við Laka er aðsetur landvarða sem veita upplýsingar um gönguleiðir, sögu og náttúru svæðisins. Við Tjarnargíg er svo gott að æja, njóta kyrrðarinnar og horfa á blæinn leika við vatnsyfirborðið í botni þessa fagra gígs. Á báðum stöðum eru áningarborð og salerni.

Vegurinn inn að Lakagígum (F206 og F207) er einungis fær fjórhjóladrifnum bílum og á leiðinni eru fjórar óbrúaðar ár sem geta vaxið í rigningum. Við hvetjum gesti til þess að kanna færð hjá landverði á gestastofu þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri áður en lagt er af stað og fá góð ferðaráð.

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins á vestursvæði þjóðgarðsins með því að ýta á hlekkinn.

Símanúmer landvarða í Lakagígum er 842 4358

Gisting

Gistiaðstaða á svæðinu er í Blágiljum þar sem er bæði tjaldsvæði og skáli. Skaftárstofa sér um bókanir í skálann sem rúmar 16 manns í kojum í einu rými. Þar er eldunaraðstaða, vatnssalerni og hægt að komast í heita sturtu. Aðeins er boðið upp á svefnpokapláss. Í Blágiljum er jafnframt einfalt hestagerði.

Nánari upplýsingar og pantanir eru hjá Skaftárstofu í síma 470 0409 eða á netfangið klaustur hjá vjp.is gjald fyrir gistingu er tekið samkvæmt verðskrá þjóðgarðsins.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Í nýjum hraunum og röku loftslagi svæðisins hafa skapast einstakar aðstæður fyrir mosa og fléttur. Þar hafa myndast víðáttumiklar breiður gamburmosa og sjaldgæfar vistgerðir með breiskjufléttur í aðalhlutverki. Mosamottan getur orðið það þykk að hún hamlar landnámi annarra plöntutegunda. Þó líður aldrei langur tími, á jarðfræðilegum tímaskala, þangað til árset, öskulag eða jafnvel hraunlag sest á gróðurþekjuna og myndar beð fyrir annan gróður.

Skaftáreldar

Hörmungarnar sem fylgdu Skaftáreldum eru þær mestu sem dunið hafa yfir Íslendinga. Úr Lakagígum runnu um 12 rúmkílómetrar hrauns til byggða í tveimur gríðarstórum tungum sem nú eru kallaðar Eldhraun og Brunahraun. Hrauntungurnar eyðilögðu allt sem á vegi þeirra varð, eyðisanda, beitilönd og haga. Eitruð aska, brennisteinsgös og gosmóða dreifðist yfir mestallt landið og mengaði loft. Af þessari móðu fengu harðindin nafn sitt – Móðuharðindi.

Vegna móðunnar kólnaði í veðri og hafís lagðist að landi. Þegar leið á veturinn 1783–1784 hrundi búfé niður úr hor og sjúkdómum sem stöfuðu af eitruðum gosefnum. Talið er að um þrír fjórðu hlutar alls búfjár á Íslandi hafi drepist. Í kjölfarið varð hungursneyð á landinu, auk þess sem faraldurinn Stóra bóla geisaði. Saman drógu hungrið og sjúkdómurinn fimmta hvern Íslending til dauða. Næst Skaftáreldum, í Fljótshverfi, Meðallandi og á Síðu var ástandið sérlega slæmt. Þar dóu um 40% íbúanna, 20 jarðir fóru undir hraun og þrjátíu stórskemmdust í eldunum. Áhrif gossins náðu auk þess langt út fyrir landsteinana. Gosmóðan hefur verið tengd kuldaskeiði í Alaska, þurrkum í Egyptalandi og súru regni og uppskerubresti í Evrópu sem leiddi til afdrifaríkra samfélagsbreytinga þar.

Skaftárstofa

Skaftárstofa er glæsileg ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs við Sönghól á Kirkjubæjarklaustri við þjóðveg eitt. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir Skaftárhrepp. Á meðan unnið er að nýrri fræðslusýningu um þjóðgarðinn í rýmið býðst gestum að skoða sýninguna Vorferð frá Jöklarannsóknafélagi Íslands. Sýninginn var gerð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins og varpar meðal annars ljósi á sögu félagsins, segir frá skálabyggingum, vorferðum á jökli, sporðamælingum, rannsóknarverkefnum, jöklabakteríunni og tímaritinu Jökli.